Pukur og lygar ráðamanna með rúið traust.

Þetta eru stór orð en það þarf ekki annað en að rekja stanslaus ósannindi ráðamanna allt frá í mars í vor, nú síðast varðandi tengsl Icesafe reikinganna við gereyðiagt traust og orðstír Íslands til að sjá að engin önnur orð er hægt að nota,

Framkvæmdastjóri þess frábæra útrásarfyrirtækis Össurar sagði í útvarpsfréttum það sem öllum er ljóst innanlands og utan og ég reyndi að lýsa í Silfri Egils í gær, að íslenskir ráðamenn og þjóðin þar með eru rúnir öllu trausti erlendis og áframhaldandi seta þeirra allra er endanleg sönnun þess fyrir erlendar þjóðir um víða veröld, að Íslendingum sé ekki við bjargandi.

Íslenskir ráðamenn standa beinlínis í vegi fyrir því að endurreisn geti hafist á leið okkar til virðingar, sóma og viðskiptavildar, sem meta má til lengri tíma litið til tugþúsunda milljarða króna, ef menn vilja endilega leggja peningalegan mælikvarða á það sem skiptir þó meira máli en peningar.

Veruleikafirring þeirra og afneitun leiðir til sífellds undanhalds og undanbragða, tilviljanakenndra viðbragða í stað þess að viðurkenna vandann refjalaust og byggja upp á þeim grundvelli frumkvæði og raunhæfar aðgerðir.

Nú berst til okkar með krókaleiðum erlendis frá að í utanríkisráðuneytinu sé í leyni sé búið að gera drög að umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Íslandshreyfingin taldi fyrir síðustu kosningar eðilegt að slík umsókn og samningsmarkmið yrðu unnin til þess að geta gripið til þeirra ef þjóðinni teldi nauðsynlegt að láta á slíkt reyna. Þetta ætti auðvitað að gera í tengslum við djúpa, ítarlega og opna umræðu en ekki í einhverju pukri og leynd inni í ráðuneyti.

Á hverjum degi koma nýjar fréttir sem minna okkur á það hve djúpt ráðamenn eru sokknir og þar með við öll í augum umheimsins. Það hefur verið dapurlegt að þurfa að benda á þetta nær daglega í bloggpistlum mínum.

En kannski leiðir þetta til góðs. Áfengisfíklar hafa sumir þakkað endurreisn sína því að þeir sukku nógu djúpt til þess að augu þeirra opnuðust. En það gat ekki gerst án álgerrar kúvendingar og endurmats á lifsgildum.


mbl.is Drög lögð að umsókn um ESB-aðild?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

það er með ólíkindum hvað þeir komast upp með þessa lygi og bæta bara í lygabrosið ofan á allan annan ÓSÓMA.

Baráttukveðjur.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 14:02

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Íslendingum er nú boðið að dreypa á banvænni blöndu, sannkallaðri eiturkokdillu. Uppskriftin er einföld, háir stýrivextir, verðbólga og verðtrygging. Venjulegur launamaður sem heldur vinnu sinni og óskertum launum, á sína íbúð og bíl, mun á næstunni fá að smakka á þessari eiturblöndu. Áhrifin eru sterk, hækkun framfærslukostnaðar, verðlækkun eigna og hækkun á skuldabyrði. Þeir sem nú þegar hafa misst vinnuna fá sterkari blöndu sem veldur skjótu eignatapi. Og landsmenn verða að drekka sullið - það er enginn annar valkostur. Nema menn kjósi að yfirgefa svæðið.

Eða kjósi nýja leið - hið Nýja Ísland.

Nýja Ísland rúmar ekki flokkana sem skipulögðu helmingaskiptatregluna. Þar verður ekki pláss fyrir flokkinn sem stýrði hlerunarstarfseminni, ekki pláss fyrir flokkinn sem stjórnaði hernaðinum gegn landinu, ekki fyrir flokkana sem skrifuðu uppá Íraksstríðið, stjórnuðu einkavinavæðingunni og tilraun til að eyðileggja dómskerfið með pólitískum skollaleik við skipan dómara. Og hér er ekki allt svikaregistrið upp talið.

Hið Nýja Ísland er land þar sem þing og þjóð nær samstöðu - þar verða rafrænar þjóðaratkvæðagreiðslur notaðar til þess að veita aðhald. Þar ríkir raunverulegt lýðræði. Spurning dagsins er: Hvernig náum við til þessa nýja lands?

Hjálmtýr V Heiðdal, 17.11.2008 kl. 14:22

3 Smámynd: Hinrik Þór Svavarsson

nú er kominn tími á aðgerðr segir kreppukall og tek ég heilshugar undir það ... verkalýðshreyfingin á blása til vinnustöðvana í svona eins 2 daga og mótmæla kröftuglega fyrir framan alþingi meðan þingfundur stendur yfir.. okkur verður sagt að það megi ekki stöðva hjól efnahagslífsins en oft var þörf en nú er nauðsyn .. við borgarar þessa lands sem liggjum hlekkjuð undir skuldafeninu verðum að horfast í augu við óttann og láta ráðamenn vita að þeir ráðskast ekki með okkur lengur!!!

Nú má ekki draga í land heldur gefa ó botn!!!!

Hinrik Þór Svavarsson, 17.11.2008 kl. 14:34

4 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Hinrik, ég held að það beri lítinn árangur að mótmæla við Alþingishúsið.  Það er engin umræða um þessi mál þar.  Það er makkað um þau í stjórnarráðinu í skjóli nætur.

Sigríður Jósefsdóttir, 17.11.2008 kl. 16:33

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Það tekur tíma fyrir fólk að átta sig á hvað þetta er stórt dæmi. Alveg risavaxið. Áætluð lánsfjárþörf er nú sögð 3.400 milljarðar til ársins 2010.

Þetta er samanlagt verðmæta alls íbúðarhúsnæði á Íslandi, sem nú er spáð að lækki um helming. Nú eða verðmæti alls þorskafla sem veiðist í íslenskri lögsögu næstu 68 árin (að gefnum forsendum sem ég notaði í bloggi um IceSave skuldina, umreiknaða í þorskafla).

Ég held að ekkert okkar geti sagt fyrir um hvernig umhorfs verður á Íslandi eftir tvö ár. Þú hafðir lög að mæla í Silfrinu um hið horfna traust og ég vona að draumsýn Hjálmtýs hér að ofan um samstöðu þings og þjóðar rætist.

Haraldur Hansson, 17.11.2008 kl. 18:36

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Sæll Ómar,

Mig langar að koma með smá tillögu en það var ómögulegt að finna netfangið þitt. Mér þætti vænt um ef þú gætir send mér það.

Með bestu kveðju,
Gunnar H. Eysteinsson
eysteinsson@compaqnet.se

Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.11.2008 kl. 20:00

7 identicon

Get ekki verið meira sammála þér, Ómar  - eins og þetta með orðstírinn og að ráðamenn séu rúnir öllu trausti. Og svo þetta með undanhald, undanbrögð og tilviljanakennd viðbrögð sem hafa einkennt stjórnarstílinn undanfarinn mánuð og lengur. Að ógleymdu öllu pukrinu og leynimakkinu. Það er forkastanlegt t.d. að stjórnarandstæðan þurfi að frétta allt varðandi vanda okkar utan úr heimi eða úr DV, ferlegt að upplýsa hvorki almenna alþingismenn og okkur Íslendinga um fyrirætlanir og úrræði. Þetta veldur reiði og sárindum. Tek undir þetta sem þú segir um opna og ítarlega, djúpa umræðu, þ.e. ekki bara bak við luktar dyr í nokkurs konar leynimakki, heldur opinberlega. Við Íslendingar erum ekki aular, en það er eins og skilaboð stjórnarinnar séu þau. Með veruleikafirringuna, það er staðreynd að um ákveðna veruleikafirringu sé að ræða þegar t.d. forsætisráðherra og fleiri stjórnarliðar afneita því að orðstír Íslendinga út í heimi hafi beðið hnekki. Alltaf gott að lesa bloggið þitt, Ómar.

Nína S (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband