21.10.2008 | 00:31
Ofþenslan gerir þetta verra.
Svo einkennilega sem það hljómar er þjóðin kannski verr undir það búin að takast á við áföll og eignamissi en ef hér hefði verið nokkuð eðlilegt ástand áður en hinn mikli skellur kom. Vegna ofþenslunnar og lánabrjálæðisins hefur verið byggt alltof mikið og mikið af því of stórt. Þess vegna er engin eftirspurn eftir húsnæði, heldur stefnir í offramboð af of stóru húsnæði sem selst ekki.
Fólk sem vildi geta dregið saman seglin og spara fasteignagjöld, hita, rafmagn og viðhald með því að selja og kaupa minna húsnæði í staðinn getur það ekki.
Það er hægt að gera ráðstafanir til að selja bíla úr landi, en allt of stór hluti þeirra er af dýrari gerðum sem ekki er markaður fyrir í samdrættinum í heiminum. Engin leið er að selja hús úr landi. Tónlistarhúsið er óseljanlegt og ekki hægt að minnka það.
Það er því alveg áreiðanlega rétt hjá Gunnari Þorlákssyni að atvinnuhorfurnar séu mun veri en gert er ráð fyrir. Vandræðin eru rétt að byrja.
Í sjónvarpsfréttum nýlega var fólk spurt um kreppuna 1929. Þar var nefnt skakkt ártal því að áhrifa kreppunnar fór ekki að gæta hér á landi að marki fyrr en ári síðar. Sumarið 1930 var vígt fullt af nýjum byggingum og nýjar stofnanir voru teknar í notkun og haldin fyrsta glæsihátíð landsmanna, Alþingishátíðin.
Stjórn íhaldsmanna hafði gert þau mistök að hækka gengi krónunnar (Seðlabankinn stóð að hinu sama undanfarin ár) og Jónas frá Hriflu og vinstri stjórnin fór út í mklar framkvæmdir.
Siðan kom skellurinn og átökin, svo sem Gúttóslagurinn 1932, og 1936 voru af því fregnir að landið rambaði á barmi gjaldþrots og hinir erlendu lánardrottnar, einkum Bretar, orðnir mjög órólegiir.
Kreppan náði nýjum botni 1939 vegna borgarastyrjaldarinnar á Spáni og lokunar saltfiskmarkaðarins þar. Kveldúlfur, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, fór á hliðina og mynda varð þjóðstjórn. Hambrosbanki í London hefði annars líklega getað heimt landið upp í skuld.
Stríðið og stríðsgróðinn bjargaði okkur úr snörunni en skóp hugsanlega þann brest "þetta reddast einhvern veginn" -hugsunarinnar sem alltaf hefur loðað við okkur. Við áttum stríðsgróðann ekki skilið þótt við misstum marga sjómenn og því síður Marshallaðstoðina. Kem að því nánar síðar.
Staðan verri en af er látið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Getur einhver sagt mér af hverju er betra að senda 5000 gamla bíla úr landi frekar en þá 5000 nýju sem standa á hafnarbakkanum eins og kom fram í fréttum rúv?
Sigurður Haukur Gíslason, 21.10.2008 kl. 01:37
Allir, sem eru reiðubúnir að vinna við hvað sem er, fá vinnu hér samdægurs, flestir vel menntaðir Íslendingar geta fengið vinnu í öðrum Evrópulöndum og útlendingar, sem flytja héðan, fá nú vinnu erlendis, samkvæmt útvarpsviðtali við fulltrúa Vinnumálastofnunar í dag.
Og tölvufræðingar, kerfisfræðingar og verkfræðingar, sem misst hafa vinnu í bönkunum, geta fengið aðra vinnu hér, enda hafa aðrar greinar átt erfitt með að keppa við bankana í launagreiðslum, sagði Gunnar Haugen, framkvæmdastjóri Capacent ráðninga, í útvarpsviðtali í dag.
Þjóðin er almennt mjög vel menntuð og hefur því mikla möguleika á að afla sér góðra tekna, bæði hérlendis og erlendis. Atvinnuleysi hér er nánast ekkert, verður trúlega innan við 2% nú í október, en var skráð um 1% í allri þenslunni.
Hámark atvinnuleysisbóta er nú 220.729 krónur á mánuði, miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu, en eftir þriggja mánaða tekjutengingu greiðast grunnatvinnuleysisbætur, 136.023 krónur á mánuði.
Mikill skortur er enn á starfsfólki í ýmsum greinum hér og í sumar störfuðu hérlendis um 17 þúsund útlendingar. Stór hluti þeirra, trúlega meirihluti, flytur nú aftur til útlanda, þannig að þó sjö þúsund manns yrði sagt hér upp störfum á næstu mánuðum, þýðir það engan veginn sjálfkrafa að hér verði sjö þúsund manns atvinnulausir á næstunni.
Og þær íbúðir, sem ekki hafa selst hér undanfarið, verða væntanlega seldar fyrir lægra verð en ella, eða leigðar út, en ekki látnar standa auðar, frekar en íbúðirnar sem Varnarliðið bjó í á Vallarheiði. Og þeir sem ekki ráða við að greiða af húsnæðislánum sínum gætu þá leigt þessar auðu íbúðir.
Íbúðalánasjóður getur einnig eignast íbúðir, sem fólk ræður ekki við að greiða af, og selt þær til annarra, eins og hann hefur áður gert. Og það er engin skömm að því að leigja íbúð eða verða gjaldþrota. Fólk verður það af ýmsum orsökum.
Sumir Íslendingar eru nú álitnir fjárglæframenn í útlöndum en það er langt frá því að útlendingar almennt hafi þessa skoðun á öllum Íslendingum. Erlendar þjóðir hafa lengi átt viðskipti við okkur en ekki eingöngu síðustu tíu árin. Hins vegar skortir okkur gjaldeyri en hann fáum við meðal annars að láni erlendis.
Þorsteinn Briem, 21.10.2008 kl. 04:38
Ómar,
Stóri misskilningurinn af útflutningstekjum af áli.
Var orðinn svo forvitinn eftir alla umræðuna undanfarið og lestur greinar Andra Snæs í Fréttablaðinu á Sunnudaginn að ég ákvað að kanna aðeins nánar allar þessar upplýsingar um útflutningstekjur.
Merkilegt frá að segja, þvert á fréttir af málinu þar sem virðist vanta ALLA gagnrýni, að ferðaþjónustan skilar þó nokkuð hærri tekjum og álið er ekki einu sinni hálfdrættingur á við Sjávarútveginn.
Sjá á http://baldvinj.blog.is
Baldvin Jónsson, 21.10.2008 kl. 09:20
"Hins vegar skortir okkur gjaldeyri en hann fáum við meðal annars að láni erlendis."
Síðustu árin höfum við lifað langt-langt um efni fram með ofurlántökum. Nú er því öllu lokið - við skuldum 12-15 falda árlega þjóðarframleiðslu . Öllum lánaleiðum hefu verið harðlæst. Nú er verið að semja um fátækralán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum okkur til nauðþurfta næsta árið eða tvö. Það lán á að greiðast á 3 árum með háum vöxtum.
Við lifum á því sem við framleiðum og engu öðru. Hluti af þessari framleiðslu er seldur úr landi og við fáum þannig lífsnauðsynlegan gjaldeyri til kaupa á erlendum varningi og greiðslu erlendra skulda.
Hin áþreifanlegu áhrif kreppunnar eru ekki komin fram sem neinu nemur ennþá- líklegt er að gríðarlegt atvinnuleysi verði í vetur og næsta árið með mikilli verðbólgu. Við erum á byrjunarreit kreppunnar og atvinna næg þessa dagana.
Sævar Helgason, 21.10.2008 kl. 09:35
Ég er nátturulega of ungur, til að vita neitt um sjálfa styrjöldina, en man vel þorskastríðið og þá fjöður sem Íslendingar hafa fengið í hattinn fyrir að standa sig með sóma og að sigrast á andstæðingi sínum með friðsamlegum hætti.
En það að Íslendingar ættu ekki marshall hjálpina skilið finnst mér ekki satt, og því síður að þeir ættu ekki skilið hagnaðinn af sigrinum. Ísland var, eftir allt, tekið hers höndum og var nánast aulalegt að ekki krefjast bóta, eða láta greiða fyrir hersetu á landinu. Hvað varðar gæslu og vernd landsins, þá er ekki hægt að meta það í peningum að bretar eða aðrir séu tilbúnir að senda börn sín til Íslands strendur og verja landið innrás.
Það finnast margar hliðar á þessum málum, en mér finnst persónulega ekki ástæða til að taka upp gamla sálma í þessu tilfelli. En mín persónulega skoðun er sú, að vegna smæðar hefði fólk átt að vera á bandi lítilmagnans og átt að standa vörð um mannréttindi, heldur en hitt. En það er orðið of seint að kveða þá vísu, úr því sem komið er. En það er ekkert að því að vona hið besta, það gera allir.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 11:12
Ómar: Alveg hárrétt hjá þér.
Sævar: Auðvitað var hluti þeirra lána, sem tekin voru erlendis notuð í neyslu hér á landi. Hins vegar eru þessi neyslulán, skv. fréttum aðeins 15% af heildarskuldum bankanna, en afgangurinn var það, sem einstaklingar og fyrirtæki keyptu hlutabréf fyrir hér og erlendis.
Það hefur pirrað mig frá því í sumar, þegar forsætisráðherra skellti skuldinni nær einvörðungu á þjóðina og neyslufyllerí hennar undanfarin ár. Þótt sannleikskorn sé í því, þá er það langt frá því að vera sannleikurinn.
Margir Íslendingar höfðu skipulagt fjármál sín ágætlega og áttu fyrir reikningum sínum og rúmlega það. Áður en þessi vitleysa byrjaði átti ég 60% í húsinu mínu , var með engin neyslulán, séreignarsparnað hjá Allianz í Þýskalandi, en var með eitt bílalán í erlendri mynt upp á ca. 3 milljónir. Ég er í vinnu hjá ríkinu og því með þokkalegar öruggar tekjur. Reksturinn á mínu heimili var til fyrirmyndar og ég sæmilega stæður maður og þokkalega sáttur við lífið og tilveruna.
Eins og hendi væri veifað hafa allar forsendur breyst og ég uppgötva að ég og þjóðin öll, börn mín og barnabörn höfðu skrifað aftan á víxil, sem var upp á 12 falda þjóðarframleiðsluna og fer hækkandi!
Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þessa mynt og þetta óöryggi lengur. Þjóðin krefst stöðugleika og hann verður best tryggður með ESB aðild og upptöku evru.
Að auki vil ég fá að sjá þennan víxil og menn skulu sanna að ég skrifaði upp á hann, t.d. með upptökum eða vitnum!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 11:15
Búkolla baular:
Þó ég eigi sennilega að heita hámenntaður, er ég sammála þér. Þetta á þó sérstaklega við um viðskiptafræði og hagfræði og nokkrar aðrar ágiskunarfræðigreinar, t.d. fiskifræði.
Ég er reyndar stjórnsýslufræðingur, en þurfti að taka kúrsa í hagfræði í námi mínu auk þess sem ég sat í tímum í þessu í fjögur ár í Verslunarskóla Íslands. Við fórum ekki djúpt í hlutina, en nógu djúpt til að sjá að í raun var allt byggt á einhverskonar "módelum" og minna á raunveruleikanum. Nýlegir atburðir sýna okkur að raunveruleikinn kemur þessum fræðimönnum jafnmikið á óvart og okkur hinum.
Þarna er um háskólagreinar, sem klæddar hafa verið í "fræðilegan" búning! Þetta var gert með allskyns fáránlegum módelum, sem í raun hafa enga tengingu við raunveruleikann.
Niðurstaðan er síðan að aftur og aftur eru setta fram einhverar "teóríur" um fljótandi gengi, fast gengi eða að viðskiptahalli sé góður eða afleitur, lækka eigi skatt við þessar aðstæður eða hækka skatta við aðrar aðstæður. Fræðimenn eru aldrei sammála um neitt af framangreindum atriðum. Það er heldur ekki að undra, þar sem um tómar getgátur er að ræða.
Robert Z. Aliber, professor emeritus við háskólann í Chicago, hafði þannig á réttu að standa um bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins.
En hann hafði einnig á réttu að standa um sjálfan sig og aðra fræðimenn í þessum bransa.
Ég er með þessu ekki að segja að viðskiptafræðingar og hagfræðingar séu gagnslausir fáráðlingar - öðru nær- heldur er ég að segja að taka beri niðurstöðum þeirra með vissri varfærni, líkt og hjá öðrum ágiskunar vísindamönnum, t.d. fiskifræðingum!
Þetta hefur
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.10.2008 kl. 12:43
Sævar. Það er engan veginn rétt hjá þér að við lifum eingöngu á því sem við "framleiðum". Við fáum gjaldeyri fyrir útflutning á bæði vörum og þjónustu.
Þið Guðbjörn, gömlu skrjóðarnir, sjáið ekkert nema það sem þið getið þreifað á með bundið fyrir bæði augu. (Ef hægt er að sjá eitthvað með bundið fyrir augun.)
CCP á Grandagarði selur nú tæplega 300 þúsund erlendar áskriftir að tölvuleiknum (Netleiknum) EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði, sem nægir til að greiða laun og launatengd gjöld allra verkamanna í álverunum á Grundartanga, í Hafnarfirði og við Reyðarfjörð. Einn Netleikur, strákar, mínir. Hvernig ætlið þið að þukla hann og kjassa?!
Og þið tókuð nú aldeilis erlend lán út á allan þorskinn ykkar og ýsuna, strákar mínir!
Á vef Financial Times sagði í gær að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn muni að öllum líkindum lána Íslandi um sex milljarða Bandaríkjadala, um 684ra milljarða króna, miðað við um 114 króna skráð gengi á Bandaríkjadal í dag. Og þar af muni um einn milljarður dala koma frá seðlabönkum á Norðurlöndunum en afgangurinn frá Japan.
Nettóstaða erlendra skulda var hér í árslok 1991 um 174 milljarðar króna, eða 47% af landsframleiðslunni, og þetta hlutfall hafði þá farið vaxandi frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar. En verg landsframleiðsla var hér í fyrra um 1.293 milljarðar króna. Þetta 672ja milljarða króna lán Alþjóða gjaldeyrissjóðsins yrði því um helmingur af landsframleiðslunni hér í fyrra en erlendar skuldir ríkissjóðs voru nánast engar í haust.
Útflutningur á þjónustu er til dæmis ferðamannaþjónusta og hálf milljón erlendra ferðamanna keyptu hér vörur og þjónustu fyrir 50 milljarða króna í fyrra í erlendum gjaldeyri.
Erlendir ferðamenn kaupa hér að sjálfsögðu mat og íslenskur landbúnaður framleiðir um helming þess matar sem við neytum, segir formaður Bændasamtakanna. Matur, sem útlendingar kaupa hér fyrir erlendan gjaldeyri, er því útflutningur á íslenskum landbúnaðarvörum. Og útlendingar snæða hér einnig íslenskan fisk, að sjálfsögðu.
Og þeir kaupa hér gistingu og transportasjónir út um alla koppagrundir, ítem til og frá landinu, sem til dæmis Icelandair selja þeim. Og vegna gengisfalls krónunnar undanfarið og til dæmis tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves í síðustu viku hefur erlendum ferðamönnum fjölgað hér gríðarlega undanfarið.
Og starfsfólk Icelandair í Kaupmannahöfn hefur ekki undan að selja Dönum ferðir til Íslands, því þeir ætla að gera jólainnkaupin hérlendis. Dömustígvél, sem kosta um 15 þúsund íslenskar krónur hér, kosta nú um 30 þúsund krónur í Danmörku, tvisvar sinnum ódýrari hér.
