20.8.2008 | 14:40
Að skapa störf sem hverfa aftur.
Í fyrirsögn fréttarinnar um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á ströndum, - "skapar 200 ný störf", - felst grunnhugsun þeirra sem geta ekki hugsað sér að slaka á virkjunarframkvæmdum á Íslandi. Þeir sem lesa fyrirsögnina og upphaf fréttarinnar fá glýju í augun, - vaaá þetta er fleira fólk en á heima í hreppnum núna!
Og í framhaldi af því geta menn byrjað að leika sér að gömlum reikningi: 200 ný störf skapa minnst 500 afleidd störf og þar með mun fólki á svæðinu fjölga um meira en þúsund! Æðislegt!
Í lok fréttarinnar kemur síðan sannleikurinn í ljós: "Áætlað er að um 200 manns fái vinnu meðan á framkvæmdatímanum stendur." Sem sagt, 200 manns koma inn á svæðið og fara síðan svipað því sem gerðist hinum megin við flóann á tímum Blönduvirkjunar þar sem fólki hefur fækkað stöðugt eftir að virkjunin var reist.
Hugurinn er ekki leiddur að því hvernig þeir peningar, sem leggja á í þetta, nýtast til framtíðar. Þaðan af síður er hugað að því hvaða náttúruverðmætum á að fórna eða hvaða möguleika náttúruverndarnýting á þessu svæði gæti gefið fjárhagslega.
Virkjun Hvalár skapar 200 ný störf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvalá er mikið vatnsfall með jafnt vatnsrennsli og því ekki að undra þótt aftur sé tekin upp umræða um virkjun hennar. Hinsvegar hélt maður að það stæði eitthvað í mönnum að koma orkunni vestur yfir Ófeigsfjarðarheiði og yfir Djúpið. Svo er Eyvindarfjarðará litlu minna vatnsfall og vafalaust verður farið að horfa á hana, sei, sei já. En að þessi virkjun verði eitthvað til að styrkja byggð í Árneshreppi til langframa, það má taka undir með Ómari með það. Svo er nú satt best að segja hálf óhunganlegt að hugsa til þess að virkjunaræðið eigi að teygja sig inn á Hornstrandafriðlandið. Nóger nú samt að gert þegar. En manni er spurn: Ef það á að klára alla mögulega virkjunarkosti á þessum og næsta áratug, hvað á þá að verða eftir til að standa undir framþróun þjóðfélagsins í framtíðinni? Ekki síst ef halda á áfram þeirri snarrugluðu verðlagningu sem er á orkunni frá Kárahnjúkum, langt undir kostnaðarverði, sem er svo innheimt af almennum orkunotendum á Íslandi.
Vomurinn (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 15:14
Ómar og Vomurinn, hættið að agnúast út í þessar virkjanir. Reynið heldur að koma með raunhæfar og haldbærar hugmyndir um atvinnusköpun, sérstaklega á landsbyggðinni. Það hefur aldrei komið neitt af viti frá ykkur til atvinnu- og verðmætasköpunar!
Ketill B. Jóhannesson (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 16:10
Ketill, er þetta ekki frekar grunn athugasemd? Hér er rætt um virkjun sem mun sjá 200 manns fyrir atvinnu tímabundið. Fjandi mikil atvinnusköpun í því. Síðasta setning þín er alhæfing og bull og þú veist það ef þú hefur lesið eitthvað af færslum Ómars.
Villi Asgeirsson, 20.8.2008 kl. 17:44
Ég held að Ómar sé nú að fara með einhverja vitleysu núna. Ef honum er alvara með náttúruverndarnýtingu þá ætti hann að vera fremstur í flokki þeirra sem styddu þessa virkjun. Svæðið er örfoka og hætt við moldroki í þurrkatíð þannig að lón myndi fegra umhverfið verulega. Tekjur sveitarfélagsins af virkjuninni myndu síðan kanski gera því kleift að bjóða uppá þjónustu sem gæti þýtt að fólki væri kleift að búa þarna áfram. Ekki hef ég séð Ómar eða hans flokk sem baráttuflokk fyrir landsbyggðina. MIklu fremur sem samansafn 101 plebba sem ættu bara að halda sig heima hjá sér og hugsa um að forða fuglavarpinu í Vatnsmýrinni áður en þeir bjóða fram hjálp sína annarsstaðar.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 20.8.2008 kl. 18:43
Guðmundur skýtur sig í fótinn með þessum orðum:„MIklu fremur sem samansafn 101 plebba sem ættu bara að halda sig heima hjá sér og hugsa um að forða fuglavarpinu í Vatnsmýrinni áður en þeir bjóða fram hjálp sína annarsstaðar.“
Hér er þéttpakkað fordómum, lýðskrumi og rugli. Vill hann að hann sé tekinn alvarlega?
Ketill er á svipuðum slóðum.
Hjálmtýr V Heiðdal, 20.8.2008 kl. 19:41
Hefur þú einhverja skoðun á málinu Hjálmtýr yfir höfuð? Þekkir þú eitthvað til kanski? Meðan að liðið á höfuðborgarsvæðinu getur ekki klifrað niður úr fílabeinsturninum kalla ég það plebba. Landeyðingarstefnan sem rekin er til hagsbóta fyrir höfuðborgarsvæðið er bæði hlaðin fordómum, lýðskrumi og rugli og ætti ekki að vera tekin alvarlega en hefur verið allsráðandi síðan á fjórða áratugnum.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 20.8.2008 kl. 21:13
Eitthvað þekki ég til þarna. Ég gerði heimildakvikmynd sem heitir Gamla brýnið og fjallar um Ófeigsfjörð í fortíð og nútíð. Aðra gerði ég um síldarævintýrið á Djúpavík. Þar var stóriðja sem dró að hundruð manna. En nú er þar ekkert eftir af henni - en menningin og ferðaþjónusta komin í staðin. Ég hef farið margar ferðir um þessar slóðir. Konan mín er Strandamaður og frænka Péturs í Ófeigsfirði. Ég á einnig ættir að rekja til Vestfjarða. Heilmikið búinn að skoða svæðið á fæti og mér þykir vænt um það.
En ég var nú fyrst og fremst að fjalla um umræðustílinn hjá þér. Þetta gengur engan veginn að vera með svona upphrópanir og sleggjudóma. Ég held að þú gerir þér grein fyrir því. Láttu ekki menn eins og mig fara í taugarnar á þér. Þú stillir upp ímynduðum hóp sem hefur væntanlega ekki farið úr fyrir miðborg Reykjavíkur en er samt að hafa skoðanir á landsbyggðarmálum. Þetta veist þú auðvitað að er bara rugl. Slakaðu á og haltu áfram að vera góður við þína nánustu.
Hjálmtýr V Heiðdal, 20.8.2008 kl. 21:44
Guðmundur Björnsson. Vertu svo vænn að svara þeirri spurningu hvað þú hefur unnið til að ná þeirri stöðu að geta talað niður til manna eins og Ómars Ragnarssonar.
Þú og þínir skoðanabræður hafið þráfaldlega rætt um okkur sem trúum því að stóriðja sé ekki eini valkostur þjóðarinnar, sem einhverja ábyrgðarlausa heimskingja. Og jafnframt er ykkur tamt að tengja okkur við svæði 101 Reykjavík!
Veistu það Guðmundur að svona málflutningur er ekki svaraverður og ykkur sem á honum hamra til lítils sóma?
Og að lokum: Þessi krafa um að bent sé á aðrar leiðir er orðin ansi þunn súpa. Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir og ábendingar sem þinn hópur hefur ekki svo mikið sem reynt að hlusta á. Það mætti þá snúa þessari spurningu við og beina henni til ykkar:
Er það bjargföst skoðun ykkar að þegar búið verður að virkja allt sem unnt er að virkja á Íslandi þá séu öll bjargráð þrotin?
Árni Gunnarsson, 21.8.2008 kl. 00:09
Svona er frjálshyggja hægrimanna, það má græða peninga á hverju sem er, hvort sem það er náttúran eða fólk. Þetta er svona ,,skítt með aðra" hugsunarháttur.
Valsól (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 06:30
Hjálmtýr, þetta er ekki grunn athugasemd hjá mér, heldur er ég að lýsa málflutningi Ómars og fylgismanna hans í hnotskurn. Ég held að fólk ætti og hugsa sér nær og berjast gegn eyðileggingu á svæðum í kringum Höfuðborgarsvæðið þar sem alltaf er verið að taka ný ósnortin lönd undir byggingar og gatnagerð. Ekki má gleyma öllum byggingar- og skiplagsslysunum á Höfuðborgarsvæðinu. Af hverju er þessu ekki mótmælt? Ég hef aldrei heyrt neinar raunhæfar hugmyndir koma frá Ómari og hans skoðanasystkynum um atvinnuskapandi framkvæmdir á landsbyggðinni, einungis hugmyndir um óraunhæfa loftkastala.
Vissulega hefur Ómar rétt fyrir sér varðandi að þessi 200 störf gangi tilbaka, en þetta er þó byrjunin á einhverri annarri atvinnusköpun sem myndi spynnast af þessari virkjun. Nú svo mætti nota orku frá þessari virkjun til að knýja t.d. gagnaver fyrir vestan sem gæti skapað 50-100 störf pr. gagnaver.
Og Árni, það er enginn að tala um að virkja allt og allsstaðar. Og svo finnst mér fáránlega bábyljan hjá fólki sem heldur því fram að setja eigi niður álver í hverju krummaskuði úti á landi. Mér vitandi stendur einungis til að byggja álver í einum stað úti á landi, nefnilega á Bakka við Húsavík. Hinsvegar á að byggja amk. 3 álver á Suðvesturhorninu (í Helguvík, og tvö álvinnslufyrirtæki í Þorlákshöfn), auk frekari stækkunar á Grundartanga og í Straumsvík með tilheyrandi virkjunum Suðvestanlands. Enginn mótmælir þessu.
Ketill B. Jóhannesson (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 11:32
Ketill, við erum ekki að mótmæla álverum. Við erum að mótmæla virkjunum og meðfylgjandi umhverfisraski. Það að álver éta svona mikla orku og áráttan að segja þau vera einu leið okkar út úr ímynduðum miðöldum, gerir þau að skotmörkum. Það er kannski aðalmálið að þetta á mestallt að rísa á suð-vestur horninu. Kannski erum við ekki svo ósammála eftir allt.
Villi Asgeirsson, 21.8.2008 kl. 13:40
Bágt er að sjá hvað umræðan fer fljótt niður á lágt plan. Það er ekki nóg að hrópa um að Ómar og fólk með ámóta skoðanir hafi ekki komið með neinar tillögur, sem er rangt. En Göbbels var höfundur þessarar aðferðar, hrópa lygina nógu oft og nógu hátt, þá verður hún sannleikur. En það væri gott að fá svör við því hvað mikið yrði eftir að ónýttum, þokkalega hagkvæmum virkjunarkostum, þegar búið er að virkja fyrir álver á Bakka, álver í Helguvík, kraftþynnuverksmiðju á Akureyri og kísilflöguverksmiðju á Suðurlandi? Og hvað verða margir tilbúnir til að búa hér í landinu og þurfa að borga niður rafmagnið til þessara stóriðjuvera? Af hverju er ekki hægt að birta tölur um raforkuverð frá Kárahnjúkavirkjun til Alcoa?
Vomurinn (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 13:59
Ketill; það getur verið erfitt að skiptast á skoðunum við mann sem hefur þessa afstöðu til annarra: „Það hefur aldrei komið neitt af viti frá ykkur til atvinnu- og verðmætasköpunar!“...„einungis hugmyndir um óraunhæfa loftkastala“. Er þá ekki málið útrætt?
Það segir ekkert um málstað Ómars Ragnarssonar hvort hann hafi stungið uppá einhverjum atvinnutækifærum. Ef það á að dæma menn út úr umræðunni á þessum forsendum þá er erfitt að viðra skoðanir. Þetta er bragð sem ýmsir stjórnmálamenn og aðrir talsmenn stóriðju hafa notað til að slá á mótmælendur.
Svo er þetta tal um að líta sér nær „og berjast gegn eyðileggingu á svæðum í kringum Höfuðborgarsvæðið“. Stóriðjustefnan er ekki staðbundin - og hún er ekki einu sinni bundin við núlifandi kynslóðir. Og náttúruverndarbaráttan er á sama hátt umræða um allt landið og þann arf sem við skilum til næastu kynslóða.
Hjálmtýr V Heiðdal, 21.8.2008 kl. 14:43
Ég var að koma úr ferð nú rétt í þessu sem mér og öðrum var talin trú um að væri "örfoka." Eftir ferð sem Geir Haarde fór með mér um lónstæði Hálslóns þar sem drekkt hefur verið hátt í 40 ferkílómetrum að best gróna svæði hálendisins með 3-4 metra þykkum jarðvegi sagði hann um svæðið að þar væri einhver gróður en mikið af melum og örfoka landi.
Vísa í nýjan bloggpistil sem ég er að byrja að skrifa og verður kominn á þrykk innan hálftíma undir heitinu "útfarir af tvennum toga."
Ómar Ragnarsson, 21.8.2008 kl. 17:08
40 ferkílómetra??
Hálslón er 57 ferkm. og 70 % af lónstæðini var ekki "best gróna svæði hálendisins með 3-4 metra þykkum jarðvegi". Ég hef alltaf haft þá trú Ómar, að þú þekkir þetta svæði manna best. Það er greinilega vitleysa í mér. Nema þú sért í því að blekkja fólk vísvitandi. Ertu nokkuð að því Ómar?
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2008 kl. 20:59
Gunnar, lestu bara skýrslurnar um virkjunina. Hálsinn var besta beitiland Jökuldælinga á hálendinu og þó í um og yfir 600 metra hæð yfir sjó. Varnarvegurinn að austanverðu er 15 kílómetra langur, jafnlangur og gróðurlendi þessarar fyrrum Fljótshlíðar hálendisins.
Ómar Ragnarsson, 22.8.2008 kl. 00:46
Ég hef komið fram með hugmyndir um að læra af Lapplendingum sem fá til sín fleiri ferðamenn á veturna en Íslendingar fá allt árið með því að selja fernt: Myrkur, kulda, þögn og ósnortna náttúru.
Samt er lengra til Lapplands frá Vestur-Evrópu heldur til Íslands.
Við gátum toppað Lappland sem heimkynni jólasveinsins með því að bjóða á Fljótsdalsheiði það sama og Lapplendingarnir, jólasvein, hreindýr og snjó, - en auk þess stórbrotið fjall, Snæfell og tólf viðbótarjólasveina, Grýlu, Leppalúða og tröllin.
Ég hef sett fram tillögur um að láta Leirhnjúkssvæðið og Gjástykki i friði og skapa þar fleiri störf við miðstöðina "Sköpun jarðar" en menn vonast eftir að þessi svæði skapi í álveri í öðru sveitarfélagi. Fyrirmyndin er til í Yellowstone þar sem miðstöðin byggir á náttúrulegum þætti skógarelda í eðlilegum kynslóðaskiptum í skógunum.
Aðeins þyrfti brot af þeim hundruðum milljarða sem eytt er í virkjanir fyrir álverin yrði veitt í það að læra af reynslu annarra þjóða og gera ótal möguleika að veruleika á borð við þá sem ég nefndi hér á undan sem dæmi.
Ómar Ragnarsson, 22.8.2008 kl. 00:55
Ég veit fullvel að víða á þessu svæði er ótrúlega gróðursælt miðað við hæðarlegu landsins, t.d. er Fljótsdalsheiðin í heild sinni eins og engjar, þó í 5-600 m. hæð sé. En afhverju að ýkja lýsingarnar á landinu? Eru fleiri atkvæði í slíku fólgin? Ég held ekki... ekki þegar til lengdar lætur.
