Afturganga Fjárhagsráðs að lifna?

Í kjölfar gjaldeyrisþurrðar 1947 eftir að landsmenn höfðu eytt gríðarlegum stríðsgróða á undraskömmum tíma fylgdu hörð höft og skömmtun. Svonefnt Fjárhagsráð varð ríki í ríkinu, ákvað hvað hver mætti kaupa fyrir erlendan gjaldeyri.  Hafta - og úthlutunarkerfi mikillar spillingar  varð illvígara hér á landi og stóð mun lengur en í nágrannalöndunum í skjóli ýmissa nefnda og ráða.

Nú glyttir í gamla vofu, upprisna af skyldum ástæðum. Nema að ástandið nú virðist enn verra. Ég minnist þess ekki að olíuþurrð hafi vofað yfir 1947 þótt aðrar vörur væru skammtaðar og gefnir út skömmtunarseðlar.

Ég sá heldur ekki tölur þá sem bentu til þess að þjóðin skuldaði meira en hún ætti. Rétt er að geta þess að mikið af stríðsgróðanum fór í að endurnýja skip og tæki sjávarútvegsins og það kom sér vel. Í þeim var fólgin eign til að framleiða matvöru, sem er sú vara sem síðast verður óþörf, raunar aldrei.

En á móti kom kapphlaup um að eyða miklu í það sem Framsóknarmenn kölluðu þá "gums" og voru atyrtir fyrir.

Þá var flokkurinn utan stjórnar og bar ekki beina ábyrgð á bruðlinu en nýtti sér óspart svonefnd helmingaskipti við Sjálfstæðisflokkinn til að viðhalda haftakerfinu og hygla sínum.

Árin 1995-2007 var flokkurinn í stjórn, kom þensluskriðunni af stað fyrir kosningar 2003 og ber ekki minni ábyrgð á því en Sjálfstæðisflokkurinn. 

Eftir á að hyggja sést hve skaðlegt það var að engar girðingar voru fyrir hendi né skilyrði fyrir því hve langt fjármálafyrrirtækin gátu gengið í óheyrilegri skuldasöfnun í útlöndum.

Stóraukin lykilvöld Fjármálaeftirlitsins eru því miður líklegast aðeins byrjunin á skömmtunar- og haftakerfi sem neyðst verður að koma á. Kommúnisminn hrundi um 1990 vegna hins sama og er nú að grafa undan kapítalismanum: Menn settu upp að því er virtist fullkomin módel yst til vinstri og hægri en gleymdu að taka mannlegt eðli með í reikninginn.

Í báðum kerfunum var mannleg græðgi aðalvaldurinn að óförunum og í báðum tilfellum græðgi í völd. Í kommúnistaríkjunum var það bein valdafíkn sem leiddi til alræðis, einræðis og kúgunar, valdsins til að ráðgast með fólk og hafa það sjálfur náðugt. Í kapítalismanum er það fíknin í vald peninganna, sem ekki voru sett bönd á.   


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er vel til fundið hjá þér nafni að bera stöðuna nú við stöðuna 1947. Hvað varð okkur til bjargar þá? Það var að við sóttum af meira kappi í auðlindir þjóðarinnar, létum smíða nýsköpunartogarana og þeir mokfiskuðu og rifu okkur uppúr örbyrgð til bjargálna. Nú getum við ekki sótt gull í auknum í greipar ægis og verðum því að sækja í aðrar auðlindir okkar, og það er í fallvötn okkar, virkja árnar sem falla annars í gagnsleysi til sjávar og reysa stóriðjuver. Við værum illa sett ef við hefðum ekki stóriðjuna núna. Flýta álveri á Bakka og í Helguvík stækka Straumsvík og reysa iðjuver við Þorlákshöfn svo eitthvað sé nefnt. Það sem reyndist vel 1947 mun reynast vel líka núna nýta náttúru auðlindirnar til að rífa okkur upp úr öldudalnum.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 01:06

2 identicon

Já, við erum "fucked!", eins og sagt er á "góðri" Íslensku!

Nú, þurfum við hugsanlega að ganga á náttúru okkar á þann hátt að aldrei verður aftur snúið. Jæja, við verðum löngu dauð áður en það fer að skipta máli, þannig séð.... nema að afkomendur okkar munu vellta því fyrir sér hvers konar aumingjar við vorum!?

Hvers konar aumingjar erum við?!

Gísli (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 01:38

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér í Bandaríkjunum býr Yellowstone-svæðið yfir meiri jarðvarma- og vatnsorku en nokkurt annað svæði í þessu landi. Það verður aldrei snert, hversu illa sem Bandaríkjamenn telja sig vera stadda.

Í staðinn hafa þeir fengið Íslendinga til að ganga gersamlega frá öllum náttúrugersemum landsins sem þú vilt að verði tortímt og eru mun merkilegri og verðmætari ósnortin fyrir mannkynið en Yellowstone.

Virkjanirnar á Íslandi munu hjálpa Bandaríkjamönnum til að henda árlega meira af álvörum en nemur öllum virkjunum Íslands. Og lausn atvinnuvandans? 2% af vinnuafli landsmanna mun fá vinnu í álverunum.

Ef kreppan veldur því að álverðið lækkar að marki vegna minni eftirspurnar ( það kostar 30 sinnum meiri orku að framleiða tonn af áli en stáli) verður tap á virkjununum vegna hins óheyrilega lága orkuverðs.

Slíkt mun síður henda í sjávarútveginum. Það er alltaf þörf fyrir fæðu í sveltandi heimi.  

Ómar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 01:43

4 identicon

Það vill nú svo til nafni að í dag höfum við Íslendingar meiri útflutningstekjur af áli en sjávarafurðum. Það er enginn að tala um að tortíma náttúru landsins, heldur jafnvel frekar að bæta hana. Ég fór að kynna mér það landssvæði sem þú og þínir áttu ekki orð yfir hvað miklar náttúruperlur færu forgörðum við Kárahnjúka. Þvílíkt bull ég er sammála Hjörleifi Guttormssyni "þarna er ekkert að sjá". Aðeins auðn og grjót, en lónið lífgar upp á umhverfið og mannvirkin og lónið dregur að sér ferðamenn, en enginn kom þarna áður. Ég hef staðið á Hoower Dam stíflunni og séð þá gríðarlegu fegurð sem lónið hefur skapað og dregur að sér hundruði þúsunda ferðamanna ár hvert. Og fyrst þú ert í Bandaríkjunum nafni þá skydi þó aldrei vera að þú hafir ferðast út á álfugli. Jafnvel þú sem hefur manna hæst ert háðari áli meir en við flest hin, svo við tölum nú ekki um tvískinnunginn í vinkonu þinni Björk.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 02:03

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég minnist á þessi skrif þín, Ómar, en nálgast mál gærdagsins allmiklu öðruvísi í þessari grein: Kreppan hittir alla fyrir, en okkur verst … í bili. – Vísa á hana, með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 7.10.2008 kl. 04:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband