20.8.2008 | 13:17
Leiðin frá 1962 og íþróttahús M.R.
Fyrir þá sem muna eftir heimsmeistaramótinu i handknattleik 1962 er gaman að endurlifa sælar stundir frá þeim tíma þegar strákunum okkar gengur vel. Íslendingar voru þá algerlega óþekktir í handboltanum en náðu í sjötta sætið á HM og unnu í aðdragandanum óvænt sjálfa Svía, sem voru þá taldir vera með annað af tveimur bestu handboltaliðum heims.
Íslendingar höfðu geymt leynivopn sitt, Ingólf Óskarsson, fyrir Svíaleikinn, og hann, ásamt Gunnlaugi Hjálmarssyni, Ragnari Jónssyni, Erni Hallsteinssyni, Birgi Björnssyni, Karli Jóhannssyni og félögum, kom Svíum í opna skjöldu.
Ef ég man rétt töpuðum við síðan fyrir Ungverjum sem taldir voru með lakara lið en Svíar. En þessi frammistaða var auðvitað ótrúleg vegna þeirra aðstæðna sem leikið var við hér heima. Leikið var í gömlum hermannabragga að Hálogalandi í Reykjavík í sal sem var alltof lítill og ég minnist enn þess lúxus sem það þótt þegar farið var í eitt sinn suður á Keflavíkurflugvöll til að leika í stærra húsi.
Segja má að árið 1962 hafi handboltinn stimplað sig inn sem þjóðaríþrótt Íslendinga og þess vegna tel ég það menningarsögulegt slys að lofa ekki gamla íþróttahúsinu við Menntaskólann í Reykjavík að standa eins og það er svo að hægt sé að skoða þær slóðir þar sem Valdimar Sveinbjörnsson íþróttakennari innleiddi handboltann í sal sem var lítið stærri en betri stofa í venjulegri íbúð.
Þar kynntust ýmsir af fremstu íþróttamönnum þess tíma töfrum íþróttanna, t.d. gullaldaríþróttamennirnir Örn Clausen, Haukur Clausen og Hörður Haraldsson.
Safna ætti saman myndum í líkamsstærð af öllum þeim afreksmönnum, sem þar stigu sín fyrstu spor fyrr og síðar ásamt myndum af íþróttakennurunum frá þessum tímum og hafa þessar myndir til sýnis á ákveðnum tímum, þegar húsið væri opið fyrir almenning.
Íþróttahúsið í heild er aðeins um 2% af skólalóðinni og með nútíma tækni á að vera auðvelt að koma bókasafninu, sem menn vilja troða þar inn, fyrir annars staðar, ofan jarðar eða neðan.
Króatar unnu - Danir leika ekki til úrslita | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Innilega sammála þér minn kæri.
Bókasafnið getur verið þar sem Casa Kristi er/var.
Bjarni Kjartansson, 20.8.2008 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.