HINN HUGLÆGI STYRKUR KRÓNUNNAR.

(Þessi pistill er að miklu leyti samhljóða pistli sem ég skrifað beint á eftir honum vegna mistaka minna við uppsetningu. Læt hann samt standa en vísa í þann nýrri, enda þegar komin ein athugasemd.) 

Öll þekkjum við viðbrögð hundsins sem væntir þess að góður kjörbiti sé á leiðinni til hans: hann fyllist miklum óróa, iðar, slefar og spennist allur upp, jafnvel í langan tíma áður en bitinn berst til hans. Í 40 ár hafa stjórnmálamenn kennt þjóðinni svipaða hegðun með því að nefna eitt orð: Álver.

Góð var greining tveggja sérfræðinga í fjölmiðlum í dag á styrkri stöðu krónunnar undanfarin þensluár. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að hún byggðist eingöngu á huglægu mati á henni en að engu leyti á aukinni verðmætasköpun. Upphaf þenslunnar og slefunnar var gott dæmi: 2002 var veifað framan í þjóðina væntanlegum stóriðjuframkvæmdum og viti menn: Í næstum heilt ár slefaði þjóðin og iðaði í spennu eins og hundur í þenslu, þótt framkvæmdir væru ekki hafnar.

Ágætur sérfræðingur við Seðlabankann rannsakaði málið og fann út að 80 prósent af þenslunni mátti finna í auknum yfirdrætti á greiðslukortum. Stórum amerískum pallbílum var mokað inn í landið, fólk flykktist til að kaupa allt frá sjónvarpstækjum upp í hús og viðskiptahallinn og skuldasöfnun við útlönd ruku upp úr öll valdi.

Stjórnvöld gerðu sitt með því að efna til fyllerís á húsnæðismarkaðnum í kjölfar kosningaloforða sem varð til þess eins að fjórum árum síðar var lánaaukningin meira en brunnin upp í stórhækkuðu fasteignaverði og greiðslubyrði. 

Með látlausri skuldasöfnun, eyðslu, stóriðjuframkvæmdum og þenslu sem kallað hefur á ofurvexti, stýrðum af Seðlabankanum, hefur tekist að halda hinni huglægu stöðu krónunnar í fáránlegri hæð, bröskururm með krónubréf til mikillar gleði en útflutningsatvinnuvegum, sem skapa raunveruleg verðmæti, til mikils tjóns.

Þegar nú loks hið óhjákvæmilega blasir við, að fylleríið hljóti að taka enda, virðast þeir sem ferðinni ráða ekki sjá neitt annað eina ferðina enn en að veifa álveri framan hinn íslenska þjóðarhund, sem fer að slefa, iða og hleypur í óróa og spennu eina ferðina enn til að kaupir bíla, utanferðir og hvaðeina sem aldrei fyrr, setur jafnvel innflutningsmet í bílum á sama tíma sem bensínverðið rýkur upp í áður óheyrðar hæðir!

Eins og fyrri daginn sér fíkillinn ekki sjálfur ástand sitt. Það sjá aðeins utanaðkomandi eins og OECD og nokkrir raunsæir menn hér innanlands en ráðleggingar þessara aðila um að stöðva fylleríið eru látnar sem vindur um eyrun þjóta. Vímunni má ekki linna, spennan lifi!

Þegar horft er til baka þýðir lítið að segja að mest öll þenslan hafi komið frá fjármálafyrirtækjum. Upphafið er jafn skýrt og hjá hundinum sem látinn er vita af kjötbitanum sem er í vændum, enda virðist eina ráðið við timburmönnunum vera að veifa álverskjötbitanum framan í hinn íslenska þjóðarhund.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Með því að skýla sér á bak við það að við séum hluti af náttúrunni getum við hækkað stífluna við Efra-Fall og sökkt Þingvöllum, virkjað Gullfoss, Dettifoss, Geysi, Öskju og Kverkfjöll. Við gætum nýtt okkur frábærar malarnámur í Esjunni og gert suðurhlið hennar að samfelldum námum.

Bandaríkjamenngætu gætu fyllt Yellowstone af jarðvarmavirkjunum með stöðvarhúsum, gufuleiðslum, línulögnum og háspennulínum og virkjað fossana þar, og auk þess sökkt Miklugljúfrum með mikilfenglegum stíflum og virkjunum.

Norðmenn gætu lokið við að virkja allt vatnsafl þar í landi. þar á meðal reist risavirkjun á norska miðhálendinu sem hætt var við á sínum tíma.

Nútíma náttúruverndarstefna byggist ekki á því að koma í veg fyrir allar virkjanir, heldur því að einhver smáhluti hennar, sá verðmætasti, verði skilinn ósnortinn eftir og að við það muni gera þetta einstæða, ósnortna land svo verðmætt í öllum skilningi, líkt og frægustu listaverk heims, að þetta verðmæti verði í heild miklu meira en ef allt hefði verið virkjað sundur og saman.

Í nýjustu útttektum á undrum veraldar er hinn eldvirki hluti Íslands kominn í hæsta gæðaflokk ef hann er látinn ósnortinn, - kominn inn á lista sem meira að segja Yellowstone kemst ekki inn á.

Okkur kann að sýnast hinn eldvirki hluti Íslands stór en ef þú lítur á heimskort sérðu að þetta er í raun mjög lítið svæði en afar verðmætt eins og það er.

"Örfáu hræðurnar" sem þú talar um skipta hundruðum þúsund, og fer fjölgandi. Þessar örfáu hræður koma til Íslands til að upplifa náttúruna en ekki til að skoða virkjanir. Það voru örfáar hræður sem sáu frægar Búddastyttur í fjöllum Afganistan á sínum tíma og heimsbyggðin stóð á öndinni af hneykslan þegar Talibanar sprengdu stytturnar.

Það eru aðeins "örfáar hræður" sem ganga á Everest og "örfáar hræður", pínulítill hluti erlendra ferðamanna hér, sem skoða íslensku handritin.

Viðskiptavild eða "good-will" fyrirtækja og þjóða er stundum metin á jafnvel meiri fjárhæð en öll framleiðslan.

Viðskiptavild Íslands er hægt að meta í þúsundum milljarða ef við þyrmum mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru þess.

Ómar Ragnarsson, 18.3.2008 kl. 11:38

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það sem þú telur upp þarna Ómar, sem við "gætum allt eins gert", myndi flokkast undir öfgar, og meira að segja "virkjanafíklarnir" myndu ekki samþykkja þetta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 12:56

3 identicon

Allveg er ég sammála þér Ómar en því miður er og verður alltaf til fólk sem er svo veruleikafirt að það jafnvel kaupir bíla á lánum í erlendri mynt og hugsar ekkert um annað er stóriðju.

Ævar Oddur Ævarsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 17:35

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég bendi á greinar "gúrús" íslenskra virkjanasinna, Jakobs Björnssonar, og fleiri en hann hafa haldið því fram að virkja þurfi allt, enda mun það enda með því ef að lokum öll risaálverin rísa plús önnur fyrirtæki sem þegar eru farin að banka á dyrnar í leit að ódýrri orku.

Ómar Ragnarsson, 18.3.2008 kl. 21:35

5 identicon

Ég get nú ekki  annað en varað  við þessum Gunnari Th, ég  skrifaði athugasemd á bloggið hjá honum að sjálfsögðu undir nafni og eitthvað mislikaði honum það og segir mig og bræður mína ofsækja sig, ég hef nu ekki séð athugasemdir frá öðrum úr minni fjölskyldu en mér og ekki gefur hann mér kost á að svara þessum óhróðri því hann hefur lokað á ip-töluna mína, allveg dæmigert fyrir rökþrota mann, hvað kemur eiginlega næst frá honum? verður ekki að loka á svona fólk.

Ævar Oddur Ævarsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband