Blindingsleikur að hætti hússins.

Hver kannast ekki við eftirfarandi, sem kom upp á í myrkri á leið minni til Reykjavíkur í gærkvöldi: Á einum ágætum vegarkafla kom bíll aftan að mér og ók lengi með háu ljósin rétt aftan við mig þannig að ég varð að halla mér fram til að fá ekki ofbirtu í augun af skærum glampanum í speglunum. Ökuhraðinn var 90km/klst.

Ég íhugaði að skekkja alla speglana til að losna við ofbirtuna en það er í raun á skjön við eðlilegar akstursreglur að taka lögboðin tæki á borð við spegla úr sambandi svo að ég hætti við það.  Að lokum brá ég á það ráð að víkja út í kant og hægja nógu mikið á mér til að bíllinn fyrir aftan færi fram úr mér.

Þá brá svo við að hann fór að aka mun hægar en áður og aldrei sá ég hann lækka ljósin þegar hann mætti bílum en hélt áfram að valda hverjum vegfaranda sem á vegi hans varð vandræðum með þessum blindingsleik sínum. 

Svo virðist sem fjöldi ökumanna viti ekki eða vilji ekki vita að með því að aka með há ökuljós rétt á eftir bílum fyrir framan þá, blinda þeir ökumanninn sem á undan ekur, og einnig þá sem koma á móti. Óþarfi er að aka með há ljós þegar bíllinn á undan er með há ljós því að hann lýsir upp veginn framundan fyrir báða bílana og hái geislinn á aftari bílnum fer inn á upplýsta sviðið frá fremri bílnum.

Eins og í malaraustrinum, sem fjallað er um í pistlinum hér á undan, er þetta háttalag skondið þegar þess er gætt að þessir sömu blindingsleiksökumenn lenda um síðir í sömu aðstæðum og þeir sem verða fyrir barðinu á þeim og blóta þá örugglega "hinum vitleysingunum" í sand og ösku.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband