6.4.2008 | 01:37
GÓÐUR STOFNFUNDUR VESTRA.
Stofnfundur Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða í gær var afar ánægjulegur. Raunar kom það að fram mótmæladaginn 26. september 2006 að enda þótt fyrri samtök vestra hefðu lognast út af lifði vel í glæðunum, því að göngurnar urðu fjórar þetta kvöld, hver á sínu landshorni. Í tíð eldri samtakanna hefðu það þótt tíðindi að ráðherra, þingmenn og bæjarstjóri létu sjá sig á svona samkomu "kverúlanta og öfgafólks." En þessir gestir voru viðstaddir í gær þegar stofnunin var kynnt.
Tveir fyrrverandi ráðherrar og þingmenn Vestfjarða, Sverrir Hermannsson og Matthías Bjarnason, sendu kveðjur og lýstu yfir stuðningi við samtökin.
Í tíð fyrri samtaka var friðland á Hornströndum stærsta málið. Eitthvað var þá minnst á Breiðafjörð en lítið kom út úr því. Aðallega var tekist á um Hornstrandafriðlandið en nú eru vígstöðvarnar orðnar fleiri, Dýrafjörður, Arnarfjörður, Teigskógur og fleiri staðir. Teigskógur er á strönd Breiðafjarðar og því hluti af honum. Áhugasvæði náttúruverndarfólks á Vestfjörðum ætti því eðli þess máls samkvæmt að ná allt til Snæfellsness.
Aldrei hefur verið eins hart sótt að náttúru Vestfjarða og nú þegar rætt er um tvo staði þar fyrir risavaxnar olíuhreinsistöðvar.
Mér veittist sú ánægja að sýna fundarmönnum rúrmlega sex mínútna langa nýja heimildarmynd um olíuhreinsistöðvar í Noregi og áætlanir um svipaðar stöðvar á íslandi.
100 oíuhreinsistöðvar eru Evrópu en aðeins tvær í Noregi, önnur fyrir sunnan höfuðborgina og hin nálægt næst stærstu borginni. Norðmenn eru einir af stærstu olíuframleiðsluþjóðum Evrópu og ef sami hugsunarháttur ríkti þar og virðist nú vera spanaður upp á Vestfjörðum, væru Norðmenn búnir að raða olíuhreinsistöðvum norður eftir öllu hinu langa landi sínu þar sem byggðavandi er svipaður í hinum ótal norsku fjörðum og á Vestfjörðum.
En þetta gera Norðmenn ekki.
Eftir að hafa verið á ferð vestra og rætt við ýmsa bæði á Ísafjarðarbæ og í Vesturbyggð sýnist mér að andstaða gegn olíuhreinsistöð í Dýrafirði sé meiri eða að minnsta kosti opinskárri en andstaðan gegn slíkri stöð við Arnarfjörð og því líklegra að stöð rísi í Vesturbyggð.
Í Vesturbyggð er rekinn harður áróður fyrir stöð þar og talað á svipaðan hátt um þá sem andæfa og gert var á Austfjörðum um andstæðinga Eyjabakkamiðlunar og Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. að þetta væru óvinir byggðarinnar og hryðjuverkamenn.
Af þessu leiðir að þeir sem hafa efasemdir um stöð í Vesturbyggð þora yfirleitt ekki að láta í sér heyra af ótta við að vera úthrópaðir og stimplaðir óþurftarmenn.
Ég stefni að því að koma mynd minni á framfæri eftir lítilsháttar lagfæringar og fór að afloknum hinum ánægjulega fundi á Ísafirði í myndatökuflug yfir Hælavíkurbjarg og Hornbjarg, tvö af þeim þremur stærstu fuglabjörgum Evrópu sem nú stefnir í að Vestfirðingar vilji setja í hættu vegna olíuslyss, sem ekki verður spurning um hvort, heldur hvenær verður ef marka reynsluna í Alaska og annars staðar þar sem umferð olíuflutningaskipa er mikil.
Í skipströndum við Vestfirði í hinum miklu óveðrum sem þar dynja oft yfir, hafa þaulvanir og kunnugir skipstjórar verið við stjórnvölinn. Nú á að telja okkur trú um að bandarískir, rússneskir eða litháiskir skipstjórar muni standa þeim svo mjög framar að óhöpp verði útilokuð.
Enn hefur fiskigegnd í sjó og ám ekki náð sér á strik í Alaska eftir strand olíuskipsins Exxon Valdes fyrir tuttugu árum. Loforð olíufélagsins um bætur hafa verið svikin og félagið eyðir stórfé í lögfræinga sem hjálpa því til að kolmast hjá því að bæta fyrir tjónið.
Ef Exxon Valdes slysið er fært til Látrabjargs liggja hafstraumar þannig, að það verður ekki bara fuglalíf bjargsins sem fer til fjandans í slíku slysi heldur verða allar fjörur norður með Vestfjörðum í hættu.
Murphys-lögmálið segir að geti eitthvað farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar. Stærstu olíuskipin eru með eina skrúfu. Hvað ef hún verður afllaus? Hvaða skipi er ætlað að draga slíkt ferlíki í fárviðri?
Nýstofnuð náttúruverndarsamtök vestra hafa ærið verk að vinna á mörgum sviðum og megi þeim vegna sem best.
Athugasemdir
Olíuhreinsistöð á vestfjörðum, hahahaha......Æi þetta eru bara draumar örfárra vitleysinga sem verður aldrei að veruleika, slakaðu bara á.
Glanni (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 02:13
Lækkum matarverðið.....kíktu á bloggið mitt.
Hólmdís Hjartardóttir, 6.4.2008 kl. 03:55
Við erum að tala um margfalt minni skip en Exxon Valdes, sem kæmu til Vestfjarða. Að hræða fólk með þessum samanburði er rangt.
Þegar Exxon Valdes olíuflutningaskipið strandaði á Prins Williamsundi í Alaska árið 1989, þá hlaust af því versta olíumengunarslys sögunnar. Tiltölulega hrein og óspillt strandlengja varð fyrir verulegum skakkaföllum og enn má finna merki um olíu á afmörkuðu svæði næst strandstaðnum. Reyndar þarf að grafa eftir henni í fjörusandinum en öll mengun sem slík er löngu horfin og hefur ekki lengur áhrif á lífríkið. Dýra og fuglastofnar urðu fyrir raski og höfðu menn einna helst áhyggjur af sæljónum á svæðinu. Sæljónið er eina dýrategundin þarna sem ekki hefur jafnað sig að fullu á þessum 19 árum frá því slysið átti sér stað. En stofninn siglir þó hraðbyri að fyrri stærð.
Vísindamenn og ýmsir sérfræðingar í umhverfismálum voru áberandi í fjölmiðlum þegar fjallað var um atburðinn, í mörg ár og fram á þennan dag. Lýsingar þeirra á tjóninu sem af þessu hlaust voru vægast sagt dramatískar og þeir fullyrtu hver á eftir öðrum að lífríkið á svæðinu yrði mörg hundruð ár að jafna sig. Og á svæðinu næst strandstaðnum yrði ekkert kvikt að sjá næstu 40 árin.
Annað hefur komið á daginn. Þó reyna margir umhverfisfræðimenn að sverta ástandið og vilja túlka niðurstöður rannsókna "vafanum" í hag. Það er þekkt aðferð en stundum misnotuð. Það þjónar líka hagsmunum íbúa á svæðinu að draga ekki úr skaðanum. Þeir standa í málaferlum við Exxon olíufélagið um 2,5 miljarða skaðabótakröfu. Olíufélagið maldar í móinn og segir að þeir hafi eytt umtalsverðu fé til hreinsunarstarfa. Reyndar svolítið sérstök rök hjá þeim. Þeir skemmdu og eyðilögðu, þrifu svo mestan skítinn eftir óhappið og vilja draga kostnað við það frá meintu tjóni íbúa á svæðinu. Ekki alveg að gera sig, finnst mér.
En staðreyndirnar í dag tala sínu máli. Svæðið hefur jafnað sig á innan við tuttugu árum að langmestu leyti og eftir önnur tuttugu ár verður þar allt eins og aldrei hafi neitt gerst.
En allskyns sjóðir voru stofnaðir, hjálparsamtök o.fl. í kringum þetta slys og enginn skyldi vanmeta vald þeirra peninga sem flæða um slík battarí. Það er heill iðnaður sem nærist á hörmungum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 04:51
Þannig að olíuslys við Vestfirði er svo sem ekkert til að hafa áhyggjur af.
Því ef svo félli nú að olían flæddi þarna um strandlengjuna eftir magnað strand olíuskips þá gæti það bara líka skapað hagvöxt.
Greinilega margir möguleikar í stöðunni!
Árni Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 09:13
Allir viljið þið æða um landið fagra, á flugvélum
og fjórföldum jeppum, en hver á að borga brúsan.
Ekki vilið þið baka lifibrauðiðið, eða að það sé bakað
yfir höfuð.
Leifur Þorsteinsson, 6.4.2008 kl. 10:14
Ég hefði gjarnan viljað vera með ykkur, vestra - enda var ég fljót að gerast stofnfélagi í samtökunum. Ég fæ sting í hjartað þegar ég heyri minnst á olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum - enda slær hjarta mitt í Dýrafirðinum.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 6.4.2008 kl. 12:13
Samkvæmt því sem Gunnar Th, skrifar hér að ofan get ég ekki skilið annað en það sé nokkuð í lagi að fá alvarlegt olíuslys við Vestfirði, lífríkið jafni sig væntanlega á nokkrum áratugum. Tölfræðilega gætum við alveg átt von á að þarna yrðu skipsskaðar c.a. tvisvar á öld. Það myndi þíða miðað við Exxon Valdes dæmið að lífríkið myndi aldrei ná að jafna sig. Nóg á nú sjófuglinn við Ísland í vök að verjast sökum ætisskorts, þó við drepum hann ekki vísvitandi í olíu.
Þórir Kjartansson, 6.4.2008 kl. 12:22
Já, Leifur. Þið talið niður til Ómars Ragnarssonar sem hafið efni á því.
Árni Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 12:31
Hvernig er hægt að lesa það út úr athugasemd minni að það sé í lagi með olíuslys? Ég er bara að benda á að í fyrsta lagi verða olíuskipin af allt annarri stærðargráðu en Exxon Valdes og þar af leiðandi óraunhæft að bera saman stærsta olíuslys sögunnar við hugsanlegt slys á vestfjörðum. Og hvernig er hægt að segja að þarna verði örugglega slys? Þegar reyndir togaraskipstjórar hafa strandað þarna þá voru þeir að reyna að komast í var upp í harða landi, í snarvitlausu veðri. Ég efast um að olíuskip taki þá áhættu að sigla í höfn þarna ef aðstæur eru þannig. Þau myndu bíða af sér veðrið úti á rúmsjó.
Umræðan um þessi mál á að vera eins og raunveruleikinn blasir við en ekki byggjast á ímynduðum aðstæðum og hörmungum. Ef andstæðingar olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum ætla að haga álflutningi sínum með óábyrgum hætti, þá gera þeir sig að ómerkingum í umræðunni. Mér þætti það miður.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 13:35
Ómar, þú átt hrós skilið fyrir hið stórkostlega og óeigingjarna starf sem þú ert að vinna. Ég er friðelskandi manneskja en nú finnst mér nóg komið - ef framkvæmdir fara af stað við byggingu olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum þá verð ég fyrsta manneskja til að mæta á svæðið og hlekkja mig við vinnuvélarnar. Ég hef reyndar haft hálfgerða skömm á slíkum aðgerðum til þessa en nú rennur mér vestfirska blóðið til skyldunnar. Vestfirsk náttúra er einstök og hana verðum við að varðveita. Ég er hissa á þeim sem eru að vinna að uppgangi ferðaþjónustu á Vestfjörðum að láta ekki í sér heyra. Hvar eru raddir þeirra sem hafa verið að byggja upp sjóstangaveiði á smábátum. Eru þeir sáttir við að hafa reykspúandi skrímsli í næsta nágrenni? Halda þeir að það fari framhjá náttúruelskandi Evrópubúum sem sækja í ósnortna náttúru hvaða mengunarferlíki leynist í næsta firði? Eitt olíuslys og sjóstangaveiðin heyrir sögunni til. Manni dettur helst í hug að menn þori ekki að láta í sér heyra af ótta við gagnrýni þeirra sem mæna eingöngu á skjótfengin uppgrip og gróða. Eru Náttúruverndarsamtök Vestfjarða komin með heimasíðu? Hvernig gerist maður félagi?
Ragnheiður Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 18:58
Hvernig er hægt að segja að það verði ekki slys? Og án þess að vera sjómaður held ég að olíuskip séu ekki betri sjóskip í stórsjó og ísingu en íslensk fiskiskip. Ekki er heldur hægt að segja að skrifarinn sé einhver blindur stóriðjusinni, þó ég telji að of geyst sé farið nú um stundir. En olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er einhver heimskulegasti stóriðjukostur sem ég hef séð talað um. Því hefur t.d. að ég held ekki verið svarað hvar á að fá orku fyrir slíkt fyrirtæki. Sökum fjarlægðar frá góðum virkjunarkostum er líklega eina leiðin að framleiða orkuna með brennslu á olíu. Bið einhvern sem þekkir þessa hlið málsins að leiðrétta mig ef hér er rangt með farið.
Þórir Kjartansson, 6.4.2008 kl. 20:01
Eðli málsins samkvæmt er orkan fyrir svona stöð framleidd með brennslu á olíu og er rætt um að orkan sem þurfi til þess verði meiri en hjá Kárahnjúkavirkjun. Um 15 megavatta orku þarf frá Orkubúi Vestfjarða.
En enginn skyldi vanmeta "draumsýn örfárra vitleysinga." Þegar ég var á ferð við upphaf rannsókna vegna Kárahnjúkavirkjunar hitti ég menn voru að rannsaka þetta en sögðu að þeir væru þarna bara í vinnunni sinni, ef þeir gerðu það ekki myndu einhverjir aðrir gera það og auk þess væru þeir alveg rólegir yfir því að þessi geðveikislega hugmynd yrði aldrei að veruleika.
Þegar fólk spurði mig á þessum árum hvort ég héldi að þetta yrði að veraleika giskaði ég á að líkurnar á því væru vel yfir 90% og töldu margir það mat mitt vera fráleitt.
En ég byggði þetta mat mitt á ummælum eins af helstu ráðamönnum þjóðarinnar á þessum tíma sem lýsti þeirri draumsýn sinni að það yrði að virkja stanslaust þar til ekkert væri eftir sem hægt væri að virkja.
Og mér sýnist stefna í það þessi braut verði brunuð til enda.
Ómar Ragnarsson, 6.4.2008 kl. 22:58
Mér skilst að hverri olíuhreinsistöð fylgi einhverjar afgangs gastegundir, sem ekki verða nýttar betur en til raforkuframleiðslu á staðnum. Út frá mengunarsjónarmiðum, þá skiptir engu máli hvar þetta gas brennur. Það er einfaldlega fylgifiskur olíunnar sem við flest notum af mikilli græðgi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.4.2008 kl. 23:31
Ef marka má athugasemd nr. 13 sýnist mér að Gunnar Th. þurfi nauðsynlega að kynna sér betur eðli olíuhreinsunarstöðva. Úr því að hann tjáir sig svo oft og svo mikið um þetta tiltekna mál finnst mér það sjálfsögð krafa að hann setji sig vel inn í hlutarins eðli.
Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur tók saman ágæta lýsingu á fyrirbærinu sem finna má hér. Þar kemur m.a. fram að heildarorkuþörf fyrirhugaðrar olíuhreinsunarstöðvar væri um 3.763 GWst á ári mælt í raforku (tæp 80% af orkuþörf álversins hans Gunnars), en í raun og veru kæmi 97% orkunnar frá brennslu á olíu, líklega 333.000 tonnum á ári.
Aðrar athugasemdir Gunnars Th. hér dæma sig best sjálfar. Hann segir að "umræðan um þessi mál á að vera eins og raunveruleikinn blasir við en ekki byggjast á ímynduðum aðstæðum og hörmungum". Gunnar Th. telur með öðrum orðum litlar líkur á að svipað slys gæti átt sér stað í veðravítinu og hafís norður af Vestfjörðum eins og gerðist t.d. skammt undan norðurströnd Spánar í nóvember 2002.
Sigurður Hrellir, 7.4.2008 kl. 11:06
Það geta allsstaðar orðið slys. Við getum gert miklar öryggiskröfur og aðeins best útbúnu olíuskipin fá að sigla hingað. Öll áhætta minnkuð sem frekast má.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2008 kl. 12:32
Sæll Ómar. Ég bý í Vesturbyggð. Ég hef ekki orðið vör við að fólk hér þori ekki að andmæla Olíuhreinsunarstöðvartali. Hef verið að velta fyrir mér tímasetningu stofnfundar Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða. Auðvitað hefði átt að bíða aðeins og leyfa réttum degi á dagatalinu að renna upp til að fólk héðan gæti skroppið á fundinn án ærins tilkostnaðar og fyrirhafnar og fengið að vera með.
Anna, 8.4.2008 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.