Lón verður að taka við af lóni.

Ég var að koma úr fjögurra daga leiðangri um slóðir Hraunaveitu, sem er aðeins hluti af Kárahnjúkavirkjun en myndi ein og sér teljast með mestu umhverfisröskun landsins. Ég hef því ekki haft tíma til að spyrja um það hve lengi miðlun fyrirhugaðs Stórasjávar endist. Svona hratt brunar stóriðju- og virkjanahraðlestin áfram.

Nú þegar er Sultartangalón á góðri leið með að fyllast af auri þarf að huga að nýrri miðlun í staðinn. Ég hef áður rökstutt það hve lítinn ávinning Bjallavirkjun gefur, ígildi virðisauka 20 starfa í sjávarútvegi hið mesta, og hve gríðarleg umhverfisspjöll verða af henni þegar fegursti hluta Tungnaár, sem er í hæsta gæðaflokki á Íslandi í Kýlingunum svonefndum, verður þurrkuð upp á svæði þar sem Landmannalaugar og Veiðivötn eru á sitt hvora hönd, aðeins fáa kílómetra í burtu.

Ekki er að sakast við Eystein Hafberg, sessunaut minn og gróinn vin úr Menntaskóla og aðra bekkjarbræður mína og aldavini, sem hanna stíflur og virkjanir. Þeir hafa byggt upp dýrmæta þekkingu, sem Eysteinn miðlaði áður í fátækum þróundarlöndum, þar sem þessarar þekkingar hefur verið mikil þörf hjá fólki sem hefur ekki haft neitt rafmagn.

Þessir verkfræðingar ráða því ekki í hvaða virkjanir og fyrir hverja á að ráðast á Íslandi, frekar en iðnaðarmenn, ýtustjórar, verkamenn og aðrir sem vinna við virkjanirnar.

Það eru æðstu ráðamenn þjóðarinnar sem bera ábyrgðina og leggja línurnar með raunverulegu samþykki þeirra, sem kjósa þá aftur og aftur. Ef íslenskir verkfræðingar og íslenskt vinnuafl vinna ekki verkin við gerð virkjananna, eru bara útlendingar fengnir til að gera það.

Frábærir íslenskir verkfræðingar björguðu því sem bjargað varð við gerð Kárahnjúkavirkjunar þar sem stjórnvöld tóku óheyrilega áhættu vegna þess hve tæknilega erfið hún var. Styðja ætti útrás þessarar þekkingar og verkkunnáttu í þágu blásnauðra þjóða sem ekki hefur verið falin varðveisla einstæðra náttúruverðmæta eins og okkar ríku þjóð hefur verið falið.   

 


mbl.is Litlu minna en Hálslón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar hefur þú flogið frá Tungufljótsbrúnni í Skaftártungu og þaðan allt til sjávar eftir Kúðafljóti til að skoða allan þann aur og sand sem Leirá úr Mýrdalsjökli og Skaftá og þá helst í Skaftárhlaupum hafa borið þangað með sér allt til sjávar við Mýrnatanga.

Hafir þú ekki gert það, legg ég til að þú gerir það. Það eru alltaf til  tvær hliðar á hverju máli. Hvar eru mýrarnar frá Flögu og Hrífunesi sem voru austan við Hrífunesheiðina?

Hvað um Meðalandið hefði ekki áður verið búið að hlaða fyrir Kúðafljót?    Gissur Jóh.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 09:10

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Andri Snær hvatti almenning með sinni miklu andagift, misseri eða tveimur áður en vatni úr Hálslóni var veitt í Fljótsdalinn, að flýta sér austur svo það sæi í síðasta sinn fagurbláan Löginn. Um smekk verður auðvitað ekki deilt en ég þekki engan hér eystra sem lýst hefur Leginum fagurbláum. Vissulega hefur hann breytt um lit, úr drullu-steingráum yfir í drullu-brúngráan.

 Hvaða filter ætli Andri Snær noti yfir augnlinsur sínar þegar hann horfir yfir Draumalandið? Þær hljóta að vera af svipuðum toga og notaðar hafa verið af aðilum sem falsað hafa myndir, m.a. af Eyjabökkum og Kárahnjúkasvæðinu í þeirri viðleitni að blekkja almenning til fylgilags við sig

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2008 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband