16.9.2008 | 22:16
Góðar fréttir af Eimskipum.
Fréttirnar af væntanlegum strandsiglingum Eimskipa milli Reykjavíkur og Ísafjarðar eru góðar, einkum vegna þess að tölurnar sem ég hef heyrt um það hvernig hinir þungu flutningabílar fara með vegakerfið eru ótrúlega háar. Gott væri ef þetta dæmi yrði reiknað alveg til enda svo að hægt sé að átta sig á því hvort stuðningur við siglingarnar borgaði sig þjóðhagslega.
Auðvitað hafa flutningabílarnir þann kost fram fyrir siglingarnar að geta tæknilega ekið frá dyrum til dyra og vera fljótir í förum, en í mörgum tilfellum liggur ekki svo mikið á að það þurfi endilega að fara landleiðina.
Og sumir stórir og þungir hlutir henta betur fyrir strandsiglingarnar en bílana.
Athugasemdir
Ég er búinn að marg benda á þetta í bloggum Ómar og þetta er engin spurning um þjóðhagslega hagkvæmni. Við þurfum ekki allar vörur daglega til okkar,. Megnið af því sem flutt er þolir einhverja daga í flutningum, samanber það að megnið af vörum er flutt með skipum tillandsins og það er ekki gert á einum degi. Svo má alveg hugsa sér að flutningaskipin sem koma frá Evrópu komi fyrst upp að Austurlandi með varning þangað, fari síðan norður um til Akureyrar, þaðan til Ísafjarðar og suður um. Það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum, aðeins spurning um skipulag og fyrirhyggju með þjóðarhag í huga.
Haraldur Bjarnason, 16.9.2008 kl. 23:11
Innflutningurinn frá Evrópu á að koma upp á Reyðarfirði, en frá Ameríku í Reykjavík. Þannig næðist hámarksnýting í flutningakerfinu og strandsiglingar færu að borga sig.
Vandamálið er að brjóta niður hagsmunagæslukerfið í Reykjavík, sem fattar ekki að það er hægt að sigla inn á aðrar hafnir en Reykjavík og fljúga inn á aðra flugvelli en Keflavík.
Þessir bírókratar eru þjóðhagslega óhagkvæmir, enda hugsunin ein hjá þeim, að Reykjavíkurborg sitji ein að krásunum. Hjá sumum þeirra er Ártúnsbrekkan endamörk alheimsins.
Benedikt V. Warén, 16.9.2008 kl. 23:46
Í Morgunblaðinu í dag er áhugaverð pæling um hliðstæð málefni og mælt gegn ívilnunum. Í mínum huga snýst þetta ekki um einfaldasta yfirborðið á ívilnunum, heldur tillit til heildarhagsmuna og jafræðis á milli futningsmöguleika.
Í stað þess að fara út í stórfelldar niðurgreiðslur á flutningskostnaði skipa má líka athuga hvort í raun sé ekki um að ræða stórfelldar niðurgreiðslur til landflutninganna þar sem ekki er höfð í heiðri reglan um það að sá sem notar, þjóðvegina í þessu tilfelli, borgi fyrir það í réttu hlutfalli við kostnaðinn sem notin valda.
Ómar Ragnarsson, 17.9.2008 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.