22.8.2008 | 14:44
Smátt er fagurt - og stórt.
Okkur finnst kannski ekki rétt að nota orðið örþjóð um Íslendinga, en 300 þúsund manns komast vel fyrir í einu hverfi af borgum nágrannalanda okkar. Í síðastu mótum hefur mér sýnst að mannfæðin hafi háð okkur, - það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað svona lítil þjóð getur á hverjum tíma búið til marga afreksmenn í fremstu röð á heimsmælikvarða.
Lykilmenn "strákanna okkar" hafa verið orðnir þreyttir í síðustu leikjum alþjóðamóta þeirra vegna þess hve þurft hefur að keyra áfram á sömu mönnunum og þeir orðnir útkeyrðir í lokaleikjum sínum.
Þetta kom okkur í koll síðast. Lykilmenn voru meiddir eða að ná sér upp úr öldudal og þá nægði ekki að vera með ofurþjálfarann Alfreð Gíslason við stjórnvölinn, - hann hafði einfaldlega ekki úr nægilega miklu að moða. Lið stórþjóðanna höfðu slíka breidd og mannval að ekki þurfti að keyra neinn mann út, - það var ævinlega hægt að skipta jafnfrábærum mönnum inn á.
Allt hefur verið frábært hjá strákunum á þessum Ólympíuleikum en mér sýnist muna mest um það að leikmennirnir hafa allir verið í sínu besta formi og breiddin nægilega mikil til að hægt hefur verið að hvíla þá nægilega hvern um sig til að halda þeim í toppformi allan tímann.
Það er einstætt afrek að jafn lítil þjóð skuli hafa getað teflt fram verðlaunaliði í flokkaíþrótt. Auðveldara er fyrir slíka þjóð að eignast afburðamenn í einstaklingsíþróttum.
Tvívegis áður hafa Íslendingar átt hópa afreksfólks sem hafa varpað ljóma á landið. 1950 sendum við hóp frjálsíþróttamanna á Evrópumeistaramót í frjálsum íþróttum þar sem tvö gull unnust en alls voru möguleikar á sex gullverðlaunum og níu verðlaunum alls
Í annað sinn vöktum við undrun erlendis þegar heimsmeistarar Frakka í knattspyrnu máttu hafa sig alla við tila að vinna okkur naumlega í raunverulegum keppnisleik í riðlakeppni Evrópumeistarakeppni fyrir framan nær fullskipaðan aðalleikvang Parísar.
Þótt mun færri iðki handbolta í heiminum en fjálsar íþróttir og knattpyrnu er afrek strákanna nú líklega mesta íþróttaafrekið, ekki hvað síst ef fyrsti ólympíugullpeningurinn kemur í hlut Íslendinga.
Til hamingju! Ekki bara með afrekið, strákar, heldur ekki síður með það hvernig þið hafið virkjað alla þjóðina og gefið henni ómetanlega gjöf.
Íslendingar í úrslitaleikinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar,
"hvernig þið hafið virkjað alla þjóðina"
það mætti halda að þú værir með þetta orð á heilanum
Kv,
Umhugsun.
Umhugsun (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 15:46
Sæll og til hamingju.
Ég var á leiknum þegar við unnum Frakka, en töpuðum naumlega fyrir Zidane. Það var ótrúleg stund að jafna í 2-2 og horfa á 100.000 Frakka gapa eins og þeir hefðu verið slegnir með signum fiski í andlitið.
Nú er harma að hefna. Nú verða þeir kláraðir þessir skrattar. Nú er enginn Zidane til að bjarga þeim fyrir horn.
Og svooooooooo BERJAST!!!
Hrannar (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 18:26
Til hamingju allir!!!!!!
Mér finnst ekki bara sigurinn, (þó hann sé auðvitað númer eitt, ) heldur einnig stemningin og leikgleðin í hópnum sem er svo yndislega aðdáunarverð. Guðmundi þjálfara hefur tekist að láta liðið toppa á réttum tíma og það er hárrétt sem þú bendir á og ég tel vera lykilinn að þessum árangri, en það er breiddin í liðinu. Allir eru tilbúnir að axla ábyrgð en oft hefur manni fundist vera of mikið á Óla Stef lagt. Og svo erum við komnir með alvöru markvörð loksins, Hr. Gustavsson.
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.8.2008 kl. 19:41
Þetta er frábært!!!!! Ég er búinn að bjóða fólki í morgunmat á sunnudaginn. Sýndist leikurinn vera sýndur á Eurosport, svo ef aðrir landflótta eru að lesa þetta, við getum líka fylgst með!
Íslenskut ólympíugull í handbolta með spældum eggjum. Eða frökkum... Er eitthvað betra?
Villi Asgeirsson, 22.8.2008 kl. 20:38
Eitt atriði í viðbót: Guðmundur var talinn taka áhættu með því að hafa bara tvo markverði en hún hefur skilað árangri því að breiddin úti á gólfinu er bara meiri.
Þetta er mjög stór stund fyrir Guðmund sem hefur hjálpað strákunum til að skapa þessa breidd með því að æfa þá og nota þá skynsamlega og gefa þeim tækifæri og treysta þeim.
Ómar Ragnarsson, 22.8.2008 kl. 21:09
Loksins er spilað á fleirum mönnum á móti en bara þessum 7 sem eru inná í einu.Alltaf fundist spilað á of fáum mönnum.Sem betur fer og vonandi liðin tíð að Guðjón og Óli Stef.eigi að klára alla leiki eða mót og hinir bara uppfylling á gólfi.Samanber síðustu mót.Eins og Óli Stef.sagði í viðtali í vikunni að á síðustu OL.ætlaði hann að gera allt sjálfur.Menn valdir sem voru meiddir og sumir ekki neinu formi eins Einar Hólmsteins.Það skil ég ekki.Frábært hvað Guðjón svarar Adolf Inga með Frakkana.Bara næsti andstæðingur sem hentar okkur hver sem hann er.Adolf má vera skíthræddur við þá.Og vonandi hættir hann að tala um að Logi geti klúðrað leikjum og reyndar unnið líka.Nú bíður maður spenntur eftir gullleiknum,fyrst bronsið samt.Góða skemmtun.
Halldór Jóhannsson, 22.8.2008 kl. 22:32
"...fyrst bronsið samt..."? Erum við ekki komnir þegar uppfyrir bronsið og með silfrið gulltryggt í það minnsta?
Ómar Ragnarsson, 22.8.2008 kl. 23:02
Fyrirgefðu Ómar,var að meina að horfa á bronsleikinn....Kveðja
Halldór Jóhannsson, 23.8.2008 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.