Veðurfræðingur sem olli hættu á óspektum.

Kostulegt er að sjá að á lista þeirra sem hleraðir voru á kaldastríðsárunum var Páll Bergþórsson, veðurfræðingur. Ástæðan fyrir  hleruninni var að hann gæti valdið hættu á óspektum. Raunar tel ég mun meiri ástæðu til að rannsaka og upplýsa hverjir eru hleraðir núna en fyrir hálfri öld. Hygg ég að þá geti komið í ljós að ótrúlegasta fólk á Íslandi sé talið geta valdið hættu á hryðjuverkum í viðbót við óspektirnar.

En svo virðist sem enginn geti hengt ljósið á köttinn. Nú vantar sárlega atbeina "litla landsímamannsins. "


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta mál er allt hið óheppilegasta og alvarlegur blettur á samfélagi okkar.  Svo virðist sem lýðræðis- og mannréttindahefðin, sem rætt er fjálglega um á hátíðisdögum, sé ekki og hafi ekki verið til.  Í stað þess virðist lýðveldissagan vörðuð stanslausum stórviðburðum á sviði mannréttindabrota, brota gegn stjórnarskrá og misbeitingu opinbers valds.

Ég tek undir það að mér finnst mun athyglisverðara að velta því fyrir sér, hvaða símar eru nú hleraðir.  Skyldi það geta verið að það sem á Kaldastríðsárunum var kallað "hætta á uppþotum"  heiti núna "fíkniefnamisferli" eða "hryðjuverkaógn" og að hlerunum sé beitt af sama krafti nú og áður fyrr.  Hafa má í huga að uppbygging réttarkerfisins hefur jú breyst en dómsmálaráðherra er enn bæði æðsti maður lögreglunnar, sá sem skipar saksóknara og sá sem skipar (af eigin geðþótta að því er virðist) alla dómara í landinu.  

Ég hef heyrt það haft eftir núverandi dómsmálaráðherra að framkomnar upplýsingar staðfesti að farið hafi verið að lögum við hleranirnar á síðustu öld.  Ég er að vísu nýbúinn að læra lögfræði en ég get ekki séð hvernig þetta passar.  Að vísu hefur dómsmálaráðherra lagt beiðni fyrir dómarann, undirmann sinn, en ekki vitnað í neina lagastoð og ekki skilgreint hinn rökstudda grun sem þarf að vera fyrir hendi.  Þá virðist dómarinn, hinn húsbóndaholli undirmaður, ekki hafa haft fyrir því að kanna hvort rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi um að uppþot væru í aðsigi, né haft fyrir því að geta lagastoðar fyrir úrskurði sínum.  Ég man ekki betur en að í þágildandi Stjórnarskrá hafi staðið, líkt og nú, eitthvað á þá leið að dómendur skuli aðeins dæma eftir lögunum.   Og þá spyr ég:  "Er það þá ekki lögbrot þegar hvorki dómsmálaráðherra né dómstóllinn hirðir um að lagastoð sé fyrir beiðnum þeirra eða úrskurðum?"  Eða líta menn svo á að ranglætið sé sjálfkrafa löglegt ef dómari hefur framkvæmt það?

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband