23.11.2008 | 09:42
14% kjósenda án þingfylgis?
Ýmislegt athyglisvert kemur út úr skoðankönnun Fréttablaðsins fyrir utan fylgisleysi ríkisstjórnar sem hefur gumað af sjálfri sér daglega vikum saman í fjölmiðlum.
Helmingur Samfylkingar styður ekki ríkisstjórnina.
Tæp 14% aðspurðra falla í þrjá minnstu fylgisflokkana, og þeirra á meðal er Framsókn með aðeins 6,3% og er þó í stjórnarandstöðu. 4,3% styðja Frjálslynda flokkinn, sem ekki virðst heldur græða á því að vera í stjórnarandstöðu og næði ekki inn manni vegna þess að tilskilið er að framboð fái minnst 5% á landsvísu til að fá þingmann.
Ef þessi 14% myndu skiptast jafnt á milli þessara þriggja myndi þetta fylgi, sem samsvarar um 25 þúsund kjósendum ekki fá neina þingmenn vegna þess að tilskilið er að framboð fái minnst 5% á landsvísu til að fá þingmenn. Glæsilegt lýðræði það?
Efstu menn á listum Sjálfstæðismanna, Samfylkingar og VG þurfa ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni því að kjósendur eiga ekkert val um þá í kjörklefanum, heldur geta aðeins refsað fótgönguliðum neðar á listunum sem sveiflast út og inn á kosninganótt.
Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði á borgarafundi að ráðamenn gætu gert og sagt hvað sem er því að kjósendur létu þá komast upp með það. Þetta er ekki alls kostar rétt. Kjósendur eiga enga möguleika í kjörklefunum til að hagga við þeim.
Undantekningar í síðustu kosningum voru Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz vegna slæmrar útkomu Framsóknar á höfuðborgarsvæðinu.
En efstu menn á listum Sjálfstæðisflokksins, til dæmis í Reykjavík, hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af stöðu sinni í 79 ár frá stofnun flokksins og þess vegna hafa kjósendur fyrir löngu gefist upp og láta þá komast upp með hvað sem er.
Það er sáraauðvelt að breyta þessu öllu, sem að ofan er sagt, en stóru flokkarnir hverju sinni mega ekki heyra það nefnt.
31,6% stuðningur við stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er deginum ljósara að núverandi kosningafyrirkomulag er hvorki réttlátt né lýðræðislegt. Eins og málum er nú háttað gæti helmingur þjóðarinnar í raun ekki átt sér neina málsvara á Alþingi.
Í fyrsta lagi ætti landið allt að vera eitt kjördæmi. Það að hafa 3 kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu og 3 á landsbyggðinni nær ekki nokkurri átt. Undarlegir hókus-pókus útreikningar ráða því svo hverjir hljóta þingsæti og hverjir ekki.
Í öðru lagi þyrfti að vera hægt að kjósa menn jafnt og flokka. Það mætti t.d. ákveða að hver kjósandi hefði 10 punkta til umráða og mætti krossa við a.a. 10 nöfn. Þannig væri líka hægt að velja fólk úr fleiri flokkum en einum eða utan flokka. Með rafrænni kosningu ætti þetta ekki að vera tæknilega erfitt.
Í þriðja lagi ætti að fækka þingmönnum um helming. Þannig næðist mikill sparnaður og skapaðist færi fyrir fulltrúa á Evrópuþingi ef Íslendingar sæktu um aðild á næstu árum.
Síðast en ekki síst þarf nauðsynlega að afnema 5% regluna sem takmarkar aðkomu nýrra stjórnmálaafla. Sú regla var sett af gömlu flokkunum til þess eins að tryggja þá sjálfa í sessi.
Því miður er augljóst að sitjandi stjórnmálaflokkar munu ekki færa kjósendum sanngjarnt kerfi. Það gæti hins vegar utanþingsstjórn sem sæti fram að kosningum haft frumkvæði að auk endurskoðunar stjórnarskrár og annarra brýnna mála sem liggja fyrir.
Sigurður Hrellir, 23.11.2008 kl. 12:52
Ómar - maður eins og þú sem sóttir milljónir í vasa Landsvirkjunar til þess að búa til áróðursmynd til stuðnings þínum málstað (hver sem hann er annar en sá að sníkja fé ) og ert búinn að fá rassskell í kosningum átt að sjá sóma þinn ( ef einhver er ) í því að hætta að misnota aðstöðu þína innan fjölmiðla í þeim tilgangi að rangtúlka staðreyndir. Skoðaðu fylgið þitt.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 23.11.2008 kl. 14:13
Ólafur Ingi, Landsvirkjun hóf þennan leik, ekki ég. Hún hafði varið 56 milljónum króna í heimildamynd um Kárahnjúkavirkjun þar sem langstærstu framkvæmdirnar, drekking yfir 60 ferkílómetrum lands og uppþurrkun tuga fossa var ekki kvikmynduð eða sýnd í eina einustu mínútu.
Þú telur sem sagt að þessi notkun á almannafé hefði verið rétt og á þennan hátt hið besta mál að leyna stærsta "mannvirkinu", lónunum þremur og fossadrekkingunni ásamt fleiri. Þú telur greinilega að þessar 56 milljónir hefði ekki verið notaðar til að búa til "áróðursmynd" heldur rétt gögn um þessa stærstu framkvæmd Íslandssögunnar.
Þú telur líka rétt og að enginn áróður hafa verið fólginn í því að sýna afraksturinn af þessari kvikmyndagerð, alls níu hálftíma langar heimildarmyndir, í sjónvarpi á kostnað almennings.
Meirihluti myndaðist hins vegar í stjórn Landsvirkjunar fyrir öndverðri skoðun, sem sé þeirri, að það yrði til skammar um aldur og ævi ef stærsta hluta framkvæmdanna yrði leynt fyrir komandi kynslóðum.
Stjórn fyrirtækisins bætti 14% við fjárveitinguna til þess að ég fengi að klára þetta ókláraða verk úr því að enginn annar hafði áhuga á því.
Stjórn Landsvirkjunar áttaði sig á því að hún var í þjónustu fyrir alla landsmenn en ekki aðeins fyrir þig og þín skoðanasystkin sem teljið rétt að nota opinbert fé upp á 56 milljónir króna í kvikmyndagerð þar sem á grófan hátt er misfarið með staðreyndir sem varða Íslendinga og allt mannkynið um alla framtíð.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2008 kl. 15:24
Til viðbótar þessu get ég upplýst að þessi fjárveiting Landsvirkjunar dugar aðeins fyrir hluta af kostnaði við þessa kvikmyndagerð svo að Ólafur Ingi kallar að "sníkja fé." Með því er hann ekki aðeins með aðdróttanir gagnvart mér heldur einnig þeim kvikmyndagerðarmönnum sem taka að sér að gera heimildarmyndir og þurfa að "sníkja fé" til þess.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2008 kl. 15:28
Að sjálfsögðu á landið að vera eitt kjördæmi, fimmtíu þingmenn er nóg í því örríki sem Ísland er og engin ástæða til að vera með einhverja 5% reglu, nema þá til þess að Sjálfstæðisflokkurinn komi manni á þing í næstu kosningum.
Þorsteinn Briem, 23.11.2008 kl. 15:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.