Bakgrunnur sem ekki má gleymast.

Kínverjar sýndu mátt sinn og megin sem þeir byggja á metnaði fjölmennustu þjóðar heims sem reist hefur veldi sitt á grunni stórfenglegrar fornaldar frægðar. Sem merk þjóð áttu þeir það skilið og þjóðarstolt þeirra og samheldni vegna leikanna er skiljanleg.

En athyglin að því sem þessi uppgangur byggist á má ekki slævast. Í lítilli frétt að morgni s.l. fimmtudags greindi frá því að í Kína væri leyfilegt að mótmæla, - allir gætu sótt um leyfi til þess.

Slík leyfi væru hins vegar nær aldrei veitt heldur væri viðkomandi kippt út úr samfélaginu. Tugþúsundir slíkra væru á "endurhæfingarhælum." Mótmælendur væru einfaldlega sviptir því litla frelsi sem þeir höfðu og þeir fjarlægðir.

Þetta má ekki gleymast. En það má heldur ekki gleymast hvernig við Íslendingar tókum þátt í þessu með Kínverjum á sínum tíma þegar Falun Gong-fólk vildi komast til Íslands.

Á Íslandi var gengið enn lengra en í Kína að því leyti til að því var slegið föstu fyrirfram að þetta fólk myndi mótmæla. Enn auðveldara var fyrir Íslendinga en Kínverja að fjarlægja þetta fólk og koma í veg fyrir hugsanleg mótmæli þess með því einfaldlega að meina því að koma til landsins. Samkvæmt landslögum okkar hafði það leyfi til að mótmæla en í raun var því bannað það fyrirfram.

Endurhæfingarhælin voru flugstöðvarnar í Evrópu þar sem það var stöðvað og endurhæfingarmeðferðin fólst í þeim lærdómi sem það átti að draga, - að kúgunin á sér engin landamæri.


mbl.is Ólympíuleikunum slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ging Hló með falskar glennur,
Gong Mjó með skakkar tennur,
í Neðra falin,
næturgalin,
rautt blóð í Gaukshreiðri rennur.

Þorsteinn Briem, 24.8.2008 kl. 15:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég veit að ýmislegu er ábótavant í þessum málum hjá okkur en mér finnst ekki saman að jafna aðstöðu andófsfólks í Kína og á Íslandi. Ég lenti hins vegar í þeirri aðstöðu á árunum 2002-2006 að kynnast þeim ótrúlega og ógeðfellda þrýstingi sem þáverandi stjórnvöld gátu beitt þegar þau gátu notað aðstöðu valda, aðstöðu og fjármagns til kúgunar.

Þetta var gert á svo útsmoginn hátt að það verður verkefni sagnfræðinga framtíðarinnar að leiða það endanlega í ljós, því nú um stundir virðist hinn þögli meirihluti geta látið svona yfir sig ganga og virðist ekki vera nokkur leið að fá þetta upp á yfirborðið að neinu gagni.

Þegar til dæmis er nefnt að hér viðgangist símahleranir leggja menn bara kollhúfur, yppta öxlum og úr látbragði þeirra má lesa: Og hvað með það?

Ómar Ragnarsson, 24.8.2008 kl. 16:59

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það var ekki skynsamlegt að tala hér um leyndarmál í síma hér áður fyrr vegna til dæmis stöðugs "samsláttar" á símalínum, enda held ég að fáum eða engum hafi dottið það í hug.

Og það er næsta víst, eins og Bjarni Fel myndi segja, að ekkert sem máli skipti hafi komið út úr þessum símhlerunum hér. Og einnig næsta víst að það verður aldrei skynsamlegt að tala um leyndarmál í síma, hvorki hér né erlendis.

Þegar Falun Gong-meðlimirnir voru hér sá ég mann sitja makindalega í stórum jeppa og fylgjast í sjónauka með þeim félögum þar sem þeir skoppuðu litlir og gulir niður að grásleppuskúrunum við Ægissíðu, stórhættulegir eins og óköruð lömb að vori.

Þorsteinn Briem, 24.8.2008 kl. 17:33

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þessi njósnari, sem ég nefndi hér að ofan, var hvítur miðaldra karlmaður og leit út fyrir að vera íslenskur en ég greindi þó ekki af hvaða ætt hann var. Trúlega á vegum dómsmálaráðuneytisins og þeir ættu nú að merkja sína menn með ESPIONAGE en þetta atriði stendur vonandi til bóta.

KGB í sovéska sendiráðinu hér neyddi Óla föðurbróður til að "njósna" hér fyrir þá. Annars "kæmi eitthvað fyrir" fjölskyldu eiginkonu hans í Rússlandi. En Óli sagði Bjarna Ben og bandaríska sendiráðinu hér frá öllu saman, lét KGB fá gagnslausar upplýsingar en sagði bandaríska sendiráðinu og Bjarna Ben hvaða upplýsingar KGB vildi fá hér.

"Þeir sem eiga leyndarmál munu ekki eiga þau lengi." (James Bond, held ég.)

Þorsteinn Briem, 24.8.2008 kl. 18:34

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Athyglisvert, Steini. Forsætisráðuneytið ætti að upplýsa um, hvaða upplýsingar þetta voru, sem KGB vildi fá hér.

Jón Valur Jensson, 24.8.2008 kl. 18:57

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bjarni Ben skrifaði mikið niður hjá sér og hugsanlega er eitthvað um þetta í dagbókum hans. Pabbi fór oft til hans og kom Rauðu bókinni - Leyniskýrslum SÍA á framfæri á sínum tíma, enda vann hann mikið og lengi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Jón minn Valur.

Óli föðurbróðir lét Bjarna Ben einnig fá upplýsingar um ferð hans og fleiri Íslendinga á Heimsþing æskunnar í Moskvu árið 1957, þar sem hann kynntist Kötu frá Kislovodsk í Rússlandi, sem varð síðar eiginkona hans. En Óli fór til Moskvu að hluta til á vegum Bjarna Ben.

En ég held líka að KGB í Moskvu hafi verið ánægt með að fá nánast hvaða vitleysu sem var héðan, flokkað bara skjölin og sett þau upp í hillu, þar sem þau söfnuðu svo ryki. Kvótinn fylltur þá vikuna eða mánuðinn, svona svipað og skjalasöfn Stasi í Austur-Þýskalandi, þar sem allir heimasímar voru hleraðir.

En að minnsta kosti 100 manns unnu hér í sendiráði Sovétmanna og eitthvað urðu þeir allir að hafa fyrir stafni, sinna til dæmis njósnum og áróðri.

Það er alltaf best að eiga engin leyndarmál og sannleikurinn mun gera yður frjálsa. Þú veist það nú, Jón minn Valur.

Þorsteinn Briem, 24.8.2008 kl. 19:57

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar litlir karlar eru búnir að lesa sig ruglaða í eigin pistlum um njósnir og búa sér til hryðjuverkahópa úr plasti er orðið stutt í bófahasarinn.

En því miður er þetta ekki skáldsaga eins og Don Kíkóti eftir Cervantes heldur partur af pólitískum raunveruleika á Íslandi í dag.

Árni Gunnarsson, 24.8.2008 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband