27.9.2008 | 16:36
Takmarkanir álitsgjafanna.
Álitsgjafar eru nauðsynlegir en enginn úrskurðaraðili. Mér er í huga þegar Fréttablaðið í ársbyrjun 2003 bað helstu sérfræðinga um íslenska dægurtónlist að velja tíu bestu söngvarana. Flest á þeim lista var óumdeilt, - Ellý á toppnum.
Síðan greindi blaðið frá þeim, sem komust á blað og meginlínur voru ljósar. Þarna voru frændurnir Bubbi og Haukur Morthens og svo framvegis.
Eitt vakti athygli mína. Af um það bil 30 nöfnum, sem nefnd voru, sá ég hvergi nefndan mann að nafni Ragnar Bjarnason. Þó hafði hann barist við Hauk Morthens um árabil um toppinn hjá íslenskum dægurlagasöngvurum og oftar haft betur.
Var einhver annar sem gat sungið betur jafn ólík lög og "Vertu ekki að horfa...", "Vorkvöld í Reykjavík", "Kokkur á kútter frá Sandi" o. s. frv.?
Á löngum lista sem fylgdi valinu voru meira að segja bæði ég og Jón Kr. frá Bíldudal. En ekki Ragnar Bjarnason. Hann hafði hugsanlega aldrei sungið neitt, jafnvel aldrei verið til.
Ég man að þetta ergði mig svo mjög að ég hefði skrifað um það beitta blaðagrein ef ég hefði ekki verið upptekinn í öðru á þessum tíma.
En svo róaðist ég. Ég vissi að það sem einu sinni hafði verið frábært hlaut að geta orðið það aftur. Og það gekk eftir. En allar götur síðan hef ég alltaf verið á varðbergi gagnvart óskeikulleika svonefndra "álitsgjafa", jafnvel þótt það eigi að heita "færustu sérfræðingar" á sínu sviði.
Athugasemdir
Öll erum við breisk. Þegar þú gafst út plötu hljóp ég eins og fjandinn væri á hælunum á mér niður í Vesturver að kaupa hana. Þú varst svo skemmtilegur. En þú söngst ekkert sérstaklega vel. Ég skrifaði forðum daga vikulega vinsælar greinar í DV og enginn man eftir mér. Eru ekki laun heimsins eins og vant er vanþakklæti?
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 27.9.2008 kl. 16:58
Ætla hér með að gerast álitsgjafi og set Vilhjálm heitinn Vilhjálmson efstan á blað sem besta dægurlagasöngvara sem Ísland hefur alið
Gylfi Björgvinsson, 27.9.2008 kl. 17:24
Já, álitsgjafarnir hafa varla reiknað út áhrif þín hér á mínu átta barna æskuheimili forðum, Ómar, þegar plöturnar þínar voru spilaðar þar demantsnálin í plötuspilaranum varð of slitin. Frá því að ég man eftir mér sem smákrakki, þá spilaði ég Botníuvísur á grammófóninum og beið alltaf eftir setningunni: „En af hverju giftistu henni?“og svarið kom: „því hún er svo sæt, tralalla la, svo ósköp sæt tralalla la“. Líka t.d. : „lok, lok og læs og allt í stáli, lokað fyrir Páli“.
Barnshugurinn hreifst með og kann þér nú þakklæti fyrir eintómar góðar minningar, þótt þú hafir hvergi verið nærri.
Ívar Pálsson, 28.9.2008 kl. 00:02
Í mínum huga hefur aldrei verið neinn vafi á því að best sungna dægurlag á Íslandi er „Ég er kominn heim", sem Óðinn Valdimarsson söng. Ekki ótrúlegt að Ragnar Bjarnason og Haukur Morthens kæmu næstir, ef ég ætti að setja saman slíkan lista nú.
Þarna kæmist Ómar ekki á blað, að mínu viti. Hann væri hins vegar nr. 1 ef kjósa ætti um besta textahöfundinn.
Hörður
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.