19.8.2008 | 00:09
Hollenskt vandamál á Íslandi?
Á 42 þúsund ferkílómetrum lands býr 16 milljóna þjóðin Hollendingar. Á 103 þúsund ferkílómetra landi búa 300 þúsund Íslendingar í hundrað sinnum dreifbýlla landi. Furðu má gegna að í lang dreifbýlasta landi Evrópu skuli menn vera að setja á flot hugmyndir um að þurrka upp stór sjávarsvæði fyrir byggð eins og nú má sjá greint frá í Fréttablaðinu.
Núverandi miðja íbúabyggðar í Reykjavík er inn undir Elliðaárdal. Byggð, sem risi á þurru landi í mynni Skerjafjarðar, er jafn langt frá þeirri miðju og Blikastaðaland, svæðið við Úlfarsá eða í við Urriðavatn.
Núverandi miðja íbúabyggðar er skammt frá þjóðleiðinni Akureyri-Mosfellsbær-Mjódd-Smári-Garðabær-Hafnarfjörður-Reykjanesbær og þjóðleiðinni frá krossgötum þeirrar leiðar austur á Suðurland.
Íbúðabyggð út við Seltjarnarnes myndi rísa fjær þessum þjóðleiðum en svæðin sem nú eru óbyggð við Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og Reykjanesbraut.
Látið er í veðri vaka að þessi uppþurrkunarlausn sé svo fjarska ódýr, kosti aðeins örfáa milljarða. Þá gleyma menn því að með því eru hafnarmannvirki Kópavogs og næsta athafnahverfi við þau gerð ónýt.
Reykvíkingar myndu missa útivistar, baðstrandar- og siglingamöguleikana við strandlengjuna frá Ægissíðu inn fyrir Nauthósvík.
Hugsanlegt uppþurrkunarsvæði er í landi fimm sveitarfélaga og þarf samþykki þeirra allra og í kostnaðarútreikningum er alveg sleppt þeim kostnaði sem fylgir því að þurfa að dæla öllu affallsvatni og rigningarvatni á þessu svæði UPP til sjávar.
Svæðið er á lista yfir fyrirhuguð náttúruverndarsvæði sem verði friðuð.
Ég fæ ekki annað séð en að þessi hugmynd sé skemmtileg stúdía fyrir verkfræðinga og til vangaveltna fyrir þá sem hafa gaman af slíku en ég vissi það ekki fyrr en nú að landþrengsli væru orðin slík í landdreifbýlasta landi Evrópu að þörf væri á svipuðum örvæntingarlausnum og hjá þeirri þjóð þar sem þéttbýlið er hundrað sinnum meira.
Sögurnar af riddaranum sem barðist við vindmyllurnar voru skemmtilegar. Þannig getur það líka orðið um þær sögur sem hægt verður að spinna upp af riddaranum sem ætlar að berjast við þyngdaraflið með vatns- og skolpdælum.
Athugasemdir
Af hverju ekki að fylla upp í Skerjafjörðinn með því að moka Esjunni í hann og út í Faxaflóa? þá fengjust nokkur þúsund hektarar byggingarlands til viðbótar þar sem Esjan er nú og ekki þyrfti að byggja varnargarða fyrir Skerjafjörðinn. Nei, ég segi nú bara svona.
Kveðja, Gunnar H.
Gunnar Hauksson (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 11:37
Var ekki ónefndur prestur fyrir ekki alls löngu búinn að skrifa mjög skemmtilega smásögu um það þegar Esjan var seld, Gunnar?
En í alvöru: Hafa menn ekkert þarflegra að gera en að spá í svona glórulausum framkvæmdum? Þurfum við menn alltaf að vera svona stórtækir að breyta öllu í kringum okkur, jafnvel þegar það er vel skapað af náttúru hendi?
Úrsúla Jünemann, 19.8.2008 kl. 12:48
Já þetta eru undarlegar spekulantsjónir finnst mér, þar sem nog er til af landinu þá þurfum við að sækjast í að byggja á þeim stöðum sem af nátturunarhendi er ekki ætlað að byggja á td þetta að þurrka upp Skerjafjörðin eða uppfylling við Ánanaust sem og í Garðabæ, td Reykjavik á svo mikið land að hún gæti hæglega gefið lóðir til fólks og kanski orðið vinsæl fyrir vikið
Jón Snæbjörnsson, 19.8.2008 kl. 13:17
Þetta er svona skrifborðspæling. Merkilegt að hún skuli rata í blöðin. Ég fæ oft hugmyndir um eitt og annað - misgáfulegar að eigin mati. En ég hef ekki verið að hringja í blöðin fram til þessa. Kanski byrja ég bara á því. Sjáum hvað af vitleysunni sem ég læt mér detta í hug kemst á prent.
Þessa uppfyllingarhugmynd hefði ég geymt fyrir sjálfan mig.
Hjálmtýr V Heiðdal, 19.8.2008 kl. 14:14
Hér á Klakanum og í Ástralíu búa þrír íbúar á ferkílómetra og nú ætla Ástralir örugglega að þurrka upp allt Kyrrahafið, enda eru þeir mun fjölmennari en við Klakverjar.
Þorsteinn Briem, 19.8.2008 kl. 17:32
Jamm. Að fylla upp í Skerjafjörð er ótrúlega galin hugmynd. En vel í samræmi við íslenskan "stórhug". Þar sem skóflan er aðaltækið. Lítið annað hægt að gera en að hlæja að þessari vitleysu.
Ketill Sigurjónsson, 19.8.2008 kl. 18:34
Eigi má gleyma landsiginu en jarðfræðingar telja landsig hafa numið allt að 5 metrum frá ísaldarlokum við sunnanverðan Faxaflóa. Þegar stórstreymt er og djúp lægð við Faxaflóa getur ölduhæð orðið mjög há. Stórstraumur getur þá einnig numið meira en 5 metrum. Við slíkar aðstæður sem á þýsku nefnist Springflut, verður gríðarleg eyðilegging sökum flóða og óveðurs.
Þessi hugmynd um að þurrka upp Skerjaförðinn verður því að teljast með þeim allra vitlausustu sem fram hefur verið sett, öðrum arfavitlausum hugmyndum ólöstuðum.
Hvað hyggst blessaður maðurinn gera við allt þetta land? Byggja kannski ný álver eða hvað? Fátt annað virðist komast inn í kollinn hjá landsfeðrunum og mæðrunum þessi misserin.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 20.8.2008 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.