Erlendir ferðamenn þurfa að sjálfsögðu á þjónustu mörg þúsund Íslendinga að halda, til dæmis leigubílstjóra, rútubílstjóra, flugmanna, flugfreyja, starfsfólks hótela og veitingahúsa, verslana og leiðsögumanna, og allt þetta fólk greiðir að sjálfsögðu tekjuskatt.
Þar að auki sparast nú gríðarlegar fjárhæðir hér í erlendum gjaldeyri, þar sem Íslendingar fara ekki lengur í stórum stíl í sólarlandaferðir og innkaupaferðir til útlanda. Og við getum allt eins litið á þennan sparnað sem innflutning á gjaldeyri fyrir marga milljarða króna á ári.
Þar að auki veldur það húðkrabbameini og hrukkum að hanga á sólarströndum. Og er nú ekki á það bætandi hjá gamla fólkinu, mestu eyðsluseggjum Íslandssögunnar, sem fékk flottu einbýlishúsin sín að gjöf, þegar verðbólgan var hér allt að 80% en vextir tugum prósenta lægri, andvirði 20 þúsund þriggja herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu, eins og það var reiknað út fyrir margt löngu.
Þorsteinn Briem, 21.10.2008 kl. 15:01
Það er viðurkennd sagnfræðileg staðreynd að Marshallaðstoðin var veitt svo ríkulega til Íslendinga til þess að hamla gegn hættunni á því að bandaríkin misstu ítök sín hér á landi.
Hernámið 10. maí 1940 var merkasti atburður síðustu aldar. íslendingar í flugvallalausu landi mjórra malarvega og vegarslóða stukkur úr því að vera við gjaldþrotsbarm í atvinnuleysi upp í það að hafa hér bullandi atvinnu og stórauknar tekjur af hernámsframkvæmdunum.
Stríðslok voru hér tveir alþjóðaflugvellir, annar meðal þeirra stærstu í heiminum. Fyrir stríðsgróðann var hægt að endurnýja togaraflotann og mikið af framleiðslufyrirtækjum landsins. Á sama tíma og aðrar þjóðir létu sér nægja að kaupa sér reiðhjól fluttum við inn fleiri nýja bíla 1946 og 1947 en nam samanlögðum bílaflotanum til þess tíma.
Margt fleira mætti telja upp um þetta og ég hyggst taka nánar fyrir siðferðalega hlið þess síðar.
Ómar Ragnarsson, 21.10.2008 kl. 15:15
Jamm, og með "gömlu fólki" á ég að sjálfsögðu ekki við Íslendinga sem fæddust um aldamótin 1900, til dæmis móðurafa minn, sem lifði öldum saman, fæddist í torfkofa í Svarfaðardalnum árið 1899 og lést um síðustu aldamót, árið 2000.
Þetta "gamla fólk", aldamótakynslóðin, var mjög sparsamt en það er nú allt fallið frá. Afi tók alltaf strætó þegar hann bjó hér í Reykjavík, eldaði sjálfur og þreif íbúðina, sem hann bjó í. Var ekki í vafa um tilvist álfa og þvargaði um þá við dómkirkjuprestinn í fjölskylduboðum. Skar út spegla og myndaramma í kreppunni um 1930. "Já, tölvurnar, maður, tölvurnar, þær eru framtíðin," sagði afi um síðustu aldamót og bauð rúgbrauðssneið með sméri og osti.
Þorsteinn Briem, 21.10.2008 kl. 16:54
Kannski fær "Miklihvellur" nýja merkingu, eftir þessi ósköp sem dunið hafa yfir okkur að undanförnu.
Robert Z. Aliber, prófessor, gagnrýnir Seðlabankann á Íslandi. En hvað með þessa hringavitleysu í USA? Undirmálslánin þar, sem í raun hafa komið þessari skriðu af stað? Gagnrýnir hann þau, eða er þægilegra að vera með háðsglósur í garð annarra?
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.10.2008 kl. 17:08
Já, ég tek undir með þér, Gunnar, að Bandaríkjamenn í krafti fjármálalegrar stærðar sinnar, komast alltof vel hjá því að komast hjá ábyrgðinni af því að vera miðjan og aflið í fellibylnum.
Ómar Ragnarsson, 21.10.2008 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.