Nú fór í verra fyrir mig.

Það kostar líklega minnst fjórum sinnum meira á flugstund að fljúga Chinook-þyrlu en Fokker 50, eða kannski tvær milljónir króna. Stjórnendur herþyrlna þurfa að hafa þetta í huga. En atvikið varðandi Vilhjálm Bretaprins minnir mig á atvik fyrir tæpum 20 árum þegar svona þyrla var notuð til að fljúga með menn upp á Straumnesfjall við Ísafjarðardjúp til að hreinsa til hjá rústum ratsjárstöðvar. Ég fór vestur á TF-FRÚ sem þá var af gerðinni Dornier 27B, en hún gat verið mjög hægfleyg, enda hönnuð sem þýsk hernaðarmaskína.

Ég flaug samsíða þyrlunni og tók af henni myndir en í næstu ferð varð ég samferða í þyrlunni og hún henti mér á fjallinu Darra við gamla breska ratstjárstöð á miðri leið og tók mig síðan aftur í bakaleiðinni. Í flýtinum við að taka myndir þarna gleymdi farsímanum mínum við rústirnar.

Daginn eftir átti að fara með björgunarsveitarmenn inn á hálendið milli Jökulfjarða og Ísafjarðardjúps og setja þar upp sendi. Ég spurði stjórnanda þyrlunnar hvort hann gæti tekið á sig krók og skutlað mér upp á Darra til að sækja farsímann. Nú væri mjög gott veður til þess. Hann spurði á móti hvort ég væri bilaður, hvort ég vissi ekki hvað þetta myndi kosta bandaríska skattgreiðendur. Hann stæði ekki í að sóa bandarískum skattpeningum í svona vitleysu.

En veðrið hafði breyst mjög til hins verra þegar kom að ferðinni og ég varð því mjög undrandi að þegar þyrlan var nýkomin á loft var ég kallaður fram í til að segja stjórnandanum frá því hvar farsíminn væri. Honum hafði snúist hugur og réttlætti það með því að sérstakar og erfiðar aðstæður á Darranum væru gott tilefni til séræfinga! Sem betur fer hefði veðrið versnað nógu mikið til þess að þetta væri réttlætanlegt !

Ég varð steinhissa og einkum hissa á því að hann ætlaði að reyna flug upp á fjallið. Það var bálhvöss norðanátt og þoka á fjallinu, sem náði niður fyrir bjargbrúnina okkar megin. Ég benti honum á að okkar megin, hlémegin, væri brjáluð ókyrrð í þessum skilyrðum og ófært til flugs. Hann sagði að einmitt það væri gott tilefni til æfingarinnnar!

Þegar þyrlan lét sem verst og titraði og nötraði á fullu afli í aðfluginu að þoku hulinni bjargbrúninni með tuttugu vaska björgunarsveitarmenn á besta aldri innanborðs dauðsá ég eftir að hafa minnst á þetta. Það yrði hræðilegt að fórna kannski öllum þessum mannslífum og milljarða tæki fyrir einn farsíma.

Hann flaug þyrlunni fyrst alveg að bjarginu, en lyfti henni síðan rólega upp í þokuna og lét hana berast ofurlágt og hægt í þokunni inn fyrir bjargbrúnina með mann hangandi öfugan út um dyrnar til að segja til um hve nálægt jörðu hún væri. Síðan settist hún, ég hljóp út, sótti símann og fór aftur inn.

Síðan lyfti flugstjórinn þyrlunni og bakkaði henni í nokkurra feta hæð ofurhægt til baka með mannninn hangandi öfugan út og ég ætla ekki að lýsa því hve feginn ég var þegar þessu tryllta "æfingaratriði" var lokið sem hafði reynt til fulls á þessa ótrúlega öflugu þyrlu og stjórnanda hennar.

Seinna var mér sagt frá því hvers vegna flugstjórinn ákvað að gera þetta. Hann hafði fært þetta í tal við aðra sem sögðu honum frá því hver ég væri. Þá hafði hann sagt að ef það væri gaurinn sem hefði staðið kyrr í loftinu á þýskri herflugvél við hliðina á honum, takandi kvikmynd út um glugga á meðan og étandi barnamat úr krukku, þá breytti það málinu talsvert. Hann yrði að sýna að bandaríski herinn réði yfir loftförum og stjórnendum sem gætu toppað þetta.

Þess vegna segi ég nú í sambandi við mál Vilhjálms Bretaprins: Nú fór í verra fyrir mig.


mbl.is Prinsinn lenti í garði kærustunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Bara varð að kvitta hérna eftir þessa skemmtilegu lífsreynslusögu þína.

kv Símon 

Símon (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 23:09

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Kvitt. Þær eru margar flugsögurnar sem maður hefur heyrt af þér í gegnum tíðina, en það toppar allt að fá þær svona frá fyrstu hendi :-)

Karl Ólafsson, 21.4.2008 kl. 00:10

3 identicon

Frábær saga. Og lýsir vel andanum hjá könunum - alltaf að sýnast!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 01:00

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef ég man rétt er lunginn af þessari sögu í bók sem ég skrifaði hér á árum áður, en það er hins vegar mjög stutt síðan einn af fjölmiðlamönnunum, sem þarna var, sagði mér frá rökstuðningi kanans fyrir þessu flugi sínu.

Ómar Ragnarsson, 21.4.2008 kl. 08:25

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Stórskemmtileg saga.

Villi Asgeirsson, 21.4.2008 kl. 09:54

6 Smámynd: Beturvitringur

Þótt þú sért e.t.v. ekki prins, verður ekki a.m.k. að slá þig til riddara eftir þetta? Nú, eða bara slá þig (yfir höfuð?)?

Beturvitringur, 21.4.2008 kl. 14:42

7 identicon

jah, nú fór í verra!

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 15:28

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ertu allaf að týna símunum þínum Ómar :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.4.2008 kl. 15:46

9 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skemmtileg saga. ekki síst þetta með barnamatinn

Brjánn Guðjónsson, 21.4.2008 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband