12.10.2008 | 00:02
Brunni skógurinn í Yellowstone.
Ég var að koma heim frá 15 daga ferð um Bandaríkin en þar af mátti flokka 11 daga sem vinnuferð. Einn dagur fór í óvænt veikindi. Meginviðfangsefni ferðarinnar var að taka á móti viðurkennningu í San Fransisco og Los Angeles (ekki veitir af smá erlendum gjaldeyri þessa dagana í þjóðarbúið) en við hjónin notuðum ferðina til að koma við í Yellowstone með skógarbrunann mikla 1988 sem meginþema.
Við komum þangað í kvikmyndaferð á vegum Sjónvarpsins 1999 þegar nýgræðingurinn var að spretta upp á rústum hins brunna skógar. Það var áhrifamikið en enn áhrifameira að koma nú og sjá muninn frá því 1999. Ég mun kannski greina nánar síðar frá því erindi sem skógarbrunarnir miklu eiga við okkur Íslendinga sem hliðstæða þess sem við gætum gert á Leirhnjúks-Gjástykkis-svæðinu.
En á leið frá Yellowstone upplaukst fyrir okkur önnur hliðstæða brunans, - sem sé við þann bruna sem fer nú um íslenskt þjóðfélag.
Í Yellowstone kom í ljós að þeir hlutar skógarins brunnu helst þar sem trén voru orðin gömul, feyskin og þurr og ekki lengur heilbrigð og voru því betri eldsmatur en hin yngri tré. Niðurstaða rannsókna þarna bendir til þess að með sirka 100-200 ára millibili leiðir íkveikja af eldingum í sjaldgæfum þurrkum það af sér að skógarbrunarnir ná að verða sérlega stórir vegna þess hve stórir hlutar skógarins eru orðnir gamlir og fúnir.
Brunarnir eru því eðlilegur hluti af nauðsynlegum kynslóðaskiptum og það fyrirbæri garðsins sem skilur mest eftir í huga aðkomumannsins vegna þess hve vel því er komið til skila á safni, í bókum og kvikmyndum sem eru á boðstólum í skógareldamiðstöð þjóðgarðsins.
Skógareldur íslenska hagkerfisins hefur náð sinni stjarnfræðilegu stærð vegna þess hve langur tími leið þar sem það varð lenska að hrifsa til sín verðmæti án þess að vinna fyrir þeim með því til dæmis að nýta sér þjóðfélagslegt ranglæti á borð við það að brenna sparifé upp í verðbólgu.
Grunnorsökin var landlægt daður við ábyrgðarleysi gagnvart samfélaginu og komandi kynslóðum.
Að berast á án þess að innistæða sé fyrir því og ná sem lengst með hreinni græðgi er líka mein sem er að fara illa með bandarísku þjóðina á sama tíma og að frá hennar skógareldi hljóp sú elding sem hleypti öllu í bál hjá okkur af því að nógu stór hluti þjóðarskógarins íslenska var orðinn andlega feyskinn.
Eyðileggingin í Yellowstone, sem blasti við fyrst eftir skógarbrunana, víkur nú hratt fyrir hinum nýja skógi sem vex og nærist á leifum hinna fúnu eldri trjáa sem báru dauðann í sér.
Það fórust að vísu mörg ung og heilbrigð tré í eldunum en eftir nokkra áratugi verður vaxinn skógur sem verður betri en ef hin morknu tré hefðu fengið að hjara áfram.
Niðurstaðan er einföld: Eins og í skógareldinum munu margir brennast af þeim eldi sem þeir áttu lítinn sem engan þátt í að kveikja. Mikið ranglæti og mismunun munu því miður ráða ríkjum.
En það verður að berjast fyrir því að minnka eins og unnt er það óheyrilega tjón sem eldurinn veldur og sjá til þess að upp af rústunum vaxi heilbrigðari og sterkari þjóðfélagsskógur en sá sem nú stendur í ljósum logum.
Athugasemdir
" Þú hittir greinilega naglann í höfuðið "
That's the point!
Þakka þér fyrir þetta Ómar.
Vilborg Eggertsdóttir, 12.10.2008 kl. 00:17
Ómar hversu undarlegt sem það virðist þá eru til furutegundir í Bandaríkjunum sem þurfa á skógareldi að halda. Könglarnir opnast ekki fyrr en við 100 stiga hita. Þannig að skógareldar eru nauðsynlegir til að viðhalda þessum furustofnum.
Haraldur Bjarnason, 12.10.2008 kl. 08:35
Innilegar hamingjuóskir með viðurkenninguna, Ómar!
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.10.2008 kl. 11:27
Til lukku, Ómar minn.
Þorsteinn Briem, 12.10.2008 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.