Ótrúlegt, - og þó ekki.

Í fróðlegu erindi á aðalfundi Landverndar fyrir helgi kom fram að stefnt væri að því að viðbrögð Landsvirkjunar við hamfarahlaupi úr Köldukvíslarjökli niður í Hágöngulón yrðu þau að veita þessu hlaupi niður í Kvíslavatn og búa þannig um hnúta þar að hlaupið ryfi þar stíflu og steyptist í Þjórsá, væntanlega með þeim afleiðingum að Þjórsárver kaffærðust í auri í hlaupinu.

Með þessu yrði hamfarahlaupinu beint úr hinum eðlilega farvegi sínum og komið í veg fyrir að Sultartangalón fylltist af auri.

Í mínum huga yrði þetta hliðstætt því að við hlið stofnunar Árna Magnússonar væri dýrmæt verksmiðja og að brunavörnum væri þannig komið fyrir að ef þarna yrði stórbruni væri eldinum beint yfir í handritin frekar en vélarnar í verksmiðjunni.

Þetta er ótrúlegt en þó kannski ekki. Hugmyndir um að steypa Skjálfandafljóti yfir í Laxá í Mývatnssveit og sökkva Laxárdal þóttu hinar bestu á sinni tíð. Í röksemdafærslunni fyrir þeim var þess getið að fjöllin yrðu áfram á sínum stað.

Með því að veita hamfarahlaupi yfir í Þjórsárver yrðu tvær flugur slegnar í einu höggi: Líf Sultartangalóns framlengt um nokkra áratugi og Þjórsárver þannig útleikin að eins gott væri að sökkva þeim til frambúðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þó samlíkingin sé nokkuð kröftugleg og með ólíkindum þá er hún alls ekki út í hött. Kannski einhverjum furðufuglinum í öryggismálum dytti í hug að handritum væri best komið fyrir við hlið sprengiefnageymslu.

Það verður að taka á þessu máli sem Gísli Már Gíslason prófessor greindi frá á aðalfundi Landverndar s.l. laugardag í Norræna húsinu.

Og þá þurfum við að fá myndir og fréttir af aurnum í Valgerðarvilpum og Friðriksfenum í Hálsalóni. Hvernig er um að lítast þar núna?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 6.5.2008 kl. 14:46

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var að koma úr ferð að Hálslóni og vegna þess að þar er óvenju mikill jafnfallinn snjór er allt hvítt yfir að líta. Byrjað var frekar seint að láta renna úr lóninu og því verða fjörurnar kannskei eins miklar nú og vorið 2009. Sandey er að breytast í Sandfell á ný og fjörurnar á austurströnd lónsins eru orðnar nokkur hundruð metra breiðar.

Ómar Ragnarsson, 8.5.2008 kl. 18:51

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þakka þér.

Nú skal Landvirkjun standa við stóru orðin hvernig sem þeir Landvirkjunarmenn fara að því!

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 9.5.2008 kl. 18:42

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ææ, kemur þá ekki í ljós strax, þetta skaðræðis sandfok sem þið spáðuð. Það hljóta að vera vonbrigði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.5.2008 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband