5.5.2008 | 11:41
Matarréttindi eru mannréttindi.
Nýlega talaði fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um að rétturinn til matar væri mannréttindi og að af því mætti draga þá ályktun að hungrið í heiminum geti orðið eða sé jafnvel orðið mesta mannréttindabrotið.
Þetta er ekki ný hugsun.Roosevelt Bandaríkjaforseti setti þessa hugsun skýrt fram í ávarpi sínu til Bandaríkjaþings 6. janúar 1941 þegar hann lýsti því takmarki Bandaríkjanna sem þau settu sér um frelsi í heiminum.
Stefna ætti að því að ríkja mætti fjórar tegundir af frelsi:
1. Skoðana- og tjáningarfrelsi. (Freedom of speech)
2. Trúfrelsi. (Freedom of worship)
3. Frelsi frá skorti. (Freedom from want)
3. Frelsi frá ótta. (Freedom from fear)
Roosevelt gerði ekki upp á milli hinna fjögurra tegunda af frelsi en einhvern veginn er það svo að fyrstu tvær tegundirnar hafa einkum verið mönnum hugstæðar. Roosevelt skilgreindi 3.frelsið ekki eingöngu sem frelsi til matar heldur mun víðar, sem skort á uppfyllingu lágmarksþarfa.
Samt liggur það í augum uppi að tjáningarfrelsi og trúfrelski manneskju sem líður neyð af skorti er í raun einskis virði. Og svipað er að segja um frelsi frá ótta.
Í raun er ekki hægt að vera án nokkurs af hinum fjórum tegundum frelsis. Skoðana- og tjáningarfrelsi eru heft á óviðunandi hátt ef ekki ríkir trúfrelsi, - og öfugt.
Roosevelt flutti ræðu sína sem ný endurkjörinn forseti til að brýna þjóð sína fyrir átökin sem hann sá fyrir að yrðu óhjákvæmileg. Þessi hluti ræðu hans er í fullu gildi í dag.
Athugasemdir
Þetta er hárrétt. Í yfirlýsingu FAO á alþjóðlegum degi fæðunnar á síðasta ári segir einmitt:
"Rétturinn til fæðu var fyrst skilgreindur í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1948 en hefur síðan verið útfærður og tekinn upp í lögum 156 ríkja.
Réttur allra til fæðu þýðir að allir menn, – konur, karlar og börn, – eiga að hafa aðgang að eða möguleikann á því að afla sér nægrar og heilnæmrar fæðu. Aðeins þeir sem ekki geta fullnægt fæðuþörf sinni, hvort sem það stafar af fötlun, fátækt eða öðrum orsökum, eiga rétt á því að ríkið útvegi þeim matvæli. Þessi skilgreining byggir á þeirri forsendu að orsakir hungurs og vannæringar megi ekki eingöngu rekja til skorts á matvælum, heldur einnig til fátæktar, lélegrar heilsugæslu, ónógrar menntunar, skorts á hreinu vatni og hreinlæti. Einnig er lagt til grundvallar að réttinn til nægrar fæðu má ekki aðskilja frá öðrum mannréttindum svo sem félagafrelsi eða réttinum til menntunar, til vinnu og til heilbrigðis."
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 19:05
Merkilegt að bera þessi fjögur „frelsi“ saman við frelsið sem Bandaríkin og Bush berjast fyrir í dag og þá á ég ekki bara við írak heldur hvar sem þeir láta til sín taka við ákvarðanir.
Eina frelsið sem gildir hjá þeim er frelsi fjármagnsins til viðskipta og þar á meðal að kaupa upp kornbyrgðir til að skapa skort og braska með þær. Skortstaða í korni og skortstaða í gjaldmiðli lítllar þjóðar og meig aðhafast það sem hægt er til að skorturinn birtist og skili milljarða gróða, - það er frelsið sem barist er fyrir í dag.
Helgi Jóhann Hauksson, 6.5.2008 kl. 01:40
Sem endranær hittir þú í mark, Ómar. Ég rek þó augun í orðin í yfirlýsingu FAO um "næga og heilnæma fæðu". Því miður er það svo að víða um heim er offita vandamál, en stóran hluta þess má rekja til fátæktar. Margir (og misgáfaðir) hafa látið hafa það eftir sér að fátækt fólk geti ekki verið feitt (eða öfugt) og gleyma að taka það með í reikninginn hve miklu ódýrara það er -meira að segja hér á landi- að kaupa óholla matinn en þann holla. Uppistaðan í matargjöfum Mæðrastyrksnefndar, Kirkjunnar og Fjölskylduhjáparinnar er einmitt ekki nein ofur-hollusta, heldur pakkamatur, kartöflur og brauð. Þær stofnanir hafa síðan hingað til lokað yfir sumarmánuðina - væntanlega vegna þess að hinir verst settu hafa þá næg tækifæri til að lifa á náttúrunnar gæðum.
Einn hluti þessa frelsis frá skorti held ég að hljóti að vera frelsi - eða réttur - til aðgangs að þaki yfir höfuðið. Því hef ég sent félagsmálaráðherra bréf sem nálgast má á síðunni minni. /shameless plug
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 6.5.2008 kl. 06:44
Stundum eru mannréttindindi efnahagsmál. Þá er það spurning hvort ríkið hafi "efni" á að veita viðkomandi þau réttindi sem honum/henni ber. Þetta á við það sem við getum kallað þjónustu t.d. við hreyfhamlaðra. Aðgengi þeirra eða möguleikar til komast leiðar sinnar voru lengi vel ekki einu sinni trygg hjá hinu opinbera. Þá er spurning, hvort það sé æðra, buddann eða rétturinn?
Ferlimálin sem eru mannréttindi, ekki satt, geta verið umhverfismál líka. Hvað með aðgengi fatlaðra að ýmsum náttúrperlum?
Ekki er alveg ljóst að það yrði samþykkt að gera allar náttúrperlur aðgengilegar f. fólk í hjólastólum. Þetta er spurning um viðhorf.
Þröngsýni sumra getur m.ö.o. skert mannréttindi annarra.
Jónas Egilsson (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 08:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.