Það sem flestir nefna.

"Ekki benda á mig" sagði varðstjórinn í lagi Bubba og það er rauði þráðurinn í því sem allir segja nú sem tengjast hruni íslensks fjármálalífs. Margt á líklega enn eftir að koma í ljós sem varpað getur nánara ljósi á það en samt er það undarleg tilviljun hvað langflestir nefna og hafa sumir hverjir nefnt síðustu ár, en það er krónan og stefna Seðlabankans.

Sú stefna, stýrivexitir og afnám bindiskyldu þýddi óraunhæfa uppskrúfun á háu gengi krónunnar sem leiddi af sér óðainnflutning, lántökur og skuldsetningu til eyðslu og þenslu auk krónubréfanna sem hengu beinlínis eins og bensínbrúsar yfir þenslubálinu. Margir af færustu kunnáttumönnum okkar bentu á þetta æ ofan í æ en ekkert gerðist.    

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er sagt að ekki verði gerð breyting á þessu nema með samþykki Sjálfstæðisflokksins. Og hvað þýðir það? Að það þurfi að bíða til 2011 til að Sjálfstæðisflokkurinn muni að lokum fá þá útreið í kosningum að það þurfi ekki lengur samþykki hans? 

 


mbl.is Krónan stærsta vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Nei Ómar. Það verður ekki beðið til 2011. Allar forsendur sem lagðar voru til grundvallar í kosningunum 2007 eru gjörbreyttar. Það getur enginn stjórnmálaflokkur í raun haldið því fram eins og málum er nú háttað að hann hafi í raun umboð kjósenda til að stjórna landinu.

Þegar nauðsynlegum lífgunartilraunum er lokið þarf að efna til kosninga, sem allra fyrst. Áður en það gerist þyrfti þó að undirbúa stjórnarskrárbreytingar til að opna fyrir möguleika á inngöngu í ESB. Einnig bæri að afnema 5% regluna sem sett var til höfuðs nýjum stjórnmálahreyfingum og var notuð sem áróðurstæki gegn Íslandshreyfingunni í síðustu kosningum.

Sigurður Hrellir, 26.10.2008 kl. 00:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil bæta því við að ég á eftir að sjá það að Sjálfstæðisflokkurinn geti haldið þjóðinni í gíslingu í tvö og hálft ár á tímum sem maður man ekki að hafa upplifað fyrr, að í viðtölum við fjölda fólks skynjar maður hvernig fylgið hrynur af flokknum.

Nema að enn einu sinni treysti forráðamenn hans á "gullfiskaminni" kjósenda eins og það er stundum kallað og fólst meðal annars í því að í skoðanakönnun fyrir kosningarnar 1987 komst flokkurinn niður í 25% fylgi á sama tíma og Borgaraflokkurinn rauk upp en tókst síðan að fá fólk til að ganga inn á gamla básinn sinn á kjördegi.

En þá lágu ekki tugþúsundir fólks sært á vígvelli fjármála hrunsins. Það er stundum sagt að fólk kjósi með veskinu en ég fæ ekki séð að það verði svo digurt næstu misserin að flokkurinn sem hefur verið samfellt við völd í 17 ár geti firrt sig ábyrgð á því hvernig komið er.

Á hverjum degi þegar fólk fer í búð eða veltir veskinu á milli handanna verður það minnt á það sem hefur gerst.  

Ómar Ragnarsson, 26.10.2008 kl. 01:20

3 identicon

Sú ákvörðun Geirs að styðja og lýsa yfir trausti á vanhæfum seðlabankastjóra er líklega hans pólitíska harakiri.

Hann er hinsvegar í erfiðri aðstöðu því að það er öllum ljóst að það var Davíð sem stjórnaði atburðarrásinni síðustu helgina í september og tók þá tröllvitlausu ákvörðun, með málamynda samþykki Geirs, að þjóðnýta Glitni.  Geir var aukaleikari í þeirri uppfærslu, en engu að síður hlítur hann að sama skapi að teljast vanhæfur.  Fjármálaráðherran hann Árni var einungis statisti,  en það þarf fáum að koma á óvart.

Afleiðingarnar voru skefliilegar eins og allir vita, en svona getur gerst þegar óvitar eru að leika sér með eldspýtur. 

Sjálfstæðisflokkurinn er tvístraður og annaðhvort verður mikil uppstökkun í flokknum eða hans bíður afhroð næst þegar kjósendur gera upp hug sinn.

Fannar (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband