16.10.2008 | 22:10
M-H-M-H.
Stóreignir verða verðlausar í kreppu. Markaður fyrir lúxus skreppur saman. En sumir hlutir halda verðgildi betur en aðrir. Meðal þess er hugvitið, mannauðurinn. Margt nytsamlegt var fundið upp á verstu kreppuárunum 1930-40 og sumir gátu aukið tekjur sínar og skapað virðisauka á þeim grundvelli.
Stórbrotin skáldverk, listaverk og tónlist urðu til. Kreppan varð jafnvel til þess að nytsamir hlutir urðu til sem annars hefði kannski ekki verið fundnir upp. Neyðin kenndi naktri konu að spinna.
Matar verður alltaf þörf, einnig húsaskjóls. Mannauður, menntun og menning eru undirstöður byggðar í landinu og dýrmæti heilsu og heilbrigði missir aldrei gildi sitt.
Úr þessu má lesa skammstöfunina M-H-M-H.
M=Matur. Íslendingar framleiða mat til sjávar og sveita og hvert starf við sjávarútfveg gefur þrefaldan virðisauka í þjóðarbúið miðað við hvert starf í álveri.
H= Húsaskjól. Því miður var byggt svo langt umfram þarfir í "góðæri" skuldanna að lægð kemur á eftir. Betra hefði verið að fara sér hægara svo að eðlilegri þörf væri mætt áfram jafnt og þétt. En það mun jafna sig.
M=Mannauður, menntun, menning. Þar liggja sóknarfærin til að halda mannauðnum í landinu. Áfram er þörf fyrir uppfræðslu og sköpunargáfu, menntun og menningu og störf sem tengjast þessu.
H=Heilsa og heilbrigði. Grundvallaratriði.
Hugum að þessu þegar við þurfum á endurhæfingu að halda eftir áföllin.
Gott uppgjör hjá Google | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Margir fullyrtu að hér yrði mikið atvinnuleysi þegar Bandaríkjaher færi héðan, nokkur þúsund manns, en raunin varð allt önnur.
Þenslan var reyndar svo mikil, þegar sá undir iljarnar á hernum eftir meira en hálfrar aldar dvöl hér sumarið 2006, að ekki fengust íslenskir skólastrákar til að pakka búslóðum dátanna og fjölskyldna þeirra fyrir hálfa milljón króna á mánuði, heldur varð að ráða Pólverja til þess.
Í sumar störfuðu hér enn um 17 þúsund útlendingar, þar af mörg þúsund við byggingaframkvæmdir, og nú flytja margir þeirra aftur til síns heima. Þær íbúðir, sem ekki tekst að selja núna, er hins vegar hægt að leigja út. Á höfuðborgarsvæðinu er mjög stór markaður fyrir leigu á íbúðarhúsnæði. Yfir 80% Íslendinga búa í eigin húsnæði, sem er heimsmet, og margir hverjir án þess að hafa nokkurn áhuga á því eða fjárhagslega getu til þess.
Hér er því góður markaður fyrir húsaleigufyrirtæki, sem eiga mörg hundruð, jafnvel nokkur þúsund, íbúðir til útleigu fyrir sanngjarna húsaleigu fyrir báða aðila. Slík fyrirtæki geta hvort heldur sem er verið í eigu sveitarfélaga eða einkafyrirtækja, sem eiga íbúðirnar og reka.
Þess háttar fyrirkomulag hefur til dæmis lengi verið við lýði í Svíþjóð. Og slíkt fyrirtæki er nú rekið á Vallarheiði en það leigir út íbúðir sem bandarískir hermenn og fjölskyldur þeirra bjuggu í við Keflavíkurflugvöll.
Þorsteinn Briem, 16.10.2008 kl. 23:08
Er það ekki svo að mannauðurinn, sprengmenntað fólk sem fékk að leika sér með dótið sitt, var það steypti okkur í þetta rugl sem við erum í?
Voru það ekki hagfræðingar, fjármálaverkfræðingar, tryggingastærðfræðingar, lögfræðingar, viðskiptafræðingar og hvaðeinafræðingar sem fundu upp flóknar fjárfestingavörur? Voru það ekki þeir sem stjórnuðu þessari tröllvöxnu vél sem nú hefur brætt úr sér?
Af hverju skildum við hafa áhyggjur af þó eitthvað af þessu fólki fari?
Ég veit að ég er algjörlega rangstæður þegar ég skrifa þetta, en það er í mér einhver púki - svo ég læt vaða. :-)
Viggó H. Viggósson, 17.10.2008 kl. 00:27
Það er hægt að velta fyrir sér ástæðum og afleiðingum þar til maður verður blár í framan. Fyrst verður maður grænn (e.t.v. af smá öfund), síðan rauður af reiði og loks blár af ráðþrota vanmætti yfir því að hafa hreint enga stjórn á atburðarrásinni.
En, einhvers staðar verða umræður um úrbætur að byrja og ég vil nota hvert tækifæri til þess að benda á að við hljótum að endurskoða ákveðna hluti, eins og verðtrygginguna, í þeirri endurskipulagningu sem framundan er. Leyfi ég mér því að vísa í grein mína um þetta mál hér. Ég hvet alla sem finnst þetta skipta máli til að láta í sér heyra.
Hugmynd Steina er ekki galin og í raun e.t.v. eðlilegur kostur fyrir þá fjölmörgu sem missa munu húsnæði sitt á næstunni, sökum gengisþróunar og verðtryggingarráns.
Karl Ólafsson, 17.10.2008 kl. 02:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.