Reykásarnir rjúka af stað.

Það er ekki algengt að stétt fólks fái jafn mikinn almennan stuðning í launakröfum sínum og ljósmæður fengu á dögunum. Einum rómi sögðu þeir sem studdu þær að þær hefðu verið látnar dragast aftur úr undanfarin ár og fengju ekki sömu laun fyrir sömu menntun og stéttir, sem stóðu nálægt þeim. Þetta yrði að lagfæra.

Fjármálaráðherra var atyrtur, meðal annars í bloggpistlum mínum, fyrir það að sýna óafsakanlega tregðu við að verða við sjálfsögðum kröfum.

Í öllu þessu tali var sérstaða ljósmæðra ávallt aðalatriðið.

En nú bregður svo við að jafnvel þeir sömu, sem hömruðu á sérstöðu ljósmæðra, rjúka nú af stað með kröfur um sömu launahækkanair og ljósmæður. Nú virðast allir hafa fengið sömu sérstöðu og þær.  

Ef sú verður raunin að ljósmæðrasamningarnir verða notaðir sem afsökun fyrir kjarakröfum allra fer það að vera skiljanlegra en fyrr hve lengi fjármálaráðherra þráaðist við að semja við þær. Að baki tregðu hans bjó greinilega óttinn við að allir myndu rjúka af stað um leið og séð varð hvað ljósmæður fengju og að á endanum sætu þær jafnmikið eftir og þær höfðu áður gert. 

Og verðbólgan hefði fengið góða máltíð í formi launahækkana, sem velt yrði út í verðlagið og gamla staðan frá verðbólguárunum komin upp eins og afturganga. 

Ragnar Reykás hefði orðað afstöððu sína og sinna líka svona: "Auðvitað eiga ljósmæður að fá leiðréttingu á því að hafa verið látnar dragast aftur úr. Það er ekki spurning. Auðvitað eiga þær að fá sömu laun og aðrar stéttir með hliðstæða menntun fá. Ma-ma-maður áttar sig ekki á því af hverju þessi sérstaða er ekki viðurkennd.

En við verðum líka að átta okkur á því að nú eru allir að dragast aftur úr í kjörum vegna verðbólgunnar og verða fá réttláta leiðréttingu á því. Það er sanngjörn krafa og óskiljanlegt ef ekki verður orðið við henni. Nú eigum við öll heimtingu á því að hlustað sé á sanngjarnar kröfur okkar. LJósmæðurnar voru lifandi fyrirmynd sem við dáumst að og auðvitað viljum öll vera eins og ljósmæðurnar, það er ekki spurning." 

P.S. Var að koma heim úr kvikmyndagerðartörn þar sem ég var ekki í netsambandi. Hafði á leiðinni heiman frá mér klykkt út með þessu. 

Æ, nú fer hér allt í spað.

Alltaf vex hér raunin. 

Reykásarnir rjúka´af stað 

og reyna´að sprengja launin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Læknar eru einnig að verða kvennastétt og mun fleiri konur en karlar fara nú í háskólanám. Nám lækna er lengra en ljósmæðra og nám ljósmæðra lengra en hjúkrunarfræðinga, sem einnig er kvennastétt.

Það er því væntanlega eðlilegt að læknar fái eitthvað hærri laun en ljósmæður og þær hærri laun en hjúkrunarfræðingar. Og læknar halda því nú fram að ljósmæður séu komnar með hærri grunnlaun en "þeir".

Ljósmæður kröfðust 25% launahækkunar nú og fengu allt að 21% launahækkun. En læknar krefjast aftur á móti 6% launahækkunar en þeim hefur verið boðin 5% launahækkun. Hjúkrunarfræðingar fengu aftur á móti nýlega ríflega fjórtán prósenta launahækkun.

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4431890/0

Þorsteinn Briem, 24.9.2008 kl. 12:29

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Já - - satt segirðu; - það er ömurlegt að heyra jafnvel heil stéttarfélög fara aftan í þessa ljósmæðrasamninga - - og reyna að klína á þá því launaskriði sem - etv. var vanrækt í miðri þenslunni og bullinu fyrir Austan: svo fersk dæmi séu tekin

Benedikt Sigurðarson, 24.9.2008 kl. 20:43

3 identicon

varðandi  umræðuna  um að læknar séu með lengra nám en ljósmæður langar mig að benda á að  Læknanám tekur 6 ár, en til að verða ljósmóðir þarftu fyrst að taka hjukrunarfræði í 4 ár til Bs prófs og síðan 2 ár í ljósmóðurfræði, samtals  6 ár líka.

Annars skilst mér að unglæknar séu ekki ofsælir af sínum kjörum, hafa stundum "gleymst" svolítið í kjarabaráttu lækna, og eru á skammarlega lágum launum samanborið við eldri lækna, kannski af því að  það á enginn von á að verða endalaust unglæknir...

edda (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 21:55

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Edda. Læknar eru meira en sex ár í námi, því þeir sérhæfa sig eftir grunnnámið, til dæmis í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Læknanámið tekur yfirleitt um tíu ár og læknar sérhæfa sig einnig í heimilislækningum.

Hjúkrunarfræðingar fengu nýlega rúmlega 14% launahækkun og eðlilegt að ljósmæður vilji vera með hærri laun en "þeir".

Þorsteinn Briem, 24.9.2008 kl. 22:24

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Viðbrögð Guðmundar Gunnarssonar voru skammarleg og hneisa fyrir hann og verkalýðsfélgið. Viðbrögðin voru samt dæmigerð og fyrirsjáanleg. Stjórnarherrarnir vöruðu við því að þetta gæti hangið á spýtunni í framhaldinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2008 kl. 02:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband