16.10.2008 | 21:07
Stærsta handrukkun heims.
Íslendingar voru kannski á fjármálalegum fíkniefnum og talsmaður okkar sagði það óþvegið framan í agndofa heimsbyggðina í sjónvarpi að við myndum ekki borga fíkniefnaskuldina. En viðbrögð Breta við því og ruddalegar aðfarir er varla hægt að líkja við annað grófa handrukkun þar sem hinn rukkaði er laminn svo til óbóta dag eftir dag , að með sama áframhaldi mun hann ekki getað borgað neitt.
Þegar sjávarútvegsfyrirtækin stöðvast vegna þessara aðgerða má líkja aðgerðum Breta við það að bóndi flái kindur sínar í stað þess að rýja þær. Þetta er svo ótrúlega lítilmótlegt og heimskulegt athæfi að það á ekki að láta Breta komast upp með það að sleppa frá þeim órefsað.
Þeim væri nær að beita hryðjuverkalögum á Bandaríkjamenn, sem áttu stærstan þátt í þessari fjármálakreppu heimsins og komu henni af stað.
En þetta er svipað fyrirbæri og í gamla daga þegar hjáleigubóndinn þorði ekki að lemja óðalsbóndann, heldur lét reiði sína bitna á vinnumanninum.
Hryðjuverkalögin skemma fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er allt of langt gengið hjá breskum stjórnvöldum. Þau gætu verið skaðabótaskyld vegna þessara alltof harkalegu aðgerða og sjálfsagt að fara í mál vegna þeirra.
Hins vegar sýnist mér að fólk almennt í Bretlandi hafi ekkert á móti okkur Íslendingunum. Ekki má gleyma að Íslendingar hafa eytt mörgum milljörðum króna árlega í til dæmis verslunum, veitingahúsum og leikhúsum í Bretlandi og Danmörku undanfarin ár.
Þorsteinn Briem, 16.10.2008 kl. 21:46
Fyrsta málsgreinin þín segir margt. Einn valdamesti maður þjóðarinnar segir í sjónvarpi "við neitum að borga", fjármálaráðherra hringir í annan slíkan til að leita staðfestingar og fær sömu svör "við borgum ekkert". Að sjálfsögðu kallar þetta á neikvæð viðbrögð, því miður voru viðbrögðin ekki bara neikvæð heldur óafsakanlega fjandsamleg.
Tveir strákar á sveitaballi fara að hvæsa hvor á annan, það getur endað á tvennan hátt: Þeir róa sig og ræða málin eða lenda í hörkuslagsmálum. Hvort er vitsmunalegra?
Innan bæði ESB og EFTA eru stofnanir sem geta úrskurðað í svona málum. Er ekki vitsmunalegast að vísa málinu þangað með samþykki breta? Láta úrskurða um það hverjar skildur okkar eru samkvæmt þeim samningum sem við erum aðilar að (EES) og hlíta þeim úrskurði. Við eigum að standa við þá samninga sem við gerum, öðruvísi endurheimtum við ekki eitthvað af virðingu okkar á alþlóðavettvangi. Að hrópa "við neitum að borga" (þó svo að okkur BERI að gera það?) er ekki vænlegt til árangurs.
Það er okkur ekki til framdráttar að búa til óvini úr nágrannaþjóðum okkar á þeim tímum sem framundan eru, óvini sem við tölum ekki við nema í réttarsölum.
sigurvin (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 22:03
Við erum í gíslingu Gordons Browns. Hann hringir ábyggilega á morgun og biður um lausnarféð, t.d. part úr landhelginni, nú eða klettinn Rockall sem við reyndum að steypa lífi í um árið.
Benedikt Halldórsson, 16.10.2008 kl. 22:09
Heill og sæll Ómar, mikið er ég sammála þér í þessum skrifum. En hvers vegna er verið að kalla Breta vinaþjóð ??
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 17.10.2008 kl. 22:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.