25.9.2008 | 06:40
Flókin hröðun.
Athyglisverð var fréttin um í rússneskum leiðangri norðan Rússlands hefði mælst ört vaxandi uppstreymi metans úr hafinu, sem verður æ íslausara. Síðan búast menn við ekki síðra uppstreymi úr freðmýrunum þegar hlýnun loftslagsins bræðir frerann þar. Metan veldur fimmfalt meiri gróðurhúsaáhrifum en koldíoxíð og afleiðingin getur orðið æ hraðari hlýnun.
Fyrirbærið hlýnun lofthjúpsins er nokkuð flókið og það hringdu bjöllur hjá mér þegar kynnti mér sjónvarpsþátt um fyrirbæri sem kallað er "dimming" á ensku en ég lagði til að það yrði kallað rökkvun á íslensku. Rökkvunin, sem stafar af því þegar smáar agnir vegna bruna þyrlast upp í loftið hamla sólarljósinu för til jarðar, er umtalsverð en kólnunaráhrif þessara agna nægja samt ekki til að stöðva hlýnunina sem nú ríkir í lofslagi jarðarinnar.
Ein þekktasta rökkvun sögunnar var af völdum Skaftárelda 1783 þegar létt og fíngerð aska þeyttist upp í hvolfið, byrgði fyrir sólu og olli kólnun um mestalla jörðina í nokkur ár.
Bjöllurnar hjá mér hringdu því að hlýnunin bendir til þess þess að gróðurhúsalofttegundirnar hafi enn meiri áhrif en menn halda og að hlýnunaráhrif þeirra væru því ótrúlega mikil. Að þessu leyti er því hugsanlegt að rökkvunin hafi komið til bjargar til að varna því að hlýnunin verði allt of hröð, því að slíkt getur leitt til mikilla vandræða víða um lönd.
Allt er best í hófi.
Munurinn á rökkvun og áhrifum gróðurhúsalofttegunda er sá að gróðurhúsaáhrifin eru mun varanlegri.
Athugasemdir
Sagt er að Skaftáreldarnir árið 1783 hafi valdið Frönsku byltingunni árið 1789, þar sem aska hafi þá borist héðan til meginlands Evrópu, valdið þar uppskerubresti og komið af stað uppreisn í Frans.
Sel það ekki dýrara en ég keypti það en gæti trúað að allt metangasið í Síberíu gæti einnig valdið byltingum og það víðar en í Rússíá.
Þorsteinn Briem, 25.9.2008 kl. 11:13
Flott orð rökkvun. Ánægjulegt að sjá svona rökrétta málhugsun þegar orðskrípi eins og skortsala ríða nú húsum hjá manni daglega.
Sigurður Hreiðar, 25.9.2008 kl. 12:03
Þorsteinn Briem, 25.9.2008 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.