Blair-Brown, Adenauer-Erhard - Ólafur-Bjarni.

Umskiptin frá valdatíma Tony Blair yfir í tíma Gordon Brown minnir um sumt á hin miklu vonbrigði sem það olli þegar Ludivg Erhard tók við af Kondrad Adenauer í Vestur-Þýskalandi 1963. Adenauer og Erhard voru eitthvert magnaðasta tvíeyki í stjórnmálum sem um getur og það var einkum fjármálastjórn Erhards sem skóp þýska efnahagsundrið (wirtshcaftswunder) þegar Vestur-Þýskaland reis úr rústum til forystu í efnahagsmálum Evrópu á innan við 20 árum.

Á sama tíma átti Sjálfstæðisflokkurinn sitt frábæra tvíeyki, Ólaf Thors og Bjarna Ben. Eins og hinir gerólíku Adenauer og Erhard bættu hvor annan upp gerðu Ólafur og Bjarni það líka. Bjarni átti reyndar til lúmskan og frábæran húmor samanber aldeilis kostulega fyndna og háðska varnaræðu í útvarpsumræðum þar sem borin var fram vantrauststillaga á hann 1954 en hann sneri umræðunni sér í vil á punktinum.

Þegar Erhard tók við af Adenauer kom í ljós að kanslarahlutverkið hentaði honum engan veginn og það tók hann ekki nema þriggja ára valdatíma 1963-66 að glutra svo niður stöðu Kristilegra demókrata að aðeins fáum árum síðar var voru sósíaldemokratar og Willy Brandt komnir í forystuhlutverkið í landinu.

Staða Gordons Brown var hins vegar erfið þegar hann tók við af Blair. En vonbrigði flokksmanna hans hljóta að vera mikil. Eins og Erhard er hann dæmi um mann á uppleið sem lendir einni tröppu of hátt í metorðastiganum.

Bjarni Benediktsson óx hins vegar eftir því sem verkefni hans urðu erfiðari. Hann tók við af Ólafi Thors á sama ári og Erhard af Adenauer og sjaldan ef nokkurn tímann hafa Íslendingar átt betri forsætisráðherra en hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Willy Brandt var eitt sinn spurður af fréttamanni, hvort hann hefði ekki verið harður kommúnisti á sínum yngri árum. Willy svaraði; " Sá sem er ekki kommúnisti þegar hann er tvítugur, er hjartalaus. Sá sem er það enn þegar hann er fertugur, er vitlaus"

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.5.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband