Hvorir höfðu rétt fyrir sér?

Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" færði ég rök fyrir því að forsendur vatns- og orkuöflunar Kárahnjúkavirkjunar væru rangar, - reiknað væri með allt of litlu rennsli. Stíflurnar við Hálslón þyrftu ekki að vera svona háar og með því að hafa lónið svona hátt væri sökkt að óþörfu landi, sem væri tiltölulega flatt og byði upp á mun verri uppfoksvandamál en ef lónið væri lægra.

Ásta Þorleifsdóttir bar fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að borgin beitti sér fyrir lægri hámarkshlónhæð í ljósi þess að augljóslega væri skakkt reiknað. Með þvi væri hægt að þyrma stóru svæði og minnka uppfoksvandanna. Tillagan féll í grýttan jarðveg, - sérfræðingaskari Landsvirkjunar hlaut að hafa rétt fyrir sér. 

Í frétt Sjónvarpsins í kvöld viðurkennir Sigurður Arnalds hins vegar að skakkt hafi verið áætlað, enda ekki annað hægt því skekkjan blasir við. Aðeins þurfti að lækka lónhæð Hálslóns síðastliðinn vetur um 25 metra, en reiknað var með að lækka þyrfti um allt að 40-50 metra. Samt kom ekkert vatn úr Jökulsá í Fljótsdal og ánum í Hraunaveitu, því að þær virkjanir voru enn í byggingu. 

Jökulsá á Dal og Kringilsá önnuðu orkuþörfinni fullkomlega einar.  

Skekkjan virðist svo stór að hugsanlega hefði verið hægt að sleppa því alveg að virkja Jökulsá í Fljótsdal eða að minnsta kosti að sleppa virkjun á Hraununum.

Því miður gagnast þetta mikla vatnsmagn ekki. Það er hvorki hægt að víkka göngin né fjölga hverflunum. Nú, þegar ekki verður aftur snúið með umhverfisskemmdir Hálsóns eða raskið af völdum Hraunaveitu, hefði verið gott að geta bætt við ca 150 megavatta orku og sleppa í staðinn sem því svarar að fara út í stórfelld umhverfisspjöll á Norðurlandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta vissu flestir sem þekkja þessar ár og vatnasvæði þeirra. Það hefur alltaf verið talað um það á Héraði að menn eigi aldrei að vanmeta Jöklu.

Sveinbjörn Jóhannsson (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 08:37

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það er lítill vandi að nýta þetta vatn, ef vilji er fyrir hendi, með að virkja yfirfallið.  Þó sýnist manni enn gáfulegra að nýta það vatn sem kemur frá Hálslóni með nýrri aflstöð talsvert fyrir innan við hina, vegna þess að það eru tvenn göng til byggða, nægjanlegt vatn (hugsanlega) og flutningsgetan fyrir hendi. 

Hægt væri að finna heppilegan stað fyrir aflvélarnar í nágrenne þess staðar, sem göngin frá Ufsastíflu mætir göngununum frá Kárahnjúkum.  Fallhæðin yrði ögn minni, en í Fljótsdalsstöð, en mikið afl samt sem kæmi frá öðru hvoru uppistöðulóninu til að knýja nýtt raforkuver á þessu umfram vatni. 

Þá kæmi til greina að nýta það ódýra afl í tölvugeiranum t.d. fyrir gagnaver eða annað gáfulegt sem mönnum dytti í hug og ný tækifæri sköpuðust, t.d. "eitthvað annað" sem allir landsmenn bíða spenntir eftir að verði farið í.

Benedikt V. Warén, 12.9.2008 kl. 10:03

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ómar skrifar:

"Skekkjan virðist svo stór að hugsanlega hefði verið hægt að sleppa því alveg að virkja Jökulsá í Fljótsdal eða að minnsta kosti að sleppa virkjun á Hraununum."

Nú um stundir er Lagarfljótið dökkbrúnt að sjá og RÚV-aust sá sér leik á borði og fjallaði um þessi mál.  Á fréttinni mátti skilja að svo yrði til frambúðar, en ekki einungis að þeim tímapunkti að Jökulsá í Fljótsdal tæki yfir og léki þar eftir stærsta hlutverkið í orkuöfluninni, með Jökulsá á Brú til vara.

Hugsanlega hefði verið nægjanlegt að virkja Eyjabakkana og þá hefði Lagarfljótið fengið á sig annan og ljósari blæ, - meira skyggni og meira líf í það.  Það gerðist a.m.k. þegar Blanda var virkjuð og því rökrétt að álykta að það sama gæti gerst hér við Eyjabakkalón.  Mikill hluti af leirnum í Blöndu botnféll, við það eitt að uppistöðulón voru mynduð á Evindarstaðaheiðinni og varð við það hreinni.  Það sjá allir.

Þökk sé náttúruverndarsamtökum og öðrum sjálfskipuðum náttúruunnendum, þá fengum við Austfirðingar litlu sem eingu ráðið um hvernig best væri að gera hlutina og íllu heilli var lítið hlustað á heimamenn, sem þekktu þetta svæði þó best.  Því fór sem fór. 

Þegar Jökulsá í Fljótsdal fer að skila vatni í gegnum vélarnar, lýsist Fljótið aftur og því er í meira lagi undarlegt að fjasa nú um það að gera það ekki. 

Benedikt V. Warén, 12.9.2008 kl. 13:57

4 identicon

Ómar, af hverju ræðurðu þig ekki sem sérfræðing hjá Orkustofnun ? Ég meina fyrst þú þekkir málin betur en vatnafræðileg gögn sýna.  Hvernig reikna menn framtíðarvatnsbúskap á hálendinu ? Hmm, ég hef reiknað ýmislegt um ævina en aldrei það.  Málið er einmitt það að til að meta framtíðarrennsli í ám, þarf að spá í veðurfar. Hvernig reikna menn rennslið þá ca. 100 ár fram í tímann ? Og hvað ef það koma vatnsár með litla úrkomu ? Keyra þá bara virkjunina á 30% afköstum, ekkert mál. Hvað myndum við notendurnir segja ef Lv segði nú að þennan mánuðinn væri ekkert rafmagn því svo lítið væri í lóninum ? 

Þetta eru sem sagt áætlanir byggðar á rennslisgögnum í ám. Hafi eitthvað verið vanmetið, t.d. vegna hlýnunar og bráðnunar jökla, þá væri ráð á að bæta við einhverjum túrbínum. En það geta alltaf komið kuldaskeið eða þurrviðristímabil til lengri og skemmri tíma.

Gísli (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 13:59

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Gaman þegar að menn eru að kenna fólki sem var á móti virkjunum um hvernig var virkjað. Það var ekki eins og náttúruverndarsinnar væru að virkja þarna.

Held að menn verði nú að bíða og sjá hvort að Lagarfljót breytir um lit.

En aðalatriðið er það sem Ómar fjallar um en það er að fljótfærin og vankunnátta manna hjá Landsvirkjun er nú að koma í ljós. Þeir vanmátu vatnsrennslið í Hálsalón um nærri heilt fljót. Held að ríkð verði að krefjast betri gagna í framtíðinni sem og að ráða fólk sem getur farið yfir þessi göng af einhverju viti.

Það er náttúrulega ófært að þarna eru menn að eyðileggja mun meira af náttúru  en þurfti.

Magnús Helgi Björgvinsson, 12.9.2008 kl. 15:22

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Held að menn ættu að skoða söguna og fletta upp þegar náttúruverndasinnar þóttust hafa farið með sigur af hólmi í virkjanamálinu með því að koma í veg fyrir "náttúruspjöllin" við Eyjabakkana.

Það er heldur ekki hægt að draga ályktun af fyrsta ári reksturs, það gætu komið mörg önnur "þurr" ár þar sem reksturinn verði ekki alveg tryggur.  En tímin einn sker úr um það.

Benedikt V. Warén, 12.9.2008 kl. 15:50

7 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ætli stöðin sé ekki búin að vera í fullum rekstri í um það bil 9 mánuði og þó að lónið hafi fyllst um 20 ágúst í ár eru litlar líkur á að svo verði alltaf og reyndar mjög ólíklegt.
Það er því ekki hægt að fullyrða á þessari stundu um að vitlaust hafi verið reiknað.......

Stefán Stefánsson, 12.9.2008 kl. 18:44

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég segir hvergi að útreikningarnir hafi verið rangir í sjálfu sér, en ég hefði átt að taka það fram, sem ég sagði í Kárahnjúkabókinni að skekkjan stafar af röngum forsendum.

Menn gengu út frá rennsli sem mælt var á tiltölulega köldum árum, en gríðarlegur munur er á rennsli svona jökulfljóta þegar hitastig breytist.

Upplýsingarnar um það að ekki yrði hægt að auka afl virkjunarinnar hef ég frá Sigurði Arnalds, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, sem er þaulreyndur virkjanaverkfræðingur.

Virkjun yfirfallsins gagnast ekki álverum, því að þau þurfa jafna orku allt árið. Eins og blasir nú við miðast öll hugsun um um virkjanir hér á landi við álver.

Ég vil benda Stefáni á að vatnsborð lónsins fór hvergi nærri eins mikið niður og reiknað var með og samt fylltist lónið svo snemma, að runnið getur á yfirfallinu í einn til tvo mánuði.

Ómar Ragnarsson, 13.9.2008 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband