26.6.2008 | 15:16
Spurning um birtingu, - ekki töku.
Eftir nær fjögurra áratuga reynslu af því að koma á alla stórslysastaði þessara ára er niðurstaða mín þessi: Taka á allar þær myndir, sem mögulegt er að taka, bæði nærmyndir og fjarmyndir. Ef það er ekki gert geta glatast heimildir fyrir komandi tíma eða gögn vegna rannsóknar. Stóra viðfangsefnið og það vandasamasta er birtingin.
Sumar myndirnar geta verið þess eðlis að þær skuli aldrei birta almenningi. Sumar myndirnar kunna að vera þannig að geyma skuli þær óbirtar í ákveðinn tíma, allt að 75 árum (samanber lög um grafarhelgi).
Þegar um er að ræða myndir teknar í mismunandi fjarlægð skal gæta þess við fyrstu birtingu að sýna tillitssemi við aðstandendur og aðra með því að birta myndir, sem gefa áhorfandanum það til kynna að fyllsta tillitssemi sé viðhöfð.
Fréttaljósmynd 20. aldar var að mínum dómi mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourqois Pas? Sagði meira en þúsund orð. Á okkar tímum væri hætta á að yfirvald á staðnum bannaði í fljótræði að taka slíka mynd.
Í fyrsta stórslysinu, sem ég kom að, snjóflóðinu í Neskaupstað, heyktist ég á því að taka mynd, sem hefði getað orðið táknrænasta myndin af þeim harmleik einhvern tíma í framtíðinni. Ég tel ekki rétt að óathuguðu máli að segja frá því nú, hvert myndefnið var.
Á Súðavík glötuðust ómetanleg gögn vegna reynsluleysis stjórnenda á staðnum. Á Flateyri höfðu menn lært og valdir voru tveir menn, reyndasti ljósmyndarinn og reyndasti kvikmyndatökumaðurinn, til að fara inn á svæðið og taka myndir fyrir alla fjölmiðla.
Allar myndir, sem hægt var að taka, voru teknar og síðan valið úr til birtingar.
Umhverfisráðuneytið furðar sig á ályktun Blaðamannafélagsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það þjónar hins vegar engum tilgangi að birta myndir í fjölmiðlum af bílflökum á slysstað.
Slík myndbirting bætir engu við frásögn af viðkomandi slysi. Það segir mér akkúrat ekkert að sjá mynd af bílflaki úti í móa en slíkt getur valdið aðstandendum enn meira uppnámi en þeir eru í nú þegar.
Þorsteinn Briem, 26.6.2008 kl. 16:17
Eins og oft áður (ég segi ekki alltaf!) hittir þú naglann á hausinn, félagi.
Góð kveðja
Sigurður Hreiðar, 26.6.2008 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.