11.6.2008 | 22:16
Dapurleg iðja.
Ég var við dapurlega iðju nú rétt áðan þegar ég skilaði til Fréttablaðsins umbeðnum ábendingum um þrjá fáfarna "leynistaði." Einn þeirra er gilið Sogin við Tröladyngju, svo fallegt, að fara þarf í Kerlingarfjöll eða Landmannalaugar til að finna annað eins.
Þegar ég sýndi þau fyrst fyrir 25 árum var fólk mjög þakklátt. Ekki lengur, vegna þess að þarna á að virkja og þá vill fólk hafa sig afsakað með því að vita sem minnst. Þegar hafa verið unnin þarna mikil spjöll vegna "rannsókna." Enn er þó hægt að horfa yfir gilið austan frá ósnortið.
Ég valdi Leirhnjúk og Gjástykki því að ég hef enn ekki fundið Íslending sem hefur skoðað það svæði. Íslendingar skoða Kröfluvirkjun og Víti en útlendingar hið enn ósnortna svæði fyrir norðan sem senn verður umturnað í virkjanasvæði þótt þar sé sá staður þar sem rek Ameríku frá Evrópu sést best, m. a. sprungur sem myndir eru til af hvernig rifnuðu upp fyrir 25 árum, hraun kom upp og rann aftur niður. Einnig ummerki eftir fjórtán eldgos á árunum 1975-84.
Einnig má enn skoða þarna fyrirhugað æfingasvæði fyrir marsfara, sem verður hætt við ef virkjað verður.
Áætlað er að gufuafl í Gjástykki muni skapa 40 störf í álverinu á Húsávík. Glæsilegur ávinningur við að fórna svæði jafnmerkilegu og sjálfri Öskju.
Ég valdi líka Sönghofsdal í Krepputungu. Kannski hann verði einn ósnortinn af þessum þremur stöðum, - og þó. Ef illa gengur um orkuöflun við Mývatn gæti Jökulsá á Fjöllum orðið þrautalendingin. Sagði ekki Valgerður Sverrisdóttir að friðun hefði ekkert gild, - það mætti alltaf aflétta henni?
Athugasemdir
Við förum illa með þetta land
Hólmdís Hjartardóttir, 12.6.2008 kl. 01:18
vissulega eru flestir sem fara á Leirhnjúkssvæðið erlendir ferðamenn en ég trúi nú ekki öðru en að margur frónbúinn sé þar líka á ferð. Þetta er alla vega ekki leynistaður miðað við hina, mjög aðgengilegur reyndar.
ari (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 02:01
Ertu með nokkrar myndir af þessum stöðum sem þú gætir sýnt okkur?
Karl Ólafsson, 12.6.2008 kl. 10:14
Margir Keldhverfingar þekkja Gjástykkið mjög vel og sumir hverjir þekkja það eins vel og lófa sína enda átt þangað erindi í smalamennsku og girðingavinnu í áratugi. Sjálfur þekki ég þetta svæði ágætlega enda farið oft þarna um frá Víti og norður í Sandagil, um Gjástykkisbungu að Dettifossi framhjá Eilífsvötnum og einnig áfram norður í Hrútafjöll og síðan þrætt slóðana norður með Bunguvegg og í Skinnstakkahraun. Gjástykki liggur að langmestu leyti norðan línu sem draga má frá norðurjaðri Gæsafjalla og austur í Eilífsvötn en sunnan þeirrar línu er auðvitað Leirhnjúkssvæðið og megnið af Leirhnjúkshraununum sem runnu í Kröflueldunum 1975-84. Það svæði þekkja sennilega fáir þar sem hraunið er tiltölulega illfært yfirferðar og alls ekki bílfært nema í miklum snjóavetrum sem ekki hafa komið að gagni undanfarna áratugi. Erlendir gestir okkar eru duglegir að fara um svona svæði fótgangandi en Íslendingar hafa fæstir áhuga ef þeir komast ekki á flottræfilstækjunum sínum ...sem betur fer kannski. Þessi svæði eru hins vegar ennþá nánast ósnortin af framkvæmdagleði virkjanafyrirtækja og fá vonandi að haldast þannig sem allra lengst. Útsýn yfir Leirhnjúkshraunið og syðri hluta Gjástykkis er stórfenglegt hvort sem horft er af Gæsafjöllum, Kröflu eða Hágöngum. Af Eilífi og Hrútafjöllum er góð yfirsýn til vesturs og norðurs en ekki mjög góð yfir Leirhnjúkssvæðið í suð-vestri vegna lítils hæðarmismunar.
corvus corax, 12.6.2008 kl. 13:34
Er íslendingum við bjargandi? Getur eitthvað stoppað þessa endalausu eyðileggingu? Ég er farinn að efast um það. Við kjósum yfir okkur fólk sem er sk*tsama um landið og gerum ekkert þegar náttúran er lögð í rúst. Við höfum ekki tíma, pening eða eitthvað annað sem til þarf. Við viljum öll bjarga heiminum, en það er svo tímafrekt og dýrt. Ég er hræddur um að það verði engin ástæða fyrir útlendinga að koma til Íslands eftir örfá ár. Nema þá sem lokkast af auglýsingum um fjörlegt næturlíf og fallegar stelpur sem eru til í allt. Erum við ekki betri en þetta?
Villi Asgeirsson, 12.6.2008 kl. 14:24
Fallegasti 'leynistaður' landsins er við Rauðasand, þar sem formóðir mín myrti eitt sinn mann og konu eins og lýst er í sögunni Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson.
Rauðisandur er svo magnaður staður að maður verður klökkur við komuna þangað
Aðalheiður Ámundadóttir, 12.6.2008 kl. 15:33
sæll.Ég þekki Gjástykki eins og lófan á mér.Hef smalað það árum saman.Gjástykki er að stórum hluta innan Aðaldælahrepps og er smalað af gangnamönnum af Þeystareykjum.Þetta svæði er stórfenglegt á allan hátt en getur líka verið mjög varasamt. Eitt best geymda leyndarmál Íslands.það á líka við um Þeystareyki.Ömurlegt að verða vitni að eyðileggingu á svons paradís.
sæþór Gunnsteinsson (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 21:16
Sogin í Trölladyngju er ægifögur náttúruperla og sú sem er hvað mest varið í á Reykjanesi ásamt háhitasvæðunum í Krýsuvík. Þessum svæðum verður núna fórnað á altari álguðanna í boði Hitaveitu Suðurnesja, sem gerir þetta jú allt "í sátt við umhverfið" eins og svöðusárið í Trölladyngju ber glöggt vitni um.
Myndir af þessum svæðum eru á ljósmyndablogginu mínu: http://elg.vikurfrettir.is/
Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 21:38
Mér finnst hálfdapurlegt að lesa svona rangfærslur eins og þú skrifar hér Ómar minn.... til dæmis að enginn íslendingur hafi skoðað Leirhnjúk og Gjástykki.
Þvílík þvæla.... mjög margir íslenskir ferðamenn skoða Leirhnjúk vegna þess að aðgegni að þeim stað er mjög gott.
Engin áform eru til um það að virkja Jökulsá á Fjöllum.
Ef einhver er með hálfsannleik í umhverfismálum ert það þú Ómar minn og það gerir þig ótrúverðugan.
Annars óska ég þér alls hins besta.
Stefán Stefánsson, 15.6.2008 kl. 00:31
Já, það er margt að sjá í Sönghofsdal. Málverkasýning, tónleikar og hvaðeina.
Þar er maður á ósnortnum stað.
Það er auðvitað ekkert við því að segja ef Álftadalsdyngja lætur hann hverfa, en Landsvirkjun. Nei, vonandi aldrei.
Víðir Gíslason (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 20:54
Fyrir langt löngu var Mosi eins og grár köttur í Almenningshraununum sunnan og vestan við álbræðsluna. Gaman var að rekja sig eftir gömlum slóðum þar sem leiðir hlykkjuðust um hraunin eftir landslaginu. Á nokkrum stöðum höfðu gömlu mennirnir meira að segja hlaðið upp í gjár og sprungur til að unnt væri að fara með trússhesta eftir stígunum. Einn daginn þegar eg lagði bílnum við veginn suður í Krísuvík blasti við mér eyðilegging mikil: búið hafði að ryðja og slétta mjög stóra spildu með jarðýtum. Vegaslóðarnir voru afmáðir, gömlu mannvirkin eydd um aldur og ævi. Hver var tilgangurinn? Verið var að byggja upp trönur á stóru svæði til að hengja upp þorsk fyrir markað í Nígeríu. Næstu misserin kom í ljós að þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni með innheimtulögfræðingum varð lítið ágengt að fá greiðslur fyrir þetta sökum pólitíska ástandsins þar syðra! Heimska íslensku þjóðarinnar á sér fáar hliðstæður.
Einn af mínum bestu kunningjum sýndi mér Sogin og Sogsgígana fyrir um 30 árum. Við skoðuðum gjörla umhverfi þeirra, gengum á nærliggjandi fjöll, Keili, Grænudyngju og Trölladyngju. Þetta var ákaflega skemmtilegt og gaman. Svo fóru alls konar jeppakallar og mótorhjólamenn einnig að leggja leið sína þangað, spæna upp mosabreiðurnar enda eftirlit lítið og viðurlög enn minni. Það varð til þess að smám saman missti eg áhugann fyrir þessu svæði og fór að leggja leið mína á aðrar slóðir. Þessi kunningi minn tjáði mér að einu sinni hefði hann verið að koma til baka sunnanað og þar hefði hann komið að mönnum sem voru að aka jeppa um Sogsgíginn. Þeir tóku ábendingum hans afar illa og vísað svona rausi á bug. Kunningi minn kvaðst hafa kært þessa herramenn. Ætli nokkuð hafi komið út úr því annað en ergelsi og fyrirhöfn.
Nú er svo komið að mörgum finnst frelsi sitt vera fólgið í því að geta valsað um allt jafnt á vélknúnu ökutæki sem postulunum tveim. Þessi vélóða kynslóð Íslendinga hefur því miður ekki of mikla innsýn hvaðaafleiðingar þetta kann að valda. Motorkrossmenn t.d. fara víða eftir gömlum slóðum og breyta þeim í rásr sem vatni og vindum er greið leið að koma af stað miklum uppblæstri. Það er mjög dapurlegt að heyra að slysatíðni er mjög há meðal þessara mótorkrossmanna enda eru þeir margir hverjir óvenjuungir að árum og skortir bæði reynslu og þekkingu á aðstæðum.
Öll vélknúin ökutæki þurfa að vera skráningarskyld og eftirleitsskyld og þar með skylt að kaupa tryggingu, ekki aðeins þar sem svonefndir objectivir hagsmunir eru tryggðir eins og skyldutrygging bíla, heldur einnig að líkamstjón verði einnig bætt. Þetta fyrirkomulag ætti að leiða til þess að þessi mál ættu að verða í betra horfi en nú er þar sem mikill brestur er á. Mikil slysatíðni er auk þess ekki bætandi á mikið álag á heilbrigðiskerfið þar sem það á nóg að sinna fólki sem er ekki á vítaverðan hátt að stórslasa sig.
Þá langar mig til að lokum að minnast á stuðlabergið í mynni Seljadals skammt austan við Hafravatn. Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem skreytir sig með svonefndu „grænu bókhaldi“ er að eyðileggja stórkostlegt náttúruundur til að mylja niður mélinu smærra svo unnt sé að framleiða meira af malbiki? Það getur verið ágætt að sýna fram á að í rekstri fyrirtækis sé verið að draga sem mest úr pappírsnotkun - en aðstarfsemin gangi út á að framleiða sem mest af malbiki þar sem sjaldgæft náttúrfyrirbæri á borð við stuðlaberg er eyðilagt.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 19.6.2008 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.