Malaraustur að hætti hússins.

Á leið minni frá Egilsstöðum áleiðis vestur í Arnarfjörð hafa verið nokkrir kaflar á vegunum, þar sem nýbúið er að leggja á olíumöl, og laus möl er enn á yfirborðinu. Þar eru skilti sem tilgreina 50 km hámarkshraða en það virðist illmögulegt fyrir íslenska bílstjóra að fara eftir þeim.

Á móti mér kom fjöldi bíla og miklu meiri hraða og jusu yfir mig möl svo að ég bjóst við því á hverri stundu að framrúðan brotnaði. Fljótlega neyddist ég til að grípa til þeirrar sjálfsvarnar að aka á miðjum vegi beint á móti bílunum, sem komu á móti, blikka ljósum í ákafa og víkja ekki fyrr en í fulla hnefana.  

Þetta hafði ekki minnstu áhrif. Malaraustursökumennirnir blikkuðu bara ljósum á móti og flautuðu og jusu mölinni sem aldrei fyrr.

Það fyndnasta við þetta fyrirbrigði er að þessir sömu ökumenn munu fyrr eða síðar lenda í mínum sporum og bölva þá "hinum vitleysingunum" í sand og ösku.

Í flestum tilfellum tefjast menn aðeins um brot úr mínútu eða í mesta lagi um 1-2 mínútur við að mæta bílum á 50km hraða í stað yfir 100 km hraða eins og svo margir aka á. Til samanburðar tekur venjulegt stopp á bensínstöð með kaupum á einni pylsu minnst 20 mínútur.

Fyrir nokkrum árum kom bíll aftan að mér á ógnarhraða á svona olíumalarkafla og ætlaði að bruna fram úr mér. Ég neyddist þá til að setja á blikkljós og halda mig þannig á miðjum vegi að hann kæmist ekki fram úr.

Við þetta trylltist hann gersamlega og þegar hann að lokum þrengdi sér fram úr og jós yfir mig mölinni henti félagi bílstjórans flösku út um gluggann en hitti minn bíl sem betur fór ekki.

Þetta var í Norðurárdal og þegar komið var að Hvalfjarðargöngum var þessi bíll næsti bíll á undan mér. Hann kom síðan til Reykjavíkur 10 sekúndum á undan mér!

Fyrir nokkrum árum var malarkafli á Grímsnesvegi þar sem ríkti hreint hernaðarástand vegna malaraustur hraðakstursmanna. Einn þeirra ók á ógnarhraða framúr langri röð bíla og skemmdi hvern einasta. Ég þurfti að fara þennan kafla nokkrum sinnum og sá aldrei lögreglubíl, einmitt þar sem slíkrar gæslu var mest þörf.

Hef reyndar aldrei séð lögreglubíl nálægt svona malarkafla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já Ómar, þegar sumir menn setjast bak við stýrið þá breytast þeir í óargadýr. Ég vildi sjá fleiri lögreglubílar á þjóðvegunum og vel smurðar reikningar til þeirra sem skemma eign annarra.

Úrsúla Jünemann, 13.9.2008 kl. 12:19

2 identicon

Það mætti klára að malbika hringveiginn áður en það er farið í einhverja útúrdúra

Res (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 14:06

3 identicon

Já það eru margir ökumenn hérna á Fróni sem keyra eins og þeir séu einir í heiminum. Í dag keyrði einn fram úr mér á Sæbrautinni á gatnamótunum rétt við sólfar þar sem ég beið  á rauðu ljósi. Við vorum tveir stopp, svo hann valdi beygjuakreinina og hélt beint áfram. Á næstu gatnamótum, þar sem beygt er að tónlistarhöllinni voru þrír bílar stopp svo hann beygði að tónlistarhöllinni og tók U-beygju og hélt þannig áfram. Við gatnamót Lækjargötu var hann horfinn. Ég held að hann hljóti að hafa farið þar yfir á rauðu ljósi líka. Mér finnst eins og virðing fyrir lögum og eigum annarra fari þverrandi.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband