Uppboð í Vöku.

Þegar fíkillinn rankar úr rotinu eftir fallið mikla blasir kaldur veruleikinn við: Hann er búinn að missa allt og svo kaldhæðnislega sem það hljómar á hann meiri möguleika á að vinna sig upp frá botninum en þegar áföllin voru minni og hægt að "redda" sér tímabundið án þess að taka á vandanum til frambúðar. Þá tókst honum að bjarga bílnum undan hamrinum og þeim verðmætum sem hefðu farið í súginn á uppboði í Vöku.

Nú er verið að bjóða upp íslensk verðmæti víða um lönd og þeir sem kaupa á uppboðinu eru himinsælir með góð kaup en íslenski fíkillinn grætur tapið. 

Þá gleymist það kannski að sá sem keypti eigi kannski betur skilið að eiga hlutinn en sá sem kunni ekki með að fara og þannig muni verðmætið nýtast eins vel og hægt er, þótt í öðru landi sé.

 


mbl.is Glitnir í Svíþjóð seldur á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mér skilst að flestir hér hafi keypt bíla á erlendum myntkörfulánum undanfarin ár, "þar sem þessum lánum hafi verið otað að þeim af bílasölunum". Samt sem áður vissu allir, eða máttu vita, að krónan var alltof hátt skráð og hún myndi falla fyrr eða síðar. Og það fyrr en síðar, enda þótt enginn byggist við að gengið hryndi nú í haust.

Íslendingar lögðu því yfirleitt ekki fyrir til að kaupa bíl, heldur tóku bílalán til jafnvel átta ára, meira að segja ungt fólk sem var að kaupa sinn fyrsta bíl. Svo keypti það íbúðir fyrir til dæmis myntkörfulán til 40 ára í banka, og fékk jafnvel 100% lán hjá bönkunum til að kaupa íbúð. Íslendingar tóku því í mörgum tilfellum miklu hærri húsnæðislán en þeir þurftu, því þeir lögðu ekki fyrir.

Verð á íbúðum og húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað að minnsta kosti um 80% frá sumrinu 2004, þegar bankarnir byrjuðu að lána fé í stórum stíl til íbúðakaupa, og fasteignaskattar hafa því hækkað gríðarlega á þessu tímabili.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki haft undan að leggja nýjar götur og gera við þær sem fyrir eru, því gríðarleg fjölgun bíla og stórir jeppar hafa spænt upp göturnar. Einn maður í hverjum bíl, nema þegar foreldrarnir aka krökkunum í grunnskólann, nokkra metra til og frá.

En enginn var skyldugur til að taka myntkörfulán og fólk tók þau á eigin ábyrgð.

Og á heimasíðu Kaupþings má til dæmis lesa eftirfarandi:

"Erlenda myntkörfulánið ber að öðru jöfnu lægri vexti en Fasteignalán en felur í sér gengisáhættu og vaxtaáhættu þar sem vextir eru breytilegir."

Og það er enn ein íslenska dellan að allir þurfi að eiga íbúðirnar sem þeir búa í. Leigumarkaðurinn fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu er alltof lítill og húsaleiga því lengi verið alltof há.

Útlendingar, sem hér búa, hrista að sjálfsögðu höfuðið yfir öllu þessu dellumakaríi, sem er Íslendingum sjálfum að kenna en ekki vondu fólki í útlöndum.

Þorsteinn Briem, 17.10.2008 kl. 11:26

2 Smámynd: Heidi Strand

Þegar landið fylltist af lánsfé, hagaði margt fólk sér eins og þeir höfðu fengið stóra vinninginn. En ekki allir eyddu um efni fram, en skuldirnar fáum við öll okkar hlutdeild í.

Heidi Strand, 17.10.2008 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband