16.3.2008 | 21:09
NÝ ÍÞRÓTT, - HRAÐALEIKUR (FARTLEK) ?
Á deildinni á Borgarspítalanum þar sem ég er nú, liggja í næstu rúmum menn, sem hafa fengið brjósklos. Annar þeirra, Vilhjálmur Guðjónsson, tónlistarmaður, var að skemmta með mér sárkvalinn í Florida 8. mars og átti þá kvalafulla og svefnvana viku fyrir höndum. Hemmi Gunn var líka á skemmtuninni en við Villi, Hemmi, Haukur Heiðar og Pétur heitinn Kristjánsson mynduðum kvartettinn Fjörkálfana sem fór um landið 1994.
Hér á spítalanum höfum við Vilhjálmur talað um hálfkæringi að snúa bökum saman í baráttu okkar við ýmsan krankleika í þessum hluta líkama okkar. Sjálfur er ég með svonefnt samfall í neðstu hryggjarliðum, þ. e. brjóskið hefur barist saman í óhollum hlaupum á steinsteypu og malbiki og taugarnar sem liggja út í ganglimina eru því klemmdar.
Var ekki beinlínis heppilegt fyrir mig að fá mikla ígerð í bakið og þurfa að brjóta allar reglur um meðferð hryggjarliðanna með því að þurfa að sitja upp á ská á næturnar.
Raunar eru kvillarnir mínir brandari, því sá þriðji, bakflæði, kemur alveg í veg fyrir að ég geti legið láréttur, hvorki á maganum né bakinu.
Ég spilaði innanhússfótbolta í nokkur ár á steinsteypugólfi og hljóp áratugum saman á malbiki og harðri möl. Flest bök þola þetta en ekki öll. Vili var skorinn í gær og er allur annar maður.
Önnur "hlauparaveiki" er minna þekkt en það er tábergssig og stafar af sömu misnotkun beinanna. Við of mikil hlaup á hörðu undirlagi aflagast beinin frá hæl fram í tá smám saman og síga niður í gegnum ilina og þófana. Þetta gerist kannski ekki nema hjá minnihluta hlauparanna, en hjá miklu fleirum en ef hlaupið væri af meiri tillitssemi við það, fyrir hvað líkami okkar var skapaður.
Fyrstu einkennin eru bólga og eymsli í svipuðum dúr og maður fær eftir að lítil flís eða glerbrot hefur komist óvart inn í ilina. Maður leitar að flísinni eða glerbrotinu eins og vitlaus maður og finnur ekki neitt og tiplar um eins og norn á glóðum. Eftir nokkur ár í mislukkuðum eltingarleik og aðgerðum á borð við þykkari innlegg o. s. frv. kom síðan skýringin loks hjá sérfræðingi og lausnin var einföld: Mæling á fótunum og sérsmíðuð innlegg hjá Össuri.
Niðurstaða: Það er manninum hollast að haga sér og gera það sem hann er skapaður til. Og til hvers var hann skapaður? Jú, eftir úrval kynslóðanna sem komist hafa af í hundruð þúsunda ára erum við nokkurs konar niðurstaða, sem lá ljós fyrir á síðustu öld en taka mundi þúsundir ára að breyta í samræmi við breyttar lífsvenjur.
Hryggurinn í okkur var frábærlega hannaður fyrir ferfætt spendýr og náttúruúrvalinu hefur ekki unnist tími til að breyta því í neinum grundvallaratriðum. Eina leiðin við fæðingu, ef menn vilja nýta sér byggingu hryggjarins rétt, væri að fara niður í á fjóra fætur og vera í þeirri stellingu mest alla ævina. Ég mæli ekki með því.
Það er útséð um að jafnvel útsjónarsamasta tækni geti breytt því að við séum upprétt. En við eigum möguleika á að minnka líkurnar á því að bakið bili á margvíslegan hátt, sem ég hef reynt að nota síðustu árin af brýnni nauðsyn, en því miður allt of seint.
Fætur forfeðra okkar og iljar voru skapaðar til að ganga, skokka og hlaupa á misjöfnu undirlagi. Ekki að hlaupa marga kílómetra eða tugi kílómetra á degi hverjum á malbiki. Sem betur fer sleppa flestir langhlauparar við að vera refsað fyrir að fara svona með bak og fætur en fleiri myndu sleppa við kvillana sem ég hef hér talað um, ef hlaupa- og trimmvenjunum yrði breytt.
Á árunum í kringum 1940 var sænski millivegalengdarhlauparinn Gunder Hagg hinn besti í heimi. Þjálfunaraðferð hans byggðist á hlaupum um fjölbreytt landsins, mishröðum og mislöngum sprettum upp og niður brekkur á misjöfnu undirlagi. Aðferðina kallaði hann "Fartlek", hraðaleik.
Ég mæli með stofnuð verði samtök Hraðaleikshlaupara. Þeir æfðu sig undir eftirliti hver annars á þann hátt að forðast bak- og beinakvillana og héldu síðan mót á brautum sem væru lagðar í samræmi við það. Heimsmetstímar myndu ekki skipta máli, - er hvort eð er búið að skekkja og skæla svo margt í þeim efnum með tæknibrellum og lyfjum.
Þessi "Hraðaleikur" yrði ekki víðavangshlaup á malbiki, enda finnst mér vera mótsögn í því að kalla hlaup á hörðum og sléttum gangstéttum og akbrautum "víðavangs" hlaup.
Að lokum mataræðið. Ef við horfum upp í okkur sjáum við tennur, sem eru gerðar fyrir blöndu af grænmeti og kjöti.
Við vitum að enginn drakk gerilsneydda mjólk fyrir 1940.
Ef við lítum til þess hvar okkur líður best, er það í blönduðu umhverfi og betra að sem mest af því sé úti í náttúrunni.
Mér leið aldrei betur og var aldrei heilsuhraustari en við frumstæðar aðstæður í sveit, mykju, mýrar, drullu og spenvolga nýmjólk. Ég fór í bað tvisvar á sumri og svitnaði, blotnaði og þornaði á víxl.
Auðvitað þvoðum við okkur um hendurnar við rétt tækifæri o. s. frv. en ónæmiskerfið fékk nóg að gera allt sumarið, efldist og styrktist.
Nú stefnir fram í öld þar sem ofverndaðir afkomendur okkar fást við vaxandi sjúkdóma af völdum veiklaðs ónæmiskerfis.
Okkur líður að öðru jöfnu best ef við getum í nútíma umhverfi líkt sem best eftir þeim aðstæðum sem hinir hæfustu voru í meðal kynslóðanna á undan okkur og hegðað okkur sem líkast því.
Ég er ekki að tala um neitt meinlætalíf, það má auðvitað ýmislegt fljóta með sem kynslóðir fortíðarinnar þekktu ekki.
En niðurstaðan er líklega falin í gamla íslenska máltækinu: "Á misjöfnu þrífast börnin best."
Bendi að gamni mínu á skemmtilega umræðu á bloggsíðu Ólínar Þorvarðardóttur. Stundum fáum við Ólína svipaðar hugmyndar á svipuðum tíma.
Athugasemdir
Megir þú komast yfir þetta Ómar, en ef ég ætti að gefa þér eitt ráð þá yrði það; Jósep Blöndal í Stykkishólmi.
Annars, bestu batakveðjur.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 22:05
Ekki má gleyma því að Íslenskir karlmenn lifa lengst allra karlmanna, eða 79,4 ár að jafnaði. Íslensku konurnar geta vænst þess að lifa 82,6 ár og eru í fjórða sæti á eftir konum frá Taívan, Spáni og Sviss. Samkvæmt þessu, þá hafa lífskjör landans stórbatnað frá því sem áður var. Það hlýtur að liggja í bættu matarræði og betri aðbúnaði að einhverju leiti.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 16.3.2008 kl. 22:12
Þetta er bæði langur og góður pilstill Ómar. Það er þarna tvennt sem skilur á milli hjá okkur.
- Ég stunda langar göngur , oftast daglega , bæði á fótinn og jafnsléttu og á náttúrulegu undirlagi. Aldrei hlaup ef ég kemst hjá því
- Ég lagði alla mjólkurdrykkju af innan við fermingu.
- ÉR hef aldrei fengið í bakið og öll bein eru góðu lagi.
- Ég er fæddur í lok heimskreppunar miklu
Þetta er svona til gamans og kannski gangns sett hér á síðuna.
Óska þér og þínum legufélögum góðs bata.
Sævar Helgason, 16.3.2008 kl. 22:20
(leiðréttur texti)
Þetta er bæði langur og góður pistill Ómar. Það er þarna tvennt sem skilur á milli hjá okkur.
- Ég stunda langar göngur , oftast daglega , bæði á fótinn og jafnsléttu og á náttúrulegu undirlagi. Aldrei hlaup ef ég kemst hjá því. Í áratugi.
- Ég lagði alla mjólkurdrykkju af innan við fermingu.
- Ég hef aldrei fengið í bakið og öll bein eru góðu lagi.
- Ég er fæddur í lok heimskreppunar miklu
Þetta er svona til gamans og kannski gagns sett hér á síðuna.
Óska þér og þínum legufélögum góðs bata.Sævar Helgason, 16.3.2008 kl. 22:28
Skemmtilegur pistill og ber því vitni að þú þurfir að vera spakur þarna, sem trúlega er ekki líkt þér!
Ég hef stundum sagt í hálfkæringi að aukið langlífi landans sé tengt aukinni neyslu á hamborgurum, frönskum kartöflum, kokkteilsósu, pizzum, kjúklingum og meiri sykri. Hálfkæringu, já, en hvað er mikið til í þessu?
Við erum misvel gerð frá náttúrunnar (genetískt) hendi og því er misjafnt hvað við getum níðst á líkama okkar og þar sem ég er næstum því íþróttafíkill sé ég þetta allt í kringum mig. Sumir endast endalaust með svo mikilli áþján á alla líkamsparta að ég fæ bara verki af tilhugsuninni.
Vilhjálmur er flinkur tónlistarmaður, ég vona að ykkur félögunum gangi vel að komast beinir út úr þessu bakveseni.
Haukur Nikulásson, 16.3.2008 kl. 23:01
Sæll, vonandi áttu góðan bata, en ég hjó í það að þú nafngreinir herbergisfélaga þína og ég vildi bara minna þig á trúnaðarskyldu við fólk innan spítalans ;o).
kv. Sólveig
Sólveig (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 09:01
Sæll Ómar. Ég lék mér og gekk á malargötunum í Holtunum í Reykjavík.
Valdi mér ævistarf við garðyrkju, og þar var ekki tæknin, bara hendur og fætur og hjólbörur. Gengið á moldargólfi og hlaupið eftir kindum á grasi grónum grundum eða í mólendi.
Ég drakk mjólk úr sömu mjólkurbúð og þú, þar til í sveitina var komið. Þá var keypt mjólk á næsta bæ, í mörg ár.
Af hverju er ég með tábergsig og það sem verra er, liður stóru tánna orðinn svo eyddur að ég sit núna hérna heima í gifsi og búin að fá skrúfu í stóru tánna og búið að saga heilmikið af beini sem hún var á?
Ég vildi samt ekki vera í ykkar sporum á spítala. Þetta var Einkarekin heilbrigðisþjónusta.
Ég er frjáls af því hvenær ég fer að sofa og hvenær ég vakna.
Heldur þú að torfæruakstur þinn, hafi ekkert með þetta vandamál þitt í hryggnum að gera?
Kveðja frá fyrrum íbúa í Stórholti 23.
Pabbi minn keyrði líka á Þrótti eins og pabbi þinn
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 14:51
Aðeins í sambandi við ónæmiskerfið: Ég þekki eldri hjón sem hafa ferðast mikið erlendis áratugum saman. Aldrei varð þeim misdægurt á þessum ferðum fyrr en eitt árið að þau fengu kveisu, og ætíð síðan; í hverri ferð.
Þau eru sannfærð um að umskiptin urðu þegar þau fengu sér uppþvottavél, sem sýður og gerilsneyðir matardiskana þeirra.
Er það nokkuð ólíklegra en margt annað?
Hörður
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 16:38
Það er talað um að af misjöfnu þrífst barnið best og á þetta vel við í nútímaþjóðfélaginu þar sem allt verður að vera nánast steríleserað. Þetta með uppþvottavélina er sjálfsagt ekkert ólíkleg skýring.
Ofnæmistilfellum hefur fjölgað mjög hér á landi og kenna fróðir menn því um að of mikið sé þrifið með of sterkum sápum. Ónæmiskerfi okkar er ekkert ósvipað tölvu sem vantar skítinn og gerlana til þess að forrita það. Það s.s. þarf að læra á andstæðinginn en ef að það hefur engann lærir það ekki neitt. Það hjálpar heldur ekki til að foreldar séu sátt við það að börn séu inni alla daga í playstation eða að glápa á barnaefni.
Ómar, láttu þér batna sem fyrst, okkur sem þykir vænt um náttúru Íslands þurfum rödd þína á ný í umræðuna.
Pétur Kristinsson
Pétur Kristinsson, 17.3.2008 kl. 17:37
Takk fyrir góðar óskir. Hjá mér var nú rétt í þessu Jakob Frímann Magnússon sem fræddi mig um það hve miklum usla það hefur valdið hér á landi að láta rafbylgjur leika um hús og umhverfi okkar. Hann telur til dæmis mikinn misbrest á því að rafmagn sé jarðtengt í byggingum og bendir á það þegar tókst að ná seiðadauða í fiskeldi nyrðra úr 93% niður í rúm 30% með því einu að endurhanna allt rafmagn í og við kerin.
Að lokum. Hvítasykurinn er skæður óvinur okkar og þetta segi ég um leið og ég viðurkenni veikleika minn gegn fíkniáhrifum neyslu hans. Ég hef á undan mér víti til varnaðar, hvernig hann fór með föður minn sáluga, sem dó úr áunnri sykursýki mestan part.
Ómar Ragnarsson, 17.3.2008 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.