Er sóknin alltaf besta vörnin?

Í fjölmiðlum er talað um að ráð hinna nýju þjálfara til að lyfta Skagaliðinu upp felist í að skerpa sóknina. Sumir tala um að Guðjón hafi lagt of mikla áherslu á varnarleikinn. Ég er ekki viss um að þetta sé sú patent-lausn sem leysi vandann. Ef Skaginn hefði átt að vinna Breiðablik hefðu sóknarmennirnir orðið að skora sex mörkum meira en þeir gerðu!

Ég sá að vísu ekki leikinn en myndirnar af mörkum Breiðabliksmanna sýndu glögglega Skagavörn, sem var eins og rjúkandi rúst. Toppliðunum hefur í sumum leikjum nægt að skora eitt mark til að fá stig, - nú síðast Valsmönnum og í leiknum við Breiðablik skoruðu Skagamenn þó eitt mark.  Slök byrjun Valsmanna í sumar stafði mest af því að vörnin brást.

Ég er einlægur aðdáandi góðs sóknarleiks og hata markalaus jafntefli. Fátt er leiðinlegra eða meira frárhrindandi fyrir áhorfendur en leikir, þar sem varnirnar leika svo mikið aðalhlutverk að úr verður leiðindaþóf manna, sem hópast saman við vítateigana sitt hvorum megin.

En markatalan í leiknum við Breiðablik talar sínu máli og raunsæi verður að ráða meira förinni en draumórar. Það er óhjákvæmilegt að bæta vörnina og þar lenda bræðurnir í rústabjörgun í næstu leikjum.

Auðvitað er það rétt að með góðu sóknarspili heldur lið boltanum lengur og gefur andstæðingunum færri tækifæri til að byggja upp sínar sóknir. Þannig voru Skagaliðin á gullaldarárunum en á fyrstu gullöldinni á sjötta áratugnum áttu þeir ekki bara bestu sóknarmennina, heldur líka besta miðvallarpar landsins, Guðjón Finnbogason og Svein Teitsson. 

Í markinu stóð lengst af landsliðsmarkvörðurinn Helgi Daníelsson og það kom fyrir að meira en helmingur landsliðsins væru Skagamenn.

Þótt ég sé Framari hef ég miklar taugar til Skagamanna frá fornu fari, - annars hefði ég varla gert textann "Skagamenn skoruðu mörkin." Ný gullöld byggist á auðvitað á því en það dugir ekki að skora mörk ef menn fá á sig fleiri mörk en skoruð eru.

Líklega byggjast vonir Skagamanna á því að allt liðið endurheimti sjálfstraust sitt svo að vörn jafnt sem sókn smelli saman og að það sjáist ekki aftur sama hörmungin og ráðvillt og galopin vörnin var í leiknum við Breiðablik, sem flestir Akurnesingar vilja áreiðanlega gleyma sem fyrst.   

 


mbl.is „Akranes er félagið okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Ómar

Svo einkennilegt sem að er nú, þá var þetta nú ekki svo ójafn leikur. Minnist úrslitaleiks fyrir rúmum tuttugu árum sem endaði 8-0. Það var alls ekki svo ójafn leikur. Málið var fyrst og fremst svo að sweeper hjá okkur meiddist á 2 mínútu, og markvörðurinn okkar hafði vaxið mjög hratt í 12 mánuði og var með mjög lítið líkamlegt jafnvægi. Síðar spiluðum við við liðin sem urðu í 3 og 4 sæti í Íslandsmótinu, og unnum þau örugglega. Þessu Íslandsmóti töpuðu Skagamenn að mínu mati, á einni sendingu. Sendingunni hans Bjarna á markvörð IBK í fyrra!

Sigurður Þorsteinsson, 22.7.2008 kl. 22:09

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Skemmtileg pæling en ég held að það sé meiri sannleikur í "sóknin er besta vörnin" en þú telur hér.  Einnig gleymist að ræða miðjuna sem er jú bæði í sókn og vörn.   Það sást vel á vel útfærðum leik Spánverja á EM að þeir héldu alltaf uppi sóknarpressu þó að þeir væru komnir yfir í leik.  Þannig héldu þér vallarstöðunni betur og hugarfarslegum yfirburðum betur.   Þeir gáfu þau mikilvægu skilaboð að þeir gætu spilað heilan leik sem betra liðið en ekki bara lið sem skoraði fyrst fyrir heppni. 

Vissulega er hriplek vörn handónýt fyrir lið og engin sókn eða miðja bjargar slíku en allir leikmennirnir 11 hafa áhrif.  Bestu boltakveðjur.

Svanur Sigurbjörnsson, 23.7.2008 kl. 01:48

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sjálfstraustið er greinilega hrunið hjá þessu liði Ómar og enginn almennilegur liðsandi. Hér á Skaganum er fullt af ungum strákum sem þarf að hleypa. Það hefur alltaf reynst best að byggja upp lið með ungum heimamönnum í stað þess að kaupa mis góða austur-evrópska leikmenn. Bjarki sagði í viðtali við Skessuhorn að vandinn væri ekki bara knattspyrnulegs eðlis. Tek undir það og eitthvað virðist hafa farið úrskiðis hjá Guðjóni í þeim málum að þessu sinni. Ég held að hasar hans út í dómarana í byrjun móts hafi vegið þungt. Skagamenn hafa nánast verið lagðir í einelti síðan og maður sér í leikjum að menn þora ekki í tæklingar og taka enga sénsa. 

Haraldur Bjarnason, 23.7.2008 kl. 08:46

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það verður spennandi að sjá hvernig bræðrunum tekst til.

Sigurður Þórðarson, 25.7.2008 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband