"Við erum að tala um..."-sýkin.

Var að hlusta á viðtal við góðan og gegnan mann þar sem honum tókst að segja þessi fimm ofangreindu orð að minnsta kosti sex sinnum í stuttu viðtali. Einn besti sjónvarpsmaður landsins afrekar oft litlu minna í stuttum pistlum sínum, nú síðast í dag. Þetta orðalag er komið beint úr ensku og þykir fínt en er í raun óþarfa málalenging og hvimleitt þegar það er ofnotað.

Það er miklu skýrara og gagnorðara að segja t. d. "...hitinn getur orðið átján stig..." heldur en að segja: "...við erum að tala um að hitinn geti orðið átján stig..." eða "...við erum að tala um átján stiga hita...", þar sem notuð eru 8-11 orð í stað fimm.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar ábendingar. svo  er það  símauglýsingin aulalega,- liggur mér við að segja:  "Nú erum við að tala saman".  Hráþýtt  úr  enskunni .  Á ekki erindi í íslenskan málheim.

Eiður (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 20:45

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Minnir mig á lögin sem sett voru um andlega fatlaða öðru hvoru megin við stríðið. Þau byrjuðu á orðunum "Nú er maður fáviti...". Það hefur þó ekkert með sýkina sem Ómar er að tala um.

Villi Asgeirsson, 13.8.2008 kl. 20:49

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gæti hafa verið hálfviti, frekar en fáviti...

Villi Asgeirsson, 13.8.2008 kl. 20:50

4 Smámynd: Jón Jónsson

Svo er það "þau" - sýkin. Það virist ekki lengur mega nota "þeir" þegar notuð eru karkynsnafnorð. Dæmi: "krakkarnir, þau eru svo góð" í staðinn fyrir hið rétta: "krakkarnir, þeir eru svo góðir". Þarna er verið að rugla saman raunkyni og málkyni. Þó svo að krakkarnir gætu bæði verið strákar og stelpur á að nota "þeir" þar sem krakki er karkynsorð. Það sama gildir um kvenkynsorð eins og "lögga". Rétt er að segja "þær löggurnar" þó svo að þær væru allar karlmenn. Þetta eru áhrif úr ensku þar sem í lagi er að segja hvort heldur: "I went to the doctor and she told me ..." eða "I went to the doctor and he told me ...", það færi bara eftir því af hvoru kyninu læknirinn væri (ekki nafnorðið, sem í ensku máli er kynlaust).

Jón Jónsson, 13.8.2008 kl. 22:38

5 identicon

Önnur tilhneiging fer í taugarnar á mér; þegar menn segja til dæmis 'ég er að gera ráð fyrir rigningu og 11 stiga hita' í stað þess að segja 'ég geri ráð fyrir fyrir...'. Ætli þetta séu ekki amerísk áhrif?

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 09:14

6 identicon

Er það einungis ég eða fer orðatiltækið "..heilt yfir.." í taugarnar á fólki?? Ekki veit ég hvenær þetta byrjaði en grunar Ingibjörgu Sólrúnu þar sem hún notar þetta í tíma og ótíma. "Heilt yfir er þetta óásættanlegt", "Svona heilt yfir er ég ánægð með árangurinn". Sennilega þýðing úr einhverju tungumáli (on the whole (EN), helt over (DK)) en jafn óþarft og ljótt fyrir því. Segi svona.

kveðjur heim frá Íslendingi sem "við erum að tala um" að sé "heilt yfir" nokkuð ánægður í Danmörku!

Kristjan Sverrisson (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 10:10

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"...ég er að gera ráð fyrir rigningu..." er ennþá magnaðra fyrirbrigði en "...við erum að tala um..."-sýkin.

Ég hef áður bloggað um það en í þeim efnum stefnir í grundvallarbreytingu á íslensku máli ef þetta heldur áfram.

Þessi nýja tískunotkun á sögninni að vera lengir mál manna og gerir málið flóknara og flatara. Þetta er sérstaklega áberandi í íþróttunum. Hver kannast ekki við orðalag eins og "...við vorum að spila vel og vorum að fá færi sem við vorum ekki að nýta." 16 orð notuð í stað þess að nota aðeins 10 orð og segja: "...við spiluðum vel og fengum færi sem við nýttum ekki."

Ómar Ragnarsson, 14.8.2008 kl. 13:26

8 Smámynd: Jón Jónsson

Annað sem íþróttafréttamenn segja oft: "Valur (eða eitthvert annað félag) vann leikinn". Í þessum orðum felst að félagið hafi spilað við leikinn og að leikurinn hafi þess vegna getað unnið félagið! Hið rétta væri að segja t.d. "Valur vann KR".

Jón Jónsson, 14.8.2008 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband