ÓRÖSKUÐU SVÆÐIN HANS DOFRA.

Enginn hefur sýnt það betur en Dofri Hermannsson að undanförn að með hugmyndum um álver í Helguvík og önnur áform um orkusölu á suðvesturlandi er búið að lofa meiru en hægt verður að standa við. Dofri minnti nú rétt í þessu í Kastljósinu á það ákvæði stjórnarsáttmálans að ekki verði farið í virkjanaframkvæmdir á "óröskuðum svæðum."

Nú sýnist heldur betur samkvæmt skrifum Dofra að muni reyna á skilgreininguna um "óröskuð svæði." Eru Ölkelduháls, Nestún, Leirhnjúkur, Gjástykki og Neðri-Þjórsá ekki óröskuð svæði? Eða telst Neðri-Þjórsá vera á röskuðu svæði vegna þess að búið er að raska ánni ofar? Er Ölkelduháls á röskuðu svæði af því að búið er að virkja vestar á Hellisheiði?

Hvernig ætla menn að uppfylla orkukröfurnar án þess að fara inn á þessi svæði og jafnvel fleiri?

Eru Leirhnjúkur og Gjástykki á röskuðu svæði vegna þess að þau liggja í framhaldi af Kröflu? Gaman væri að heyra um skilgreiningu eins aðal höfundar Fagra íslands á þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Á öllum þessum svæðum sem þú nefnir var búið að veita rannsóknar- eða framkvæmdarleyfi þegar stjórnarsáttmálinn var gerður. Eins og þú veist.

Og ég mun standa vörð um Ölkelduháls framvegis eins og hingað til og vona að Ólafur F sem þú styður til valda í Reykjavík muni slá Bitruvirkjun af. Ég hef þó ekkert heyrt enn frá honum í þá átt og er satt að segja uggandi yfir því máli.

Því eins og þú veist var stjórnarformaður OR (væntanlega í umboði borgarstjóra) nýlega að undirrita viljayfirlýsingu um gríðarlega mikla orku til kísilhreinsunarverksmiðju í Þorlákshöfn.

Hefurðu talað við borgarstjórann þinn um þetta?

Dofri Hermannsson, 7.4.2008 kl. 21:09

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Athyglisvert. Bíð spenntur eftir svari

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.4.2008 kl. 21:23

3 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er þrumuskot hjá Dofra...

Sævar Helgason, 7.4.2008 kl. 21:28

4 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég vona að helstu umhverfissinnar landsins fari nú ekki að skjóta hvorn annan í fótinn á þessum krítíska tímapunkti. Samfylkingin hefur amk. tímabundið glatað trúverðugleika sínum í umhverfismálum og það væri ólíkt skárra að fá skýr svör um stefnu og markmið fremur en að benda sífellt á eitthvað annað.

Sigurður Hrellir, 7.4.2008 kl. 22:42

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Jæja, Dofri, það sem ekki er vinstrigrænum að kenna það er Ólafi F.að kenna. Þetta eru engin svör.

María Kristjánsdóttir, 8.4.2008 kl. 08:39

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Dofri Hermannsson er einn af þeim Íslendingum sem hefur staðið sig best í því að berjast fyrir viðhorfsbreytingu í umhverfismálum og hægt var að dáðst að því hve vel stefnan "Fagra Ísland" var sett fram. Nú veitir honum hins vegar ekki af aðhaldi og uppörvun við að halda ráðherrum sínum og forystumönnum við efnið.

Ómar Ragnarsson, 8.4.2008 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband