6.4.2008 | 23:43
UMHVERFIÐ UMHVERFIS UMHVERFISRÁÐHERRANN.
Þórunn Sveinbjarnardóttir stóð vaktina vel þegar hún greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Hún sagði á Umhverfisþingi í haust að hún yrði andófsmaður í ríkisstjórn. En enginn má við margnum og nú virðist hún vera að bogna og þurfa brýningar við. Í Silfri Egils var ekki annað að heyra á henni en að orkuöflun fyrir álver á Bakka (sem forstjóri Alcoa segir nú að þurfi að nálgast 420 þúsund tonn að stærð) væri ekki atriði í ferlinu að öðru leyti en því að orkan þyrfti að vera tryggð.
Umhverfisráðherrann minntist ekki orði á þau umhverfisverðmæti sem í húfi verða ef skefjalaus virkjunaráform fyrir 420 þúsund tonna álver verða að veruleika. Ekki var annað á henni að heyra en að nú væri önnur tíð hjá henni heldur en þegar hún var óbreyttur þingmaður.
Hún hefur nú þegar byrjað feril sem mun leiða til þess, ef marka má ummæli hennar í Silfrinu, að umhverfisráðuneytið verði sams konar afgreiðsluráðuneyti fyrir iðnaðarráðuneytið og virkjanafíklana og verið hefur.
Ég óska eftir að fá að sjá Þórunni vera hina sömu í ráðherrastóli og hún var sem þingmaður. Ef ekki, þá held ég að hún myndi gera meira gagn fyrir ómetanlega náttúru landsins með því að segja af sér ráðherraembætti í mótmælaskyni við það hvernig hún er bæld niður í andófi sínu og nýti sér frelsi sitt sem óbreytts þingmanns á nýjan leik.
Athugasemdir
Ég hafði mikla trú á Þórunni og vonaðist til að henni tækist að gera ná fram heildstæðu umhverfismati vegna álversins í Helguvík. Því miður virðist hún og náttúra landsins hafa beðið lægri hlut en var það ekki fyrirsjáanlegt? Flokkurinn hennar leikur tveimur skjöldum og þrátt fyrir fögur fyrirheit eru sumir þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar grímulausir stóriðjusinnar. Ekki gerði stjórnarsáttmálinn við Sjálfstæðisflokkinn henni auðveldara fyrir og vísast hefur hún þurft að gefa eftir undan þrýstingi úr ýmsum áttum.
Hins vegar hljóta margir kjósendur Samfylkingarinnar að velta því fyrir sér hvort að flokkurinn sem þeir kusu sé sami flokkurinn og sá sem nú situr sem fastast við völd. Á heimsíðu þeirra má rifja upp stefnumál flokksins frá því fyrir tæpu ári síðan, t.d.:
"Samfylkingin vill slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð."
"Samfylkingin vill að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefji aðildarviðræður."
Í þessu sambandi er athyglisvert að rifja upp það sem Egill Helgason skrifaði fyrir sléttu ári síðan í aðdraganda kosninganna:
"Það er hluti af sjálfsmynd Samfylkingarinnar að vilja vera stóra mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn. Í samstarfi við hann færi sú mynd í þúsund mola. Svo eru það sporin sem hræða; óttinn við að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhvers konar tilberi sem sýgur makindalega lífskraftinn úr öðrum flokkum meðan hann fitnar bara sjálfur."
Sigurður Hrellir, 7.4.2008 kl. 01:01
Hvar sástu það Ómar, þegar forstjóri Alcoa sagðist þurfa svo stórt álver á Bakka?
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2008 kl. 03:16
Sammála,en ég er orðinn það gamall að ég er hættur að búast við nokkru af þessum Þingmönnum "okkar". Það er sama rassgatið undir þessu öllu þegar sest er að ríkisjötunni og búið að tryggja stólanna til næstu fjögurra ára. Eitt mesta öfugmæli Íslandssögunnar nú um stundir er það ákvæði að þingmenn skuli fara eftir "sannfæringu sinni" ´við meðferð mála,margir sem veljast í þetta starf hafa lítið til brunns að bera nema áhugan á að ota sínum tota,og enginn er með nothæfa sannfæringu.
Baráttukveðja
Baráttukveðja
Ari Guðmar Hallgrímsson, 7.4.2008 kl. 07:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.