6.10.2008 | 15:06
Blóð, sviti og tár, - við lifðum í blekkingu.
"Góðir Íslendingar. Við lifðum í blekkingu, erum í raun gjaldþrota og blóð, sviti og tár er það eina sem ég get boðið ykkur svo að heiður og ímynd íslensku þjóðarinnar verði endurreist. Til þess þarf æðruleysi og hugrekki."
Þannig myndi ég óska að forsætisráðherra hæfi ávarp sitt eftir klukkustund. Tímabil í heimssögunni, sem kennt verður við Reagan og Thatcher, er á enda og nú dugar ekkert minna en æðruleysisbænin: Guð gefðu mér styrk til að breyta því sem ég get breytt, sætta mig við það sem ég get ekki breytt, og vit til að greina þar á milli.
Hið nöturlega er að á Íslandi er hægt að kenna fyrrnefnt tímabil við Reagan, Thatcher og Davíð, en af þessum þremur er Davíð einn við völd og þarf að fást við afleiðingar af mistökum þessa tímabils og læra af þeim.
Á Vesturlöndum bjargar sér nú hver sem best hann getur og við verðum að búa okkur undir að enga eða of litla utanaðkomandi hjálp verði að fá.
Þetta er mesta ógn við sjálfstæði þjóðarinnar sem hún hefur horfst í augu við frá 1944, hættan á að hún tapi því dýrmætasta sem hún á, mannauðnum á flótta til útlanda og landinu og auðlindum þess í hendur útlendinga. Því að þegar eru uppi raddir um að fórna hinu síðarnefnda.
En við eigum að vera menn til að takast á við þetta af raunsæi, yfirvegum, kjarki og fórnarlund.
Forsætisráðherra flytur ávarp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Íslendingar þurfa að byrja á því að kynna sér sögu þjóðarinnar, þær fórnir sem fyrri kynslóðir færðu og það harðræði sem hún gekk í gegnum til að tryggja okkur þá "velmegun" sem nú er að tröllríða öllu.
Fyrr förum við ekki að meta það sem við höfum, og fyrr byrjum við ekki að fara vel með það.
Að þeim orðum sögðum þá vona ég að Geir tilkynni hreinsun úr nokkrum stöðum þar sem sitja óhæfir menn með vondar hugsanir.
Ellert Júlíusson, 6.10.2008 kl. 15:26
Ég vona að Geir segi af sér og fyrir hönd ráðuneytis síns. Óráðsía, óhamingja, fátækt, þjáningar, pólitískt ofbeldi, feluleikur og myrkraverk hafa einkennt þetta langa stjórnartímabil sem sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd. Það setur að mér óseigjanlega hryggð að horfa upp á þjóðarskútunni siglt á land. Óráðsía, orð sem hljómar ekki vitlaus einmitt núna, en því miður voru allir með fullu ráði!
Baldur Gautur Baldursson, 6.10.2008 kl. 15:36
Má ég bæta við ræðu Geirs: ".....við skulum áfram lifa í blekkingu með því að segja að allir vilji fjárfesta í orku og álverum á Íslandi þó enginn sé kaupandinn að álinu. Við skulum bara borða kökur ef ekki fæst brauðið.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.10.2008 kl. 19:32
Og nú ætla stóriðjusinnarnir að nýta sér ástandið og telja þjóðinni trú um að nú VERÐI að afnema lög um umhverfismat svo hægt sé að flýta stóriðjuframkvæmdum og bjarga þar með atvinnulífinu - eins og þið hafið líklega heyrt Guðna Ágústsson tala um í kvöld.
>:(
Það munu ýmsir reyna að notfæra sér ástandið núna.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.10.2008 kl. 21:43
Það er mikilvægara nú en nokkru sinni að halda vöku okkar yfir auðlindum þjóðarinnar. Ef að við lítum undan verða þær þjóðnýttar í skjóli nætur í nafni títt nefnds kreppu ótta.
Baldvin Jónsson, 6.10.2008 kl. 22:40
Hvar værum við stödd núna ef við hefðum ekki stóriðjuna. Guðni hafði lög að mæla við eigum an nýta okkar endurnýjanlegu orku okkur til framfæris, flýta framkvæmdum í Helguvík og á Bakka. Þeir sem felldu stækkun álversinns í Straumsvík bera núna mikla ábyrgð. Óábyrgt tal umhverfisofstækismanna á ekki að hlusta á, við getum ekki lifað á loftinu og fegurðinni einni saman. Það er að koma okkur í koll núna að hafa hlustað á þetta fólk og treyst á útrásarguttana að þeir björguðu öllu saman af því þeir væru að selja umhverfisvænt hugvit. Umhverfisofstækisliðið lifir í blekkingu, það sýnir sig nú.
Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 00:38
Hættum að nota orðið "endurnýjanleg orka" um jarðvarmavirkjanir sem byggjast á því að pumpa upp úr jörðinni því magni sem endist afskriftartíma virkjananna, 40 ár. Framleiðsla á áli kostar 30 sinnum meiri orku en framleiðsla á stáli.
Heimurinn getur að mestu verið án áls og kostnaðarins við það. Heimurinn getur hins vegar alls ekki verið án fæðu. Þess vegna er sjávarútvegurinn það sem á mesta möguleika til að spjara sig, þrátt fyrir skuldir hans.
Um leið og álverðið fellur niður fyrir visst mark vegna kreppunnar og minni erftirspurnar verður tap á virkjunum okkar vegna þess að við lögðumst á hnén fyrir framan álfurstana 1995 og buðum þeim lægsta orkuverð í heimi með sveigjanlegu umhverfismati.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 00:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.