10.8.2008 | 15:59
Hluti af stærstu sýningu veraldar.
Skaftárhlaupin eru hluti af því sem ég vil kalla stærstu sýningu veraldar. Leikhúsið nær frá Grímsvötnum til Heklu, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Á leiksviði Skaftárjökuls og Lakagíga er leiksýning með þáttaskiptingu þar sem skiptast á eldhraunsþættir og sandburðarþættir.
Nú er í gangi þáttur jökulhlaupa og sandburðar vegna jarðhita og eldvirkni undir vestanverðum Vatnajökli.
Sandurinn sækir að syðstu Lakagígunum og fyllir Eldhraun smám saman upp svo að lækirnir í Landbroti munu smám saman hverfa eftir nokkra áratugi.
Á undan þessum sandburðarþætti var þáttur eldhraunsins þegar Skaftáreldahraun rann yfir sanda og vötn sem þar áður höfðu staðið á sviðinu í næsta sandburðarþætti á undan þeim sem náttúruöflin eru nú að leika.
Á undan þeim sandburðarþætti hafði verið eldhraunsþáttur í gríðarlegu Eldgjárgosi þegar hraun runnu yfir sanda sem höfðu myndast í sandburðarþættinum þar á undan.
Lengi vel hafði ég ekki yfirsýn yfir þessa miklu sýningu og fyllti hóp þeirra sem töldu Skaftárveitu nauðsynlega til þess meðal annars að minnka sandburðinn niður í Eldhraun, stemma stigu við sandfoki og bjarga Landbrotslækjunum.
Á ráðstefnu um þetta mál kom hins vegar fram að þessi framkvæmd myndi aðeins seinka hinu óhjákvæmilega um einhverja áratugi en staðinn yrði Langisjór, sennilega fegursta fjallavatn landsins, fylltur af auri og fagurbláum lit hans breytt í brúnan lit.
Að vaða inn á sviðið í stærstu sýningu veraldar og hrópa "stopp!", er ekki aðeins vonlaust til lengri tíma litið heldur samsvarar það því að stökkva upp á svið í Shakespeare-leirkriti og reyna stöðva sýninguna og breyta henni.
Ég tel að við eigum að leita fyrirmyndar í Yellowstone. Þar létu menn gríðarlega skógarelda í friði nema þeir ógnuðu beinlínis mikilvægum mannvirkjum. Í staðinn er nú eitt aðal aðdráttaraflið í Yellowstone fólgið í því að bjóða þar upp á stærstu sýningu veraldar á hlutverki skógarelda í eðlilegri og náttúrlegri endurnýjun og kynslóðaskiptum skóga.
Hlaup hafið í Skaftá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Líklega hjálpar flugvélin þér til að fanga þessa þrívíddarsýn á svona leiksýningu?
Hitt er svo ekki nema fáum gefið að veita öðrum innsýn í atburðina á líkan hátt og þú gerir. Fyrir það er mér ljúft að þakka.
Síðbúnar hamingjuóskir með verðskuldaða viðurkenningu!
Árni Gunnarsson, 10.8.2008 kl. 18:03
Takk fyrir. Ég var búinn að fljúga yfir allt þetta svæði fram og til baka í 35 ár áður en ég áttaði mig á því hvað ég hafði verið að skoða allan þennan tíma. Flugvélin réði þar engum úrslitum heldur það að hafa farið til annarra landa til að víkka sjóndeildarhringinn.
Ómar Ragnarsson, 10.8.2008 kl. 20:04
Takk fyrir þennan pistil Ómar og ég tek undir með Árna til hamingju með þessa viðurkenningu Ómar þú átt þetta inni
Mr;Magoo (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.