MÓTMÆLI ÁN ÁBYRGÐAR.

Mótmælaaðgerðir eiga sér hefð í vestrænum samfélögum og víðar. Um þær gilda lög hér á landi og víðast hvar. Martin Luther King og Gandhi brutu að vísu ranglát lög og vöktu athygli á ranglæt af því að hjá þeim var að ræða stórmál í samanburði við verðlagningu á eldsneyti á Íslandi. Þessir mótmælendur vissu að þeir yrðu að axla ábyrgð á aðgerðum sínum með því að sæta refsingu eftir gildandi lögum og tóku hana út, misjafnlega réttláta að vísu.

Þegar Mývetnskir bændur sprengdu stíflu í Miðkvísl 1970 var um að ræða slíkt stórmál, stöðvun ótrúlega hrikalegra spjalla í einstæðri náttúru Mývatns og Laxár, að hækkun á bensínverði núna eru hreinir smámunir. Bændurnir kröfðust þess að vera sakfelldir og dæmdir og taka með því ábyrgð á gerðum sínum.

Vöruflutningabílstjórar virðast hins vegar vera þeirrar skoðunar að lög eigi ekki að ná yfir aðgerðir þeirra, sem fara langt fram úr öðrum mótmælaaðgerðum síðari ára hvað snertir tjón og truflun. Lögreglan er gagnrýnd fyrir skipta sér nokkuð af þeim.

Skrýtið er þegar menn krefjast þess að bera ekki ábyrgð á gerðum sínum og svara fyrir þær.Klifur upp í krana á Reyðarfirði í hitteðfyrra, sem refsað var fyrir, voru smámál miðað við það stórfelldar og síendurteknar aðgerðir bílstjóranna en mótmælendurnir voru því viðbúnir að lögregla og yfirvöld skiptu sér af þeim, þótt í enstaka tilfellum væru aðgerðir lögreglunnar í harkalegasta lagi.

Bílstjórarnir sem nú fara hamförum, telja hins vegar eðlilegt að lögregla aðhafist ekkert gagnvart þeim.

Ef yfirvöld láta að vilja bílstjóranna eru almenningi með því send þau skilaboð, að því meiri usla og tjóni sem aðgerðir valdi, þeim mun meiri árangur muni þær bera og þeim mun meiri linkind eigi beita af hálfu lögreglu.

Hér í landi gilda lög um verkföll og mótmælaaðgerðir sem yfirleitt er farið eftir. Eftir að ég hætti í fréttamennsku og gerðist frjáls til þess að lýsa yfir skoðunum mínum í umdeildum pólitískum málum tók ég þátt í því ásamt 13-15 þúsund manns að mótmæla umhverfisspjöllum Kárahnjúkavirkjunar á fullkomlega löglegan hátt og að ég held með meiri árangri en ólöglegar og ofbeldisfullar aðgerðir hefðu náð.

Það lýsir hugmyndafátækt bílstjóra að geta ekki látið sér detta neitt annað í hug en að fara offari í mótmælaaðgerðm sínum.

Nú sé ég frétt um það að fjármálaráðherra taki vel í að ræða við flutningabílstjóra, nú sem endranær. Ég vil ítreka hér í þessum bloggpistli það sem ég hef sagt annars staðar að bílstjórar og 4x4 klúbburinn hafa rétt fyrir sér í því að loforð um að fara að dæmi annarra þjóða við verðlagningu á dísilolíu hafa verið svikin með þeim afleiðingum að við erum sér á báti meðal þjóða Evrópu í að nýta okkur ekki yfirburði dísilvéla fyrir bensínvélar hvað snertir eyðslu.

Vöruflutningabílarnir eru allir knúnir dísilvélum en er að þessu leyti refsað fyrir það ranglega. Við búum í því landi Evrópu þar sem meðalhiti ársins er lægstur og eyðsla bensínvéla eykst miklu meiri við kulda en dísilvéla.


mbl.is Lögregla kallar eftir kranabílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þeir hætta ekki fyrr en þeir drepa einhvern", sagði kerlingin þegar seinni heimsstyrjöldin hófst. Ég geri orð hennar að mínum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 22:37

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ómar!!!!!! Mótmæli gegn ranglæti eiga rétt á sér, hvort sem er á hálendi, þar sem fáir fara um nema "fuglinn" fljúgandi, á Laugaveginum eða á stöðum þar sem eftir því er tekið eða "fundið".  Þú ert dæmi um "fréttamann" sem segir bara þá sögu sem þér hugnast, því miður.

Sigrún Jónsdóttir, 31.3.2008 kl. 22:59

3 identicon

Mótmæli eru og verða alltaf umdeild, hafa skal í huga að þessar verðhækkanir eru hrein aðför að lífsviðurværi þessara manna og ég vil líka segja í stríðinu sögðu menn líka fyrst þeir ráðast bara á gyðingana þá er það í lagi bara EF þeir ráðast ekki á mig og hvað gerðist, í kjölfarið komu sígaunar, kommúnistar osvfr. það er komin tími til að menn láti ekki ganga yfir sig á skítugum skónum og það kraumar verulega í mönnum út af okurvaxtastefnu og verðhækkunum. Lögleg mótmæli gerðu lítið fyrir Kárahnjúka, því segi ég lifi byltingin komi tími á að menn fari sýna tennurnar...

Bjarki Jonsson (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 23:04

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það ætti frekar vera hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að þrýsta á úrbætur varðandi olíverð. Vörubílaeigendur gætu líka farið í verkfall, það væri miklu öflugri aðgerð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lögreglan hefur um áratuga skeið metið göngur niður Laugaveg á þann veg að þær skapi ekki hættu. Þetta er gangandi fólk sem á auðvelt með að víkja fyrir sjúkarbílum eða slökkvibílum ef á þarf að halda.

Það er fráleitt að jafna slíkum göngum saman við aðgerðir bílstjóranna sem tepptu gersamlega aðalumferðaræð borgarinnar svo að engu varð um þokað.

Eða stofnar lögreglan til "stórhættu ef einhver slasast eða veikist" með því að leyfa fólki að ganga niður Laugaveginn á menningarnótt, 17. júní, 1.maí eða hvaða annan dag sem slíkt gerist?

Ómar Ragnarsson, 31.3.2008 kl. 23:58

6 Smámynd: Landfari

Það sem mér finnst kjánalegast við þetta er að þaðer ekki ríkið sem er að hækka eldsneytið. Ríkð er ekki að græða krónu á þessari hækkun sem þeir lenda í á olíunni. Eldsneytisgjaldið er búin að vera föst krónutala í nokkur ár. Það eru olíufurstarnir úti og heima sem hækka.

Af hverju loka þeir ekki frekar besínstöðvaranr af sem eru svona duglegar að hækka en seinar að lækka. Eðlilegustu viðbrögðin ættu náttúrulega að vera að spara eldsneytið og minnka olíukaupin.

Með því að hindra för almennings sem lendir í enn meiri hækkunum en flutningabílstjórarnir eru þeir að mótmæla því sem gerist úti í heimi og vilja að ríkið grípi til aðgerða. Hvað á ríkið að gera? Afnema gjaldið og minnka viðhaldið á vegunum? Þá verða vegirnir nú fljótir að gefa sig því þessir flutningabílar fara nú ekki sérlega vel með vegina.

Er ekki eina vitið að fara með þungaflutningana aftur út á sjó?

Vökulögin eð hvað það nú heitir er allt annar handleggur. Þar er hinsvegar verið að vinna í málunum.

Landfari, 1.4.2008 kl. 01:53

7 Smámynd: Jenný Friðjónsdóttir

Hvernig er það Ómar, þegar þú fórst og mótmæltir með öllu þessu fólki, byggingu Kárahnjúkastíflu... ?
Var hún ekki byggð þó þið mótmæltuð? Þið gerðuð það á "löglegann" hátt...
Við erum þá að mótmæla á ólöglegann hátt að mér virtist þú vera að tala um.. spurning hvort eitthvað gerist þá núna... Mér sýnist Kárahnjúkastíflan standa og gerð hennar lokið.
Með vökulögin, þá heyrði ég útundan mér að við værum eyland, líkt og Bretland. Bretland er undanþegið þessum blessuðu vökulögum. Því þá ekki við?

Með vinsemd,


Jenný Friðjónsdóttir -Bílstýra

Jenný Friðjónsdóttir, 1.4.2008 kl. 22:32

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vökulögin voru sett bílstjórum og samferðafólki þeirra í umferðinni til verndar. Er eitthvert vit í því að flutningabílstjórar keyri jafnvel í yfir 20 tíma samfleytt? Verktakar og flutningsaðilar eru oft undir mikilli tímapressu.  

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.4.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband