Toyota IQ, mesta smábílabyltingin eftir Mini.

Í 55 ár hef ég sökkt mér niður í hönnun smábíla. Að mínum dómi var Mini bíll aldarinnar því að hann gerbreytti hugsuninni á bak við einkabílinn, var fyrst bíllinn með þverstæðri vatnskældri fjórgengisvél frammi og framdrif. Yfir 80% allra bíla heims eru nú hannaðir sem eftirlíking af þessu.

Hjólin voru úti í hornunum og aðeins fremstu 60 sm bílsins fóru í vél og drif en rúmlega 180 cm þar fyrir aftan í farþegarýmið og aftast voru farangur, varadekk og bensíngeymir. Bíllinn var 30-50 sm styttri en bílar með sambærilegt rými og akstureiginleikarnir aldeilis frábærir.

Á síðari árum hefur þessi hönnun á bílum fjarlægst þá upphaflegu æ meir hvað það snertir að vegna öryggiskrafna hefur fremsti hlutinn vaxið upp í það að taka minnst 75 sm og allt upp í vel á annan metra.

En af nýjustu gögnum um byltingarkenndan bíl frá Tyota sé ég að þeim hefur tekist að hanna bíl sem er styttri en Mini, undir 3 metrum (Mini var 3,05) og vélin og drifið taka aðeins 50sm fremst í bílnum.

Rými fyrir þrjá farþega er miklu meira en í Mini en fjórða sætið einkum ætlað smávaxnari farþegum eða börnum. Beygjuhringur bílsins er aðeins 8m í þvermál, sá langminnsti í flotanum.

Ég er yfir mig hrifinn af þessum bíl. Hann tekur fjóra í sæti þótt hann sé aðeins 30 sm lengri en Smart sem tekur aðeins tvo í sæti. Toyota virðist hafa getað leyst vandamálið með öryggið og níu loftpúðar eru í bílnum.

Ég var að koma af ráðstefnu þar sem fjallað var um umferð, loftgæði og mengun og rökstuddi þar hve gríðarlegur sparnaður og hagkvæmni fylgdi því ef bílaflotiinn gæti styst um einn metra hver bíll.

Þá myndi til dæmis á Miklubrautinni einni losna 100 kílómetrar af malbiki á hverjum degi, sem annars væru þaktir bílum. Ef annar hver borgarbíll verður af svipaðri stærð og Toyota IQ næst gríðarlegur árangur.

Eins og er er þeim sem nota langa bíla umbunað að því leyti að þeir borga ekki krónu fyrir það aukamalbik og rými sem þeir nota umfram aðra. Þarna þarf að taka upp kerfið að sá borgi sem noti þannig að þeim sé umbunað sem nota stutta bíla.

Það myndi leysa umferðarhnúta og spara mannvirki. Lausnin gæti falist í lengdargjaldi sem tekið yrði upp en önnur útgjöld bílaeigenda minnkuð í staðinn. Japanir hafa haft hliðstætt kerfi í áratugi og nú er þeim bílum umbunað í Japan sem eru styttri en 3,40 m og mjórri en 1,48.

Þetta hefur svínvirkað þar í landi og við getum tekið upp enn betra kerfi ef við viljum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að Alac Issigonis taldi, þrátt fyrir snilldarhugmynd sína og hönnun, að hægt væri að gera enn betur, nota enn minna rými fyrir vél og drif og auka bæði farþegarými og farangursrými. Þar lá beinast við að setja bensíngeyminn undir aftursætið eins og nú tíðkast hjá flestum, en raunar hefur Honda gert enn betur með Jazz-bílnum með því að hafa geyminn í þeim bíl undir framsætinu, sem er besti staðurinn að öllu leyti, sá öruggasti og sá sem gefur bestu þyngdardreifingu auk nýtingar rýmis. 

En Sir Alfec var svo óheppinn að vegna rangra kostnaðaráætlana var tap á framleiðslu Mini alla tíð, þótt 5,5 milljónir væru framleiddar. Því fleiri bílar sem voru framleiddir, því meira varð tapið! Það var því enginn peningur til að breyta til, því miður.

Sjálfur hef ég dundað við það í meira en hálfa öld að teikna bíla sem taka öðrum fram að nýtni, sparneytni og lipurð.

Í sumum tilfellum, eins og í teikningu að tveggja manna bíl, sem er aðeins 2,50 x 1,10 m hef ég gert ráð fyrir því að bílstjórinn færi sig fram þegar farþeginn kemur fyrir aftan hann, en mjódd bílsins og öryggi í hliðarárekstrum byggist á því að mennirnir tveir sitji svipað og á vélhjóli.

Við það að bílstjórinn færir sig fram ásamt stýri og pedölum minnkar öryggi hans aðeins við árekstur en á móti kemur að það er svo sárasjaldan sem hann hefur farþega með sér.

IQ verður fyrsti bíllinn í fjöldaframleiðslu  þar sem á svipaðan hátt er gert ráð fyrir verulega árangursríkri færslu framsætis til rýmisaukningar, í þessu tilfelli sæti framsætisfarþegans, - þetta er svo miklu meiri færsla en á venjulegu framsæti og mikil grundavallarhugsun í lausn rýmisvandans.

Farþegarými IQ hægra megin sýnist mér vera 2ja metra langt, næstum 20 sm lengra en var í Mini. 

IQ er að mínum dómi ekki nafn sem er út í hött. Greindarvísitala hönnuða segir þeim að í stað þess að allir í bílnum fái sama rými og öryggi geti verið hægt hafa ávinning af því að forgangsraða þessu eftir því í hvaða sætum er oftast setið.

Bílstjórinn, sem í 90% tilfella er einn í bílnum, fær því mest rými og öryggi, enda hvort eð er erfitt að færa hann mikið til vegna stjórntækjanna. Næstmesta rými og öryggi fær farþegi í framsæti, sem færir sig verulega fram ef einhver situr fyrir aftan hann.

Sá sem situr fyrir aftan framsætisfarþegann, - en það er sárasjaldan sem nokkur situr þar, - fær meira rými en fjórði maðurinn um borð, sem situr fyrir aftan bílstjórann. Sá farþegi hefur minnst rými, enda ennþá sjaldgæfara að nokkur sitji þar. 

Samt er séð fyrir því að notagildið hafi nógan sveigjanleika til að gera þetta að fjögurra manna bíl ef á því þarf að halda. Það þýðir að bílstjóri í Toyota IQ getur tekið með sér 200% fleiri farþega en bílstjóri í Smart.

Niðurstaðan er annar af tveimur fjöldaframleiddum bílum í heiminum sem er styttri en 3 metrar en hefur það fram yfir keppinaut sinn að taka tvöfalt fleiri í sæti.

Helsta ástæða þess að Smart hefur ekki náð vinsældum hér á landi er að hann tekur aðeins tvo í sæti. Hann er með vélina afturí og er því afar næmur fyrir hliðarvindi.

Upphaflega átti hann að vera aðeins 1,45 m á breidd en reyndist vera valtur. Til þess að laga það voru hjólin færð utar og fjöðrunin stytt, en það kemur niður á þægindum fjöðrunarinnar.

Ofan á allt varð að setja skrikvörn sem staðalbúnað í hann og eftir allt þetta var hann orðinn of dýr miðað við rými.  

IQ er álíka breiður og mun stærri bílar og þess vegna er siglt fram hjá veltivandræðunum, - með vélina og drifið frammi í öðlast hann stöðugleika og ónæmi fyrir hiðarvindi og þeir sem sitja í bílnum hafa á tilfinningunni að vera í miklu stærri bíl, -  hátt til lofts og nóg rými fyrir olnboga á báða vegu.  

Ómar Ragnarsson, 19.9.2008 kl. 00:53

2 Smámynd: Beturvitringur

Allt í einu datt mér í hug að syndga uppá náðina. Þetta er sem sagt ekki athugasemd við færsluna. Hvar reyni ég að kaupa rafbíl?  Eru þeir ekki allir nýir sem hugsanlega væru falir? (stutt síðan komu inná markað)

Bíllinn minn er að verða 17 ára (fær bílpróf næsta vor) og nú á að gerast djarfur. Ég er 99% ein í bílnum.

Tek því ekki illa þótt þú hafir ekki tíma eða tækifæri til að svara :)

Beturvitringur, 19.9.2008 kl. 01:14

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á fundinum í Iðnó í kvöld var rætt um rafbíla og það, að stutt væri í að nýir slíkir kæmu til landsins, betri en þeir sem hafa verið á markaði.

Ég hitti gamlan bílakarl, vin minn í fyrradag, og hann er að byrja að flytja inn 5 manna kínverska rafbíla. 

Þú átt ekki að þurfa að bíða lengi. Það er allt á fullri ferð í þessum efnum.  

Ómar Ragnarsson, 19.9.2008 kl. 01:22

4 Smámynd: Beturvitringur

Held sönsum og bíð. Takk

Beturvitringur, 19.9.2008 kl. 04:07

5 Smámynd: Gulli litli

Afar fróðlegt og skemmtilegt..

Gulli litli, 19.9.2008 kl. 11:22

6 identicon

Eru rafbílar raunverulega vistvænni en aðrir bílar, þegar dæmið er reiknað til enda?  Þá hef ég í huga t.d. framleiðslu og förgun á rafgeymum.

Þú hlýtur að hafa reiknað þetta, Ómar!

Hörður (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 13:10

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, ég hef ekki aðstöðu til að reikna það, enda skiptir það ekki höfuðmáli heldur hitt að jarðefnaeldsneytið er takmörkuð auðlind og eitthvað verður að koma í staðinn.

Ómar Ragnarsson, 19.9.2008 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband