19.9.2008 | 12:55
Áfram með smjörið!
Þegar ekið er frá Osló þjóðleiðina í átt til Gautaborgar og Evrópu er á kafla aðeins um eina akrein að velja fyrir einkabíla, - hin akreinin er tekin frá fyrir almenningsvagna. Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um þá áherslu sem lögð er víða erlendis á almenningssamgöngur.
Á málfundi um loftgæði í Reykjavík í Iðnó í gærkvöldi benti ég á með því að nota stórt kort af höfuðborgarsvæðinu að enn virtust menn ekki hafa áttað sig á því að miðja höfuðborgarsvæðisins stefndi hratt í það að vera nálægt krossgötum svæðisins, sem liggja við Elliðaárdal. Þarna liggja langstærstu krossgötur landsins og þar verður þungamiðjan óhjákvæmilega.
Óviðunandi ástand almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu held ég að megi meðal annars rekja til þess að ekki hefur verið tekið tillit til þessa né sett upp umferðarmódel til að finna út hvernig samgöngukerfið geti sem best þjónað sínu hlutverki í samræmi við þau lögmál, sem verði að hlíta.
Sömuleiðis verður að reikna dæmið í heild, hversu mikið núverandi ástand kostar þjóðfélagið, hve mikið stórátak í almenningssamgöngum myndi spara þjóðinni og hvað slíkt stórátak myndi kosta.
Mig grunar að slíkt átak myndi kosta miklu minna en sem svarar þeim sparnaði sem fengist þjóðhagslega og að þess vegna sé réttlætanlegt að halda áfram á þeirri braut sem var opnuð á Miklubraut í dag.
Gamli og nýi strætó á rauðum dregli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta með miðjuna er alveg rétt. Heiðar Hallgrímsson yfirverkfræðingur á Landupplýsingadeild Reykjavíkur hefur reiknað miðju höfuðborgarsvæðisins og miðju Reykjavíkur út frá búsetu. Það er ekki langt á milli þessara punkta, og gaman væri að sjá hvar miðja landsins liggur. Grunar mig að hún sé ekki langt frá þessum punktum tveim. Það er enn allt of ríkjandi hugsunarháttur að þungamiðja borarinnar liggi einhverstaðar í nágrenni við miðbæinn. Sú hugsun virðist t.d. hafa ráðið þegar nýju sjúkrahúsi var valinn staður langt vestan við miðjuna.
Skúli Víkingsson (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 13:44
Engin ástæða til að hafa áhyggjur af loftmengun á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni, því nú styttist óðum í að rafmagnsbílarnir taki við. Hins vegar greiða einstaklingar og fyrirtæki nú nokkra milljarða króna á ári í skatt af bensíni og olíu, sem ríkið notar hér til vegagerðar.
Lýsi væri hægt að nota á fiskiskipin okkar, í stað olíu, og íslenskt lýsi lýsti upp borgir Evrópu hér áður fyrr.
Enginn flugvöllur verður í Reykjavík í framtíðinni, enda engin ástæða til að vera með flugvöll í miðbæ Reykjavíkur, frekar en miðbæjum Ísafjarðar og Akureyrar. Innanlands-, Færeyja- og Grænlandsflugið verður flutt til Keflavíkurflugvallar.
Nú tekur ekki nema 20 mínútur að aka þaðan til Hafnarfjarðar á löglegum hraða, svipaðan tíma og það tekur að aka frá Seltjarnarnesi og upp í Breiðholt. Langt frá því allir eiga erindi í gamla miðbæinn í Reykjavík, sem nú fljúga þangað, og allt sjúkraflug að nýja Landsspítalanum verður með þyrlum í framtíðinni.
Þorsteinn Briem, 19.9.2008 kl. 17:47
Ertu að meina E6 Ómar ?
Ég man ekki eftir neinni sérstakri almenningsvagnaleið á honum .. hvar er þessi sérleið strætóa ? eða ertu að rugla saman við E 18 sem er í gegnum Oslo og hefur bus og Taxi braut hægra megin í gegnum alla borgina.. ?
Óskar Þorkelsson, 20.9.2008 kl. 13:51
Æ, ég hef ekki litið á kort af Osló. Þessi leið er upphaf leiðarinnar frá miðborg Oslóar meðfram ströndinni í suðausturátt. Þarna er svo bratt að ef leiðin verður breikkuð þarf að sprengja gífurlega mikið og rífa hús.
"Allt þyrluflug að nýja Landsspítalanum verður með þyrlum í framtíðinni." Þetta er útilokað að mínum dómi. Það er þumalfingursregla að 4-5 sinnum dýrara að fljúga þyrlum en sömu stærð af flugvélumm.
Þyrlur geta ekki komist upp fyrir veður eða glímt við slæm veðurskilyrði á lengri leiðum í blindflugi og flugvélar. Þær eru ekki með jafnþrýstiklefum. Þær eru helmingi hægfleygari en flugvélar af svipaðri stærð.
Ómar Ragnarsson, 22.9.2008 kl. 00:33
Núverandi flugvöllur er ekki í miðbæ Reykjavíkur. Hann er 4 kílómetra frá núverandi þungamiðju höfuðborgarsvæðisins og fjarlægist hana áfram.
Flugvöllurinn tekur aðeins einn ferkílómetra af 16 km2 sem eru fyrir vestan Elliðaár. Miklabrautin tekur hálfan ferkílómetra. Sundahöfn jafnmikið og flugvöllurinn. Af hverju ekki að byggja íbúðahverfi í stað Sundahafnar og Miklubrautar?
Hugmyndir um að nýr flugvöllur á Selfossi verði varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll ganga ekki upp. Selfoss er á sama veðursvæði og Miðnesheiði, en Reykjavík er oft opin vegna skjóls af Reykjanessfjallgarðiinum þegar Keflavík er lokuð.
Maður sem fer fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur þarf að fara alls 160 kílómetrum lengri leið á landi og í lofti ef innanlandsflugið er í Keflavík en ef hann flýgur frá Reykjavík.
Akureyri, Egilsstaðir, Borgarnes, Akranes, Hveragerði, Selfoss, Keflavík, staðir sem halda velli, eigi eitt sameiginlegt: Þaðan er innan við klukkstund til Reykjavíkur. Þessa staði má skilgreina sem úthverfi af Reykjavík.
Með því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur eru tvö slík úthverfi skorin frá höfuðborgarsvæðinu.
Þetta kalla ég ekki samgöngubót og þar að auki er mikill meirihluti landsmanna andvígur flutningi vallarins.
Ómar Ragnarsson, 22.9.2008 kl. 00:43
Ómar. Gömlu miðbæirnir eru í mörgum tilfellum ekki lengur í miðju byggðarlaga og þeir sem fljúga til Reykjavíkur eiga ekki endilega erindi í gamla miðbæinn þar, eins og ég benti á hér að ofan.
Miklabrautin er verðmætt byggingarland og hún verður að öllum líkindum lögð í stokk, að minnsta kosti á milli Snorrabrautar og Kringlunnar.
Sífellt meira er byggt á milli Keflavíkurflugvallar og Hafnarfjarðar og fjöldi fólks fer þessa leið daglega, bæði á einkabílum og með rútum, til dæmis nemendur sem búa á gamla Varnarsvæðinu en stunda nám í Reykjavík. Geti þeir farið þessa leið daglega getur fólk, sem býr á landsbyggðinni, farið hana nokkrum sinnum á ári. Það tekur ekki bílinn með sér í flugið og rútur aka á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.
Flestir landsmanna, trúlega um 70%, búa á svæðinu frá Holtavörðuheiði að Vík í Mýrdal og þeir fljúga ekki til Reykjavíkur með almennu farþegaflugi eða sjúkraflugvélum. Þyrlur eru notaðar til sjúkraflugs á þessu svæði nú þegar, til dæmis þegar alvarleg umferðarslys verða á Holtavörðuheiði og Suðurlandsvegi við Hveragerði og Selfoss, eins og nýleg dæmi sanna.
Meira að segja áður en Hvalfjarðargöngin komu ók fólk sem bjó á Hvammstanga til Reykjavíkur fyrir hverja helgi til að kaupa í matinn. Í spurningaþættinum Útsvar í Sjónvarpinu á föstudaginn sögðust tveir Hvergerðinganna vinna í Reykjavík og fara daglega á milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Og fjöldi fólks býr á Akranesi en vinnur í Reykjavík og fer þar daglega á milli í strætisvagni.
Á Grænlandi eru þyrlur mikið notaðar, enda erfitt og dýrt að leggja flugvelli þar. Þyrlur hafa sótt slasað fólk upp á hálendið hér og þyrlum verður fjölgað hér á næstu árum.
Flugvellir eru langt frá því á öllum þéttbýlisstöðum og sveitum landsins. Til dæmis er enginn flugvöllur á Dalvík. Ef ég í myndi slasast alvarlega inni í Skíðadal í Dalvíkurbyggð og flytja ætti mig með sjúkraflugvél til Reykjavíkur þyrfti sjúkrabíll frá Dalvík að sækja mig í Skíðadalinn, 24 kílómetra leið, og á milli Dalvíkur og Akureyrar eru 44 kílómetrar.
Alls þyrfti því sjúkrabíllinn því að aka níutíu kílómetra áður en ég kæmist um borð í sjúkraflugvél á Akureyrarflugvelli. Mætti ég þá heldur biðja um þyrlu í Skíðadalinn og þar varð alvarlegt fjallgönguslys fyrir nokkrum árum.
Þar að auki eru fjórðungssjúkrahúsin á Akureyri, Ísafirði og Neskaupstað mun fullkomnari og stærri nú en þau voru fyrir þremur áratugum og þau verða væntanlega enn fullkomnari eftir áratug en þau eru nú.
Mun betra og ódýrara fyrir fólk, sem býr á landsbyggðinni og vill ná millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli, að fljúga beint þangað með innanlandsflugi en fljúga fyrst til Reykjavíkur og taka svo rútu að Keflavíkurflugvelli. Og svo til Reykjavíkur þegar það kemur aftur frá útlöndum.
Geti millilandaflugvélar ekki lent á Keflavíkurflugvelli geta þær lent á Akureyri, Egilsstöðum eða í Skotlandi en það kemur nú ekki oft fyrir að þess þurfi. Og millilandaflug hefur verið frá Akureyri og Egilsstöðum.
Þorsteinn Briem, 22.9.2008 kl. 12:38
Nokkuð ánægður með svarið þitt Steini :)
Þessi vegur sem þú talar um Ómar í Oslo er E18 meðfram Norrestrand.. tel ég. Þarna verða viðbjóðslegar traffik lokanir.. ég hef setið þarna í bíl í 4 klst vegna slyss..
Óskar Þorkelsson, 22.9.2008 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.