2.11.2008 | 13:05
Of miklar sveiflur.
Í áttatíu ár hefur jafnvægi á fjölmiðlamarkaðnum verið af skornum skammti. Alla tuttugustu öldina báru dagblöð sem voru beint og óbeint á vegum Sjálfstæðisflokksins ægishjálm yfir hin dagblöðin. Alþýðublaðið átti góðan sprett á fjórða áratugnum undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og Tíminn upp úr 1960 undir stjórn Hauks Snorrasonar, Tómasar Karlssonar, Jóns Helgasonar og Indriða Þorsteinssonar.
Dagblaðið og seinna DV komu sterk inn eftir 1975 en mestalla öldina voru Morgunblaðið og Vísir með meirihluta markaðarins langt umfram fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Í aldarlok var svo komið að gömlu flokksblöðin Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið höfðu lagt upp laupana og Sjálfstæðisflokkurinn hafði tröllatak á báðum þeim dagblöðum sem eftir voru, Morgunblaðinu og DV. Aldrei í áttatíu ár hafði slagsíðan aldrei verið meiri á dagblaðamarkaðnum.
Þá hefði verið þörf fyrir atbeina löggjafarvaldins. En ríkjandi valdamenn létu sér þetta vel líka.
Þá gerist það að Fréttablaðið er stofnað og leikar jafnast á ný og höfðu aldrei fyrr verið jafnari.
En hvað gerist þá? Davíð Oddsson keyrir fram fjölmiðlafrumvarp sem augljóslega var beint gegn þessu ástandi. Þetta var synd, því að alla tíð hafði verið þörf á löggjöf til að sporna við slagsíðu á dagblaðamarkaðnum.
Með þessu gerði Davíð mikið ógagn, kom öllu í uppnám og eyðilagði fyrir því að hægt væri að koma á fót nauðsynlegum og eðlilegum lagaramma um fjölmiðlamarkaðinn.
Þjóðin skynjaði hinn raunverulega tilgang með fjölmiðlalögunum og því féllu þau fyrir atbeina hennar (skoðanakannanir) og forsetans. Eftir þann slag hefði þurft að stokka spilin upp á nýtt eftir að öldur lægði og setja nauðsynleg og skynsamleg fjölmiðlalög.
Nú blasir við ný staða í eignarhaldi á fjölmiðlum og ein sveiflan enn. Hvað sjónvarps og útvarpsmarkaðinn snertir er mjög mikils virði að Ríkisútvarpið sé ekki einrátt og því yrði það skref afturábak, aftur fyrir 1986, ef einkareknu útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar dæu drottni sínum.
Það er heldur ekki æskilegt að dagblöðin fari á hliðina. En skoðun mín hefur verið sú allt frá því er ég fyrst skynjaði veruleika dagblaðamarkaðarins fyrir 60 árum að slagsíðu í eignarhaldi og áhrifum á fjölmiðlana beri að forðast.
Með því er ekki tekin afstaða til þess, hverjir hafa þessi áhrif eða dómur um það hvort þeir misbeiti þeim, heldur er hér fyrst og fremst nauðsynlega undirstöðu lýðræðisþjóðfélags.
Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hverju orði sannara hjá þér.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.11.2008 kl. 13:17
heyr heyr
Óskar Þorkelsson, 2.11.2008 kl. 13:25
Það eru nákvæmlega sömu fréttir á Stöð 2 og í Sjónvarpinu.
Á Mogganum hafa síðastliðna áratugi verið blaðamenn sem hafa kosið marga flokka og þeir eru ekkert endilega sammála leiðurum blaðsins. Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn voru flokksblöð.
Mogginn hefur gagnrýnt eigendur sína, til dæmis manninn í röndóttu náttfötunum, Gatsby the Great.
Aðalfréttin á forsíðu Fréttablaðsins undir stjórn Þorsteins Pálssonar þegar Glitnir hrundi í haust og flugumenn Sjónvarpsins höfðu norpað fyrir utan bankana alla nóttina var Lifur með brúnni sósu er sælgæti.
Þorsteinn Briem, 2.11.2008 kl. 14:07
Samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði er minnsta áhyggjuefnið núna.
Það er miklu alvarlegra að menn sem eru búnir að gera heila þjóð gjaldþrota geti keypt fyrirtæki (sín eigin og annarra) eins og greifar, en sagt komandi kynslóðum að borga spilaskuldir sem þeir hafa stofnað til úti í heimi.
Theódór Norðkvist, 2.11.2008 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.