30.4.2008 | 01:57
"Þá vil ég frekar deyja!"
Deilur í heilbrigðiskerfinu eru slæmar og gott að ró hefur fengist á Blönduósi í minni gömlu heimasveit, en ég var í fimm sumur að Hvammi í Langadal.
Þar á bæ fengu þrír niðursetningar, móðir með tvær dætur sínar, fyrir gæsku frænku minnar að vera í gömlum torfbæ og varð ein þeirra óvart fyrir slæmum hremmingum af minni hálfu, sem nánar er lýst í bókinni "Manga með svartan vanga."
Síðar var hún í elli sinni sett á héraðshælið á Blönduósi þar sem hún fékk eitt sinn svo heiftarlega ígerð að rætt var um að senda þyrfti hana suður til Reykjavíkur. Kveið kerling því óskaplega þar sem hún lá í hálfgerðu óráði enda hafði hún aldrei út fyrir héraðið komið.
En ástandið breyttist þegar í ljós kom að nýr héraðslæknir, sem var rétt að taka við starfi þarna gæti skorið hana upp og var farið að rúmi kerlu til að segja henni þessi gleðitíðindi. Það ljómaði bros á fölum vörum hennar þegar hún spurði: "Og hvað heitir nú þessi höfuðsnillingur?"
"Ómar Ragnarsson," var svarið. Þá reis kerla upp í rúminu, hvít af skelfingu með sóttheit augun sem á stilkum og hrópaði: "Nei! Nei! Nei! Aldrei í lífinu! Þá vil ég frekar deyja!"
Ég lái henni það ekki enda hef ég ætíð verið þakklátur fyrir að hafa ekki reynt fyrir mér í læknislistinni. Svo fór að nafni minn skar kerlu þegar henni hafði verið gerð nánari grein fyrir málinu og barg lífi hennar.
Mér rennur því bóðið til skyldunnar að árna nafna mínum og öllum nyrðra heilla með lausn mála.
Læknar starfa áfram á Blönduósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En "lausn mála" er bara til 1. september ... Kjarni vandans hjá nafna þínum og samstarfsfólki hans er settur á klaka þangað til. Svo að enn er verk að vinna til þess að koma vandanum fyrir kattarnef. Ég hlýt að vona eins og þú, að Húnvetningar nái sáttum um heilbrigðisþjónustuna á Blönduósi, æskubæ mínum, og láti alla kergju lönd og leið í þessu viðfangsefni.
Herbert Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.