Ég hef margoft sé þig með þessa Lapplands-draumsýn. Veðráttan í Lapplandi verður aldrei samanburðarhæf við íslenska veðráttu. Að halda að við getum boðið upp á jafn stabíla vetrarveðráttu og vinir okkar í Lapplandi, er útópía sem á heima í Draumalandinu hans Andra Snæs.... og hvergi annarsstaðar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2008 kl. 01:17
Ómar - nú get ég ekki tekið undir með þér.
Það er ekki hægt að líkja þessari Hvalárvirkjunarhugmynd við stærstu virkjanir landsins. Við fyrstu sýn virðist þessi hugmynd hreint ekki slæm. Vestfirðinga vantar sárlega lyftistöng í atvinnulífi. Ég fæ ekki séð að umhverfisáhrifin þarna verði neitt veruleg, þvert á móti liggur þetta svæði vel fyrir. Hinsvegar gætu áhrifin orðið veruleg á mannlífið og samfélagið allt.
Virkjun er ekki alltaf það sama og "virkjun".
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.8.2008 kl. 09:54
Mínar áhyggjur beinast helst að því að nú sé verið að setja á fullt orkuöflun fyrir fyrirhugaða olíuhreinsistöð í Arnarfirði. Fyrir ykkur virkjanasinna þá skal það upplýst að þrátt fyrir búsetu í Reykjavík (113 reyndar, en ekki 101) þá er ég Vestfirðingur í húð og hár, á stóran hluta fjölskyldu minnar þar, og er þar tíður gestur. Ég er mikill talsmaður atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum sem þeir vita sem til mín þekkja. En ekki á kostnað náttúruperlunnar Vestfjarða. Hvað verður svo næst? Dynjandi? (Fjallfoss í Dynjandisá - að margra mati fallegasti foss landsins). Ég var á ferð um sunnanverða Vestfirði um miðjan júlímánuð, og kom á lognkyrrum degi niður í Arnarfjörð af Hrafnseyrarheiði. Mér varð hugsað til þess hvernig þetta liti út með olíuslikju liggjandi yfir. Tvo menn sá ég með mælitæki við litlu brúna í Dynjandisvoginum.. Hvað skyldu þeir hafa verið að gera? Spyr sá sem ekki veit. Ég trúi ekki Ólína Þorvarðardóttir, að þú sem einn af forsvarsmönnum Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða gerir þér ekki grein fyrir því, að Hvalsárvirkjun yrði bara byrjun á öðru og meira.
Sigríður Jósefsdóttir, 22.8.2008 kl. 10:51
Það skal upplýst að Guðmundur Björnsson er uppalin og á heima í Árneshrepp og þekkir mæta vel um hvað málið sníst um. Og sömuleiðis Ólína Þorðvarðardóttir sem fer hlíjum og góðum orðum um þessa væntanlegu góðu Hvalárvirkjun.
Jón Halldórsson (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 13:47
Hjálmtýr, vísst ættu menn að líta sér nær og berjast gegn öllu jarðraskinu völdum útþennslu Höfuðborgarsvæðisins í staðinn fyrir að vera ævinlega að agnúast út í framkvæmdir úti á landsbyggðinni. Þetta er svona svipað og að kasta steini er glerhúsi. Þú virðist vera rök- og ráðþrota.
Ómar, hugmyndir þín um setrið "Sköpun Jarðar" er vissulega góðra gjalda verð, en mun því miður einungis skapa nokkur staðbundin störf á því svæði sem hún yrði staðsett á. Það sama á við um Jólasveinalandið við Snæfell. Hvað með restina af landsbyggðinni?
Ég veit að svona setur er til í Yellowstone í Wyoming, en sökum "verndarstefnu" á stórum svæðum í Wyoming, er þetta ríki eitt fátækasta og fámennasta ríki Bandaríkjanna. Innan við 500 þús. manns búa þar og þar er atvinnuleysið viðvarandi 30-35%. Viljum við að Ísland verði svona eins og Wyoming???
Ketill B. Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 16:46
Setrið "Sköpun jarðar" myndi skapa fleiri störf en orkan af svæðinu við Leirhnjúk og í Gjástykki. Vonast er til að orkan í Gjástykki sé 30 megavött, en þau skapa 20 störf í álveri á Bakka sem gefa álíka virðisauka í þjóðfélagið og 7 störf í sjávarútvegi.
Mín kæra Ólína, ég er þér sammála um það að virkjun Hvalár er langt frá því að vera jafn slæm umhverfislega og Kárahnjúkavirkjun. En mig langar til að segja þér frá því að þegar ég hitti eitt sinn Kristin H. Gunnarsson og við ræddum um þessar tvær virkjanir og það að hann skyldi styðja Kárahnjúkavirkjun, sagði hann að hann teldi að menn ættu að stíga mjög varlega til jarðar við virkjun Hvalár.
Þegar ég spurði hann hvers vegna sagðist hann hafa farið um virkjunarsvæðið og vissi hvað væri um að ræða. Með því að gera það að virkjanasvæði væri verið að minnka ósnortið svæði sem væri beint framhald af Hornströndum og hluti af landslagsheild þeirra.
Afar fáir hafa farið um þetta svæði og vita hvað þeir eru að tala um. Ég hef ekki farið um það gangandi en hins vegar flogið um það í lágflugi fram og aftur og ekið á snjó norður eftir Ófeigsfjarðarheiði að vetrarlagi.
Það er að koma fram sem ég óttaðist þegar Kárahnjúkavirkjun var samþykkt að allar virkjanir myndu fljúga í gegn eftir hana vegna þess að þær væru ekki eins slæmar.
Þegar alkinn hættir drykkjunni heldur hann ekki áfram að drekka einn og einn bjór. Einn bjór það sama og heil vískíflaska.
Aðalefni bloggpistils míns var reyndar um það hvernig málum er sífellt stillt upp með fyrirsögnum og umræðu á svipaðan veg og með fyrirsögninni "200 ný störf skapast" og enn og aftur vitna ég í það sem gerðist eftir að framkvæmdir við Blönduvirkjun hættu.
Ómar Ragnarsson, 22.8.2008 kl. 21:27
Er ekki vísir að svona vísindasafni við Geysi? Hvernig væri að efla það og gera að virkilegu tilraunaverkefni. Geysir er nálægt stærsta markaðssvæðinu; Suð-Vesturhorninu og það væri alveg vel þess virði að opinberu fé (ef einkaaðilar trysta sér ekki til) yrði varið í atvinnusköpun af þessu tagi. En mér finnst hálf hlægilegt að stilla upp tveimur ólíkum atvinnugreinum eins og þær skaði hvora aðra. Hverslags bull er það nú eiginlega?
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2008 kl. 02:11
Enn og aftur er verið að tala gegn atvinnustarfsemi á landsbyggðinni í þágu einhverjar ímyndaðrar umhverfisverndar. Eða bara gegn atvinnustarfsemi almennt ! Hvort haldið þið að sé meira jarð- og náttúrurask, þessi virkjun eða uppbygging Norðlingaholts eða Úlfarsárdals vegna íbúðarbyggðar ? Og hvar er náttúruvaktin þegar byggð þenst út við höfuðborgarmörkin ? Svar. Ekki til. Ástæðan : Þetta er á höfuðborgarsvæðinu og hefur þess vegna ekki náttúruverndargildi skv. skilgr. sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna. Eða þetta eru íbúðir og samgöngubætur fyrir höfuðborgarbúa og þarf þess vegna ekki í neitt umhverfismat. Þvílíkur tvískinnungur ! Annars Ómar, lagðir þú ekki einu sinni til að lagður yrði stór alþjóðaflugvöllur á Barðaströndinni. Já hvort ætli hafi nú meiri umhverfisáhrif, slíkur flugvöllur eða um 30 MW virkjun ? En alltaf gaman að hafa flugvelli sem flesta á landinu fyrir flug- og ferðafólkið. Þurfa þeir nokkuð í umhverfismat ? En kalla þeir ekki á stóraukna olíunotkun, hvar á þá að hreinsa olíuna ? Svar : Annars staðar ! (sbr. eitthvað annað !)
Sigurður (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.