Þegar hnerrað er í Seðlabankanum...

Getur það verið, að þegar hnerrað sé í Seðlabankanum fái borgarstjórnarmeirihluti á vegum Sjálfstæðismanna banvæna lungnabólgu?

Fróðlegt var að heyra ýmislegt sem kom fram í þættinum Vikulokunum í morgun. Þar bar til dæmis á góma eina af hugsanlegum ástæðum þess, að sexmenningarnir svonefndu risu gegn Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og fóru "án Villa" á dæmalausan fund með Geir Haarde, gæti hafa verið sú að þeir sem áttu að koma inn í útrásina margfrægu hjá REI voru tengdir Baugsveldinu.

Og maður hugsar með sér að kannski hafi þá verið hnerrað í Seðlabankanum og það nægt til að meirihlutasamstarfið fékk lungnabólgu.

Gunnar Smári Egilsson sagði frá því í Vikulokunum að hann hefði verið ókunnur herbergjaskipan í ráðhúsinu þegar hann kom þangað og ráfað fyrir slysni inn í herbergi aðstoðarmanns borgarstjóra. Þar hefði sést til hans og allt orðið vitlaust.

Á þessu sést hvaða áhrif það getur haft ef menn hafa það á tilfinningunni að hnerrað sé í Seðlabankanum, enda höfðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áður hafnað alfarið hugmyndinni um að Gunnar Smári yrði aðstoðarmaður Ólafs F.

Í Vikulokunum ræddi Gunnar Smári þrennt sem gæti hafa átt þátt í því hvernig málin hafa æxlast í borgarstjórn síðan REI-klúðrið byrjaði.

1. Alltof gagnger kynslóðaskipti almennt í borgarstjórn. Af því dreg ég meðal annars þá ályktun að hnerri í Seðlabankanum hafi meiri áhrif á nýgræðinga, sem muna ekkert annað en að hafa alist upp undir handleiðslu leiðtogans mikla, heldur en á reyndari stjórnmálamenn.

2. Gunnar Smári nefndi tilurð "smákónga" í borgarkerfinu sem hafi dregið úr möguleikum borgarstjóra til að að stjórna jafn markvisst og af sama myndugleika og Davíð og Ingibjörg Sólrún gátu gert.

3. Ókostir þess að semja fyrirfram um forystuskipti á kjörtímabili. Þetta hefði skemmt fyrir í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna síðasta kjörtímabilið, sem þeir sátu í ríkisstjórn, og einnig skemmt fyrir í samstarfi Sjálfstæðismanna og F-lista í borgarstjórn.

Af því sem Óskar Bergsson segir nú um höfnun Samfylkingar á nýjum R-lista má ráða þann vanda, sem hin smærri framboð í borginni þurfa að glíma við, þ. e. að ná minnst 6-7 prósenta fylgi til að koma inn manni.

Það munaði litlu hjá Framsókn síðast að ná inn manni, og í upphafi kosningabaráttunnar sáust tölur allt niður í tvö prósent hjá F-listanum. Í kosningunum 2002 rétt slapp Ólafur F. inn á síðustu stundu.

Óskari hugnast auðvitað betur að komast öruggur inn í skjóli R-lista en að ganga í gegnum tvísýna kosningabaráttu.

Sú staðreynd vegur greinilega þungt hvað snertir meirihlutasamstarf, bæði í sveitarstjórnum og á landsvísu, að meira kemur í hlut hvors um þegar tveir skipta kökunni en þegar fjórir skipta henni.

Á þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn byggt sterka stöðu sína og það svo mjög, að flokkar forðast að ganga til kosninga öðru vísi en óbundnir. Það má velta því fyrir sér hvort það hefði nægt í síðustu kosningum að fella ríkisstjórnina alveg, - Samfylkingin hefði samt tekið upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það hefði samt verið erfiðara fyrir þá að hlaupast undan merkjum

Sigurður Þórðarson, 16.8.2008 kl. 23:16

2 identicon

Alveg magnað Ómar! Eins og talað sé út úr mínu hjarta. Gunnar Smári Egilsson er mikill orðhákur og blaðamennskan kennt honum að taka umræðuna á þann veg eins og á blaðinu stendur fyrir framan hann.Skoðun er eitt og skoðun mín er annað. 

Merkilegt þegar fráfarandi borgarstjóri hefur valið sér í sína herdeild til hægri og vinstri er settur af þeim sem við taka og vilja samt engu breytta (sömu menn halda vinnunni). Það hlítur þá að vera spurning hvort hér sjáist ómældir hæfileikar fyrrverandi borgarstjóra að velja sér fólk eða hvort herdeildin sem tók við herfanginu þ.a.s. sjálfstæðismenn marseri nú um með höfuðlausan her.

Er engin möguleiki að koma þessu fólki sem gín yfir veldissprota borgarinnar í vinnu á erlenda grund til að afla gjaldeyris svo við meðal -Jónarnir getum strokið kviðinn og andað frá okkur hljótt?? 

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 23:50

3 identicon

Sæll Ómar.

Ég vil gjarnan senda þér smáskrif í tölvupósti um aðsteðjandi efnahagsvanda - ekki sem athugasemd á bloggi heldur fyrir þig prívat.

Láttu mig heyra frá þér.

Kv.

Gunnar

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 00:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Gunnar. Í augnablikinu er einhver stífla að plaga mig í innboxinu á netfanginu hugmyndaflug@hugmyndaflug.is svo að þú skalt bara senda mér þetta á netfangið omarr@ruv.is

Ómar Ragnarsson, 17.8.2008 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband