20.7.2008 | 21:06
Ragnar Kjartansson, - merkur og minnisstæður.
Það er athyglisvert að lesa minningargreinarnar, sem skrifaðar hafa verið um Ragnar Kjartansson. Í hugann koma dómstólamál frá fyrri öldum Íslandssögunnar sem maður hélt í einfeldni sinni á yngri árum að heyrðu aðeins sögunni til, - svona lagað gæti ekki gerst á okkar tímum, hvorki ótrúleg málafylgja í tengslum við átök í stjórnmálum né galdraofsóknir . En líklega var barnalegt af manni að halda það.
Ég kynntist Ragnari aðeins í nokkrar vikur snemma árs 1968 þegar við unnum saman sem stuðningsmenn Gunnars Thoroddsen og get tekið undir með höfundum minningargreinanna að frábærari leiðtoga, skipulagðari, hyggnari og heilli, var vart hægt að hugsa sér.
Pottþéttur, drífandi og með smitandi útgeislun.
Í þeirri kosningabaráttu var að vísu við að etja bylgju í þjóðfélaginu, sem heil kynslóð var síðar kennd við, átti sér samsvörun erlendis og virtist óstöðvandi. Í ljós kom að við ofurefli var að etja.
Það breytir því ekki að frammistaða Ragnars var þannig eins og ég kynntist henni, að mér er hún síðar æ minnisstæð og hún stendur upp úr í minningum mínum frá þessari orrahríð. Uppgjöf var honum ekki í huga heldur baráttuhugur þess sem tekur örlögum sínum af æðruleysi og vill frekar falla með sæmd en lifa við skömm.
Birtan yfir þessum minningum mínum er mikil miðað við það hvað kynni okkar stóðu stutt. Þess kærari eru þær mér og því dapurlegri finnst mér þau óverðskulduðu örlög sem þessi góði drengur varð að hlíta eftir harða baráttu. Þrátt fyrir allt á ég mér enn þann draum að upp renni sú öld hér á landi sem verði laus við mál af því tagi sem skekið hafa þjóðfélagið síðustu áratugina og varpað skugga á samtíð okkar.
Blessuð sé minning Ragnars Kjartanssonar, björt og ljúf.
Athugasemdir
Ég ætla nú að leyfa mér að benda á að menn geta lesið ýmislegt út úr þessum minningargreinum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.7.2008 kl. 11:15
Nei, Erlingur, ég hef ekki séð neitt líkt því sem þú spyrð um. En þú?
Ómar Ragnarsson, 21.7.2008 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.