Hvað snertir þetta okkur?

Fyrir fimm árum tóku tveir Íslendingar þá ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar en í óþökk yfirgnæfandi meirihluta hennar við værum í hópu viljugra þjóða í hernaði á hendur fjarlægri þjóð á upplognum forsendum. Nýlega hefur verið varpað ljósi á það að þetta var meðal annars gert í þeirri von að fá að viðhalda hernaðarviðbúnaði á Keflavíkurflugvelli sem var óþarfur.

Já, eins og Andri Snær hefur orðað það: Það var friðvænlegra en áður á norðurslóðum og vá fyrir dyrum. Hundruð manna yrði atvinnulausir og hrun samfélagsins á Suðurnesjum blasti við ef herinn færi. Raunin varð hins vegar sú að atvinnuleysið jókst ekkert eftir að herinn fór og meiri uppgangur varð syðra en þekkst hafði áður. 

Afleiðingar hernaðarins í Írak hafa birst í gríðarlegum flóttamannastraumi. Við Íslendingar erum því miður samsek öðrum "viljugum" þjóðum um að hafa valdið þessari miklu fjölgun flóttamanna. Þess vegna snertir það vandamál okkur.

Flóttafólkið, sem nú kemur til Íslands, á það inni hjá Íslendingum að vera fært úr einhverri mestu hugsanlegu mannlegu eymd, sem þekkist í heiminum, hingað norður í faðm þjóðar, sem er ein hinna ríkustu í heiminum en gat samt ekki hugsað sér að hér yrði friðvænlegra því þá væri vá fyrir dyrum.  


mbl.is Á ferðalagi í sólarhring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: 365

Mér skilst að fólkið komi frá flóttamannabúðum sem eru búnar að vera starfræktar í áratugi!!

365, 9.9.2008 kl. 14:44

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ómar

Það var náttúrulega hrapalegt að skrifa undir lista hinna viljugu þjóða til að hjálpa USA við að sniðganga Sameinuðu Þjóðarinnar.  Það lýsir einnig skammsýni, ósjálfstæði og hrossakaupmennsku að skrifa undir slíkt til að framlengja veru hers hér.  Undir slíkt get ég tekið.

Hins vegar get ég ekki tekið undir þá skoðun þína að flóttafólk frá Írak eigi það inni hjá okkur að vera boðið að búa hér vegna undirskriftar íslenskra stjórnvalda.  Þrátt fyrir þess jámennsku þeirra Halldórs og Davíðs, þá berum við ekki ábyrgð á Íraksstríðinu á þann máta að við ættum að finna okkur knúin til að bæta fyrir tjón þar.  Við höfum aðrar ástæður fyrir því að sýna mannúð og þær eru nægilegar. 

Svanur Sigurbjörnsson, 9.9.2008 kl. 14:59

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Vera má að stríð hafi verið hafið í Írak án þess að eyðileggingarvopn Saddams væru ekki þar sem þau voru sögð vera. En eyðilegging Saddams á Írösku þjóðinni og þjóðarbrotunum sem þar búa líka var ekki lengur þoluð. Vildi þú kannski sjá áframhald á þeirri ógnarstjórn og þjóðarmorðum, Ómar Ragnarsson?

Það er engin tilviljun að Palestínumenn búa í tjöldum í eyðimörkinni í Írak. Þeir, sem lítill minnihluti í Írak voru helstu bandamenn Saddams. Þeir börðust fyrir hann og dóu. Þeir tóku þátt í hernaði gegn minnihlutum í Írak sem Saddam vildi koma fyrir kattarnef. Þeir tóku þátt í innrásinni í Kúvæt og þeir Palestínumenn, sem þar bjuggu, snerust líka gegn herrum landsins. Palestínumenn í Írak hafa verið framarlega í stríðinu gegn herjum Vesturvelda sem steyptu Saddam af stóli.

Ekkjur þeirra og börn sátu líka í tjaldi í eyðimörkinni vegna þess að enginn önnur lönd umhverfis Írak vill fá fólkið. Mundu að t.d. Jórdanir hafa myrt flesta Palestínumenn.

Fjölskyldurnar sem koma til Íslands sl. nótt eru ekki hluti í einhverjum reikningsskilum út af Írakstríðinu. Vonandi er hægt að hjálpa þessu fólki.  En af yfirlýsingum Rauða Krossins og annarra yfirvalda á Íslandi, sýnist mér að þekking á Palestínuflóttafólki sé afar takmarkaður. Þeir eru fyrirferðameiri en aðrir flóttamenn, telja sig hafa orðið fyrir meira órétti en allar aðrar þjóðir og á Norðurlöndum er því miður sú reynsla að glæpatíðni meðal Palestínuaraba er hærri en meðal annarra flóttamanna.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.9.2008 kl. 18:00

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er auðvitað hægt að komast hjá því að flytja flóttamenn inn á þeim billegu forsendum að þeir séu ekki "réttu" flóttamennirnir og að við séum svo lítil þjóð að þáttaka okkar í innrásinni í Írak hafi ekki skipt máli. Fram hjá tveimur staðreyndum verður þó ekki komist: Með tilkomu stríðsins fylgdi gríðarlegur flóttamannastraumur og bletturinn af því að hafa verið innrásaraðili verður aldrei máður út, - á margumtöluðum lista tók nafn Íslands meira pláss en nafn USA.

Ómar Ragnarsson, 9.9.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband