Samstaðan er fyrir öllu.

Næstu dagar, vikur, mánuðir og ár verða þær erfiðustu hér á landi um margra áratuga skeið. Þótt nauðsynlegt sé að læra af mistökum undanfarinna ára er samstaðan þó mikilvægari á þeirri stundu sem við erum að sogast inn í óveður á þeirri litlu flugvél þjóðar okkar, sem nú hefur ofrisið og fellur í spuna í átt til jarðar.

Geir H. Haarde er fyrsti forsætisráðherrann á Íslandi sem hefur hagfræðimenntun. Í því ástandi sem ríkir samsvarar menntun hans því að maðurinn við stýrið hafi flugstjórnarréttindi. Áhöfn loftfarsins sem stefnir til brotlendingar eða nauðlendingar þarf að vera mönnuð besta fáanlega fólki, sem völ er á. 

Áhöfnin og farþegarnir verða að vera samstíga svo að vel fari. Allir eru mannlegir og við þessar erfiðu aðstæður munu allir geta gert einhver mistök. Þá varðar miklu að greina þau, leiðrétta og bæta fyrir eftir því sem hægt er. Ef vanhæfni einhvers gerir hann ófæran um að gegna hlutverki sínu tekur annar við.

Aldrei hefur verið eins mikil nauðsyn á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stærsti flokkur þjóðarinnar (ef hann er það lengur) hafi kjark til að fara í gegnum slíka greiningu

Vel má vera að það sé rétt, sem blaðamaður segir í grein, að Davíð Oddsson hafi meiri hæfileika til að hrífa fólk með sér með persónutöfrum og klárheitum en Geir H. Haarde. Þetta segir hann eftir að hafa borið saman frammistöðu þeirra í sjónvarpi.

En lendingu út úr hinu mikla hrapi verður ekki náð með hæfileikum sjónhverfingamanna sem tekst að telja fjölda fólks trú um að hvítt sé svart. Dæmin sýna annað og menn ná ekki flugvél út úr spuna með slíku, heldur gera jafnvel illt verra..

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara að gera upp við sig hvenær tímabili Davíðs Oddssonar eigi að ljúka sem helsta örlagavalds í sögu lands og þjóðar. Því virðist ekki vera lokið heldur ríkir enn ótrúleg afneitun innan flokksins gegn því sem ætti að blasa við, að hans tími ætti að vera löngu liðinn og hann sestur við að gera það sem hann gæti best gert, að nýta sér hina frábæru rithöfundarhæfileika sína. 

Setti meira að segja sérstök ákvæði inn í eftirlaunalög til þess að svo mætti sem best verða.  

Davíð átti sinn blómatíma á árunum 1982-1999. Hefði átt að víkja þá en hélt áfram næstum sex árum lengur. Níu ára samfelld sigurganga í borgarstjórn og 13 ár sem forsætisráðherra er meira en nóg fyrir einn stjórnmálamann hjá flestum lýðræðisþjóðum sem hafa jafnvel lög til að koma í veg fyrir slíkt.

En nú ríður mest á samstöðunni og að þeir sem sitja við stýrið, hverjir sem þeir eru, finni fyrir því að við viljum þeim sem best svo að við öll getum komist sem skást frá þessu.

Þessa erfiðu daga hefur Geir H. Haarde verið flugstjóri og meðan svo er verður að sýna honum traust. Hann hefur flugstjórnarréttindi og á ekki að vera hræddur við að hafa hemil á þeim, sem hamast óbundnir í flugstjórnarklefanum, anda ofan í hálsmálið á honum og rífa í stýrið. 

Þessa leiðtogahæfileika og myndugleika verður flugstjóri að hafa, - menntunin og réttindin duga ekki ein þó að þau séu mikilvægust. Fari þetta allt saman munum við ná skástri lendingu.  

 


mbl.is Einhver erfiðasta vika í seinni tíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði Davíð Oddsson seðlabankastjóra frá 25. október 2005 og skipunarbréfið gildir til sama tíma árið 2012, eða í sjö ár eins og annarra seðlabankastjóra.

Geir Haarde mun aldrei setja Davíð af sem seðlabankastjóra af eigin frumkvæði, það er hans sem forsætisráðherra að skipa seðlabankastjóra og Geir hefur stuðning Sjálfstæðisflokksins sem forsætisráðherra.

Í Kastljósinu 7. október síðastliðinn talaði Davíð um "óreiðumenn" án þess að tilgreina hverja hann átti við. Hann taldi mögulegt að skilja að innlendar og erlendar skuldir íslensku bankanna og greiða 5-15% af erlendu kröfunum, svipað og Bandaríkjamenn hefðu gert.

Hins vegar ákveður Davíð það ekki sjálfur hversu stór hluti af erlendu kröfunum verður greiddur.

Þorsteinn Briem, 11.10.2008 kl. 16:08

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Sendi þér þessa lymru til gamans.

There once was a man nemed Weeling
who was constantly bying and deling.
On a sign on his door
stood don't spit on the floor
so everyone spat on the ceiling.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 11.10.2008 kl. 16:53

3 Smámynd: Starbuck

Í stjórn Seðlabankans þarf að fá nýtt fólk sem fyrst.  Burtséð frá gerðum Davíðs í fortíðinni þarf hann að víkja sem fyrst því nú eru sérstaklega krítískir tímar og mikil þörf á því að réttar ákvarðanir séu teknar í Seðlabankanum.  Þegar mikill fjöldi fyrirtækja og einstaklinga stefnir í gjaldþrot er það t.d. alveg ótækt að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum í hæstu hæðum.  Maður hlýtur að spyrja hvort almennur dómgreindarskortur plagi stjórnarmenn bankans.

Jurgen, ég held að íslenska þjóðin muni í framtíðinni gera miklu sterkari kröfu um heiðarleika hjá stjórnmálamönnum og að þeir séu að sækjast eftir völdum til að þjóna íbúum þessa lands en ekki vegna persónulegra hagsmuna, valdafíknar eða athyglissýki.  Núverandi ráðamenn hafa flestir staðið í vegi fyrir lagasetningum sem miða að því að auka gegnsæi í pólitíkinni t.d. með því að skylda þingmenn til að opinbera eignir sínar í fyrirtækjum og flokka til að opinbera hvaðan framlög til þeirra koma.  Það er því augljóslega þörf á því að fá nýtt fólk til valda og vonandi eigum við eitthvað af heiðarlegu og hæfu fólki sem er tilbúið að taka að sér stjórn þjóðarskútunnar.

Starbuck, 11.10.2008 kl. 18:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Og nú heyri ég að á fundi Sjálfstæðismanna í dag hafi Kjartan Gunnarsson gagnrýnt Davíð Oddsson harðlega og fengið undirtektir margra við það.

Ómar Ragnarsson, 11.10.2008 kl. 18:46

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Með leyfi,samstaða um hvað? Samstaða um að leggja miljóna skuldir á börnun okkar? Íslenski ríkissjóðurinn skuldaði hér um bil ekki neitt í gær, í dag bættust á 300 miljarðar og er það aðeins fyrsti og minni hluti þeirra Versalasamninga sem framundan eru við Breta.

Samstaða um að Skattrannsóknarstjóri herði sókn sína gegn glæpakvendum sem eru að prjóna heima og sumar grunaðar um að selja afurð sína?

Íslendingar eru með eindæmum þýlynd þjóð það hefur hún sýnt stjórum sínum frá 1262 með dyggum trúnaði við herra sína og kennt vondum útlendingum um það sem aflaga fór, engin yfirstétt í heiminum hefur búið við annað eins þýlyndi þegna sinna. Enginn hefur komist nær því að segja satt um þessa þjóð á undanförnum dögum heldur en forsetis- og fjármálaráðherra Stóra-Bretlands. Allar framfarir á Íslandi hefur verið troðið upp á Ísland í óþökk herra þjóðarinnar og hyskis þeirra. Þar á meðal tókst Dönum með harðfylgi og hótunum að afnema Stóradóm.

Órofa samstaða var er og verður meðal Íslendinga um að hatast við þá innlendu og erlendu menn sem benda þeim á, með réttu, að þeir séu skrælingjar.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 11.10.2008 kl. 20:53

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Líkt og Jurgen er ég ekki sammála þér í virkjunar- og stóriðjumálum, en í þessari grein þinni hitt hvert eitt og einasta orð í mark. Það væri þá helst að ég myndi bæta nokkrum árum við hjá Davíð eða til ársins 2003.

Það var í fjölmiðlamálinu árið 2004, sem ég sá að hann gekk ekki heill til skógar og að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki á réttri leið lengur. Það er því miður enginn annar marktækur hægri flokkur til á Íslandi og  starfaði ég áfram ötullega innan flokksins og kaus hann áfram.

Ég ritaði í gær um það hugmyndafræðilega uppgjör, sem fara verður fram sem fyrst eftir að þessi "katastrófa" er riðin yfir.

Við höfum hins vegar ekki tíma til að bíða með að Davíð Oddsson og félagar í stjórn Seðlabankans taki pokann sinn, því svo miklir hagsmunir eru í húfi.

Davíð gerði réttast með að segja af sér og benda við það tækifæri á að hann hafi varað við þessari græðgisvæðingu oftar en einu sinni, eyðslu þjóðarinnar og skuldsetningu landsins (bankanna). Ég efast ekki um að hann segir satt hvað þetta varðar.

Tími Davíðs og ýmissa annarra er hins vegar liðinn og tími kominn til að aðrir innan Sjálfstæðisflokksins taki við. Hvort það eru þeir ungu menn, sem nú eru á þingi vil ég sem minnst segja, en verð þó að segja að mér finnst þeir hafa verið ansi miklir taglhnýtingar öfga frjálshyggjumanna innan flokksins. Ég hefði kosið að við íhaldsmennirnir innan flokksins tökum aftur við honum núna, eftir að frjálshyggjumenn rændu eða betur "hædjökkuðu" flokknum fyrir tæpum 20 árum síðan. Það sem frjálshyggjumennirnir gerðu til 2001 var þarft og gott, en nú nú er tími kominn til að þeir stigi til hliðar. Það er engin eftirspurn eftir óheftri frjálshyggju meira í þjóðfélaginu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.10.2008 kl. 21:43

7 identicon

Sæll Ómar.

Satt er það Ómar, að framundan eru erfiðir tímar fyrir marga. Kannski verður eins dauði annars brauð, sjáum til með það. 

Ekki verra að fólk veljist til starfa eftir hæfileikum til að valda starfi sínu, menntun og reynsla getur komið sér vel, auk hæfni til að nýta sér áðurnefnt.

Nú get ég ekki metið það hvenær Davíð Oddson átti sitt besta tímabil. Eflaust hefur hann gert sitthvað gott og eitthvað sem betur mætti fara. Líklega þarf lengri tími að líða svo hlutlaust og raunhæft mat fáist. Munum að sigurvegarinn skrifar alltaf söguna.

Persónulega fannst mér Davíð alltaf bestur með Útvarpi Matthildi. Þeir félagar sem þar voru sáu samtímann í ansi skemmtilegu ljósi. Af þeim Matthildarfélögum er einn sem mér finnst ennþá varpa ljósi á mitt líf, maður hvers verk er gaman að lesa. Maður sem fær mig til að hugsa á stundum. Ég er ekki að tala um Davíð.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson. 

Heimir H. Karlsson. (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband