26.11.2008 | 20:41
Þrír þingmenn rumska.
Ástandinu á Alþingi í haust hefur verið lýst þannig að þar hafi setið aðgerðarlítill þingheimur að fjalla um ótal smærri mál en verið fjarri þeim málum sem mestu máli skipta. Þingheimur hafi jafnan beðið eftir því að fá frumvörpin sent úr ráðuneytunum og þau hafa síðan "runnið hratt í gegn í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna" eins og það var orðað í sjónvarpi í kvöld.
Nú hefur kviknað lífsmark með þremur af fjórum þingmönnum Frjálslynda flokksins sem hafa lagt fram frumvarp um það að krónan verði tengd við norsku krónuna.
Skömmu eftir bankahrunið var forsætisráðherra Noregs spurður um þetta í kjölfar umleitunar Steingríms J. Sigfússonar og svaraði ráðherrann því til að það kæmi ekki til greina.
Ég hef ekki spurt þingmenn Fjálslynda flokksins að því af hverju þeir haldi að svarið verði á aðra lund nú. Kannski halda þeir að Norðmenn muni frekar taka formlegri beiðni á jákvæðari hátt en spurningunni fyrr í haust.
Þeir virðast hafa gert ráð fyrir þeim möguleika að svar Norðmanna yrði aftur neikvætt og að þá kæmi til greina að taka upp evru með eða án samvinnu við ESB. Svörin um það efni voru neikvæð hjá ESB-fólki fyrr í haust og ef ég man rétt var eitt svarið á þá lund að slíkt yrði tekið mjög óstinnt upp þar á bæ.
Nú er vitað að nokkur lönd, svo sem Svartfjallaland, hafa gert þetta og að þetta er tæknilega mögulegt. Hins vegar vaknar spurningin um það hvort afstaða ESB verði nokkuð öðruvísi ef við förum út í svona nú og hvort svona beinar umleitanir muni jafnvel valda óróa í samskiptum okkar við þjóðirnar sem hafa tengst svo náið þeim aðgerðum sem þegar hafa verið ákveðna.
Ég á því varla von á því að stjórnarmeirihlutinn muni taka vel í þessar hugmyndir þingmannanna þriggja sem hafa nú rumskað eftir langa fjarveru frá mótun mála.
Það vekur athygli að Kristinn H. Gunnarsson er ekki samferða flokksfélögum sínum. Hann virðist vera að nálgast þann hring á ferli sínum að fara úr stjórnarandstöðu í átt til stjórnarliðsins líkt og forðum þegar hann fór úr Alþýðubandalginu í stjórnarandstöðu yfir til Framsóknar sem var þá í stjórn.
Vilja tengja íslensku krónuna við þá norsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ágæti Ómar ef þú fylgdist með þingstörfum þá mundir þú sjá að þeir þrír þingmenn Frjálslynda flokksins sem þú segir að hafi rumskað núna hafa allir verið vel vakandi á Alþingi frá því að þeir voru kjörnir. Því fer fjarri að sú tillaga sem þú nefnir sé sú eina eða fyrsta sem við leggjum fram eða mælum fyrir. Ég bendi þér á að við höfum m.a flutt tillögur varðandi:
Afnám verðtryggingar
Innköllun kvótans
Afnám stimpilgjalds við íbúðarkaup
Margvísleg mál varðandi skatta- og tryggingamál svo fátt eitt sé nefnt. Á morgun mun ég væntanlega mæla fyrir frumvarpi mínu um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Þannig að því fer fjarri að við sitjum auðum höndum ágæti Ómar eins og þú vafalaust veist. Það mæðir mikið á þingmönnum í litlum þingflokki. Þannig er það bara.
Þú þarft að kynna þér tillöguna okkar því að þá sérðu að við erum eingöngu að nefna þessa hugmynd með norsku krónuna sem eina af fleirum. M.a. nefnum við hugsanlega einhliða upptöku Evru eins og Svartfjallaland gerði.
Mér er það ljóst að það eru skiptar skoðanir í Noregi á þessari tengingu og eitt skaltu gera þér grein fyrir. Þeir sem eru fylgjandi aðild að Evrópusambandinu í Noregi eru á móti því að tengjast okkur með þessum hætti. Andstæðingar Evrópusamabandsins eru hins vegar margir á þeirri skoðun að ná sem þéttastri tengingu við okkur.
Varðandi Kristinn þá verður þú að eiga orðastað við hann um það á hvaða vegferð han er.
Jón Magnússon, 26.11.2008 kl. 22:41
Eru einhverjir aðrir en ég á þeirri skoðun að efnahagslegt hrun Íslands, í skjóli þeirra regla sem EU hefur sett fjármálastofnunum. Sé hugsanlega eitthvað sem gæti virkað til að auka hróður og fylgi við inngöngu í EU ?
Hrappur Ófeigsson, 27.11.2008 kl. 00:15
Ísland getur ekki tekið upp evru "eins og Svartfjallaland gerði", og ástæðan fyrir því er eifölld. Áður en evran varð til sem gjaldmiðill notuðust svartfellingar við þýskt mark, sem gekk inn í evruna. Svartfjallaland hefur einskonar óformlegt samþykki fyrir því að notast við evru, en leiðtogar ESB hafa sagt það að einhliða upptaka evru verði illa liðin af þeim. Ég held að pirra okkar stæðsta útflutningsmarkaðar sé ekki vænlegt til árangurs.
Axel Þór Kolbeinsson, 27.11.2008 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.