6.10.2008 | 14:52
R-in sex, Rjúkandi Ráð, Ringul-Reið og Ráðleysi Ríkja.
Á vinnuferð vestur í Bandaríkjunum hef ég reynt að vera í eins góðu sambandi við fólkið heima og unnt er jafnframt því að fylgjast með bandarísku fjölmiðlunum. Við mér blasa fjögur orð með stafnum R sem meginstef. Menn vita ekki sitt Rjúkandi Ráð, Ringul-Reið og Ráðleysi ríkja. Boðaður var "aðgerapakki" sem ekki birtist. Sagt að ekki væri í augnablikinu þörf á aðgerðarpakka þegar sannleikurinn er vafalaust sá að það er enginn aðgerðapakki mögulegur í þessari rosalegu stöðu.
Það er enga hjálp að fá utan frá því að þar þykjast menn í fyrsta lagi eiga nóg með sjálfa sig og í öðru lagi sjá þeir að Ísland er í raun gjaldþrota. 1940 stefndi landið að brún gjaldþrots en hernámið og gróðinn af því bjargaði um stund.
Skömmtunar- og haftaárin eftir stríðið voru erfið og þá bjargaði Marshall-aðstoðin okkur, en hún var veitt til að tryggja veru okkar í NATO og einnig vegna ótta Bandaríkjamanna við að missa aðstöðu sína á Keflavíkurflugvelli. Engin þjóð fékk hlutfallslega meiri aðstoð en Íslendingar og vorum við þó eina þjóðin sem græddi á stríðinu í peningum þótt hinu megi ekki gleyma að við misstum hlutfallslega jafn marga menn og Bandaríkjamenn.
"Þetta reddast allt einhvern veginn" hefur verið mottó kynslóðanna síðustu 70 árin og við höfum hangið á því. Það var mórallinn á bak við fáránlega skuldsetningu nýríkrar kynslóðar græðgisvæðingarinnar og það er kannski svipaður mórall og ríkti hjá mínu knattspyrnufélagi, Fram, þegar sett var heimsmet í því að lafa í efstu deild árum saman fyrir tóma hundaheppni.
Á endanum féll Fram og hefur nú fyrst blómstrað við það að horfa framan í raunveruleikann og það verkefni að vinna sig upp á uppbyggilegan hátt. Það eina góða, sem gæti komið út úr raunverulegu gjaldþroti íslensku þjóðarinnar nú er svipað og gerðist hjá Fram, - að heita því og sjá svo um að aldrei aftur gerist neitt svipað og nú stefnir í. En það mun kosta blóð, tár og svita.
Skýrist á næstu klukkustundum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.