Tvær góðar greinar.

Tvær góðar greinar eru meðal þeirra sem birtast í blöðunum í dag og ég held að sé ástæða til að lesa. Það er annars vegar leiðari Magnúsar Halldórssonar í 24 stundum um það hvernig er fótum troðinn sjálfsagður og nauðsynlegur réttur kjósenda og fulltrúa þeirra til að hafa í höndum nauðsynlegar upplýsingar um orkuverð.

Við þetta vil ég bæta því hvernig sovésk stýring hefur verið á fyrirkomulagi virkjana og stóriðju sem birtist í Kárahnjúkavirkjun. Allt framangreint er í raun í hrópandi ósamræmi við þá stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið sig vera málsvara fyrir. 

Og þá kem ég að annarri grein, í Fréttablaðinu, eftir HannesiHólmsteiniGissurarson, einn ötulasta málsvara frjálshyggju hér á landi. Hannes hefur stundum verið sakaður um þjónkun við bandaríska hægri stefnu en í grein hans um rétt smáþjóða er til dæmis ekki annað að sjá en að Hannes telji Osseta og Abkasa eiga rétt á fullu sjálfstæði, gagnstætt vilja Georgíustjórnar, sem er ákaft studd af Bandaríkjastjórn.

Greinin er bæði fróðleg og málefnaleg og það var Wilson Bandaríkjaforseti sem var einn helsti boðberi réttar þjóða og þjóðabrota til að ráða málefnum sínum og setti hana fram sem lið af fjórtán punktum sínum í aðdraganda Versalasamninganna 1919.

Við greinina má kannski bæta að þetta mál er ekki alltaf eins auðleyst og ætla mætti vegna þess að þegar þjóðarbroti er leyft að stofna sjálfstætt ríki verður oft til minnihluti í því ríki sem áður var hluti af meirihluti ríksins, sem er skipt.

Dæmi: Mótmælendur voru í minnihluta á óskiptu Írlandi og kaþólskir voru meirihluti. Þegar landinu var skipt í Írland og Norður-Írland, urðu kaþólskir hins vegar í minnihluta á Norður-Írlandi og mótmælendur í meirihluta.

Þegar Tékkóslóvakía var stofnuð réði miklu vilji Tékka til sjálfstæðis. Af hernaðarlegum ástæðum, sem Frökkum var annt um, voru landamærin negld niður þannig að þýskumælandi minnihluti bjó í Súdetahéruðunum og það gaf Hitler ástæðu til að sölsa þau undir sig og í framhaldi af því alla Tékkóslóvakíu.

Sum af þjóðernisminnihlutavandamálum Evrópu voru leyst á afar grimmilegan hátt í lok seinni heimssthyrjaldarinnar þegar minnihlutarnir voru einfaldlega þvingaðir til að fara úr landi.

Síðan hefur ríkt friður um Súdetahéruðin, Danzig og þess hluta Rússlands (Kaliningrad), sem áður var Austur-Prússland. Til þess að ná þessu fram fluttu fjórtán milljónir manna frá heimkynnum, þar sem forfeðurnir höfðu í flestum tilfellum búið um margra alda skeið